Margrét K. Sverrisdóttir, formaður KRFÍ, flutti opnunarræðna á hátíðardagskrá kvenréttindadagsins 19. júní sl. í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Ræða í pdf skrá.


Frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari kvennafrídagsins 2010 og heiðursfélagi KRFÍ, Sigurborg Hermannsdóttir – einnig heiðursfélagi – og aðrir góðir gestir. Ég er Margrét
Sverrisdóttir formaður KRFÍ og býð ykkur öll velkomin til þessarar hátíðardagskrár .

19. júní er hátíðisdagur þar sem því er fagnað að 19. júní árið 1915 fengu konur á Íslandi kosningarétt til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá.

Fyrstu hátíðarhöldin voru því árið 1915 – fyrir 95 árum, þegar Kvenréttindafélagið og Hið íslenska kvenfélag efndu til hátíðar þegar Alþingi var sett. Alþingi fékk skrautritað ávarp og þingmenn hrópaðu húrra fyrir konum. Kvennakór söng á Austurvelli og Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason héldu ræður. Ingibjörg tilkynnti m.a. í ræðu sinni að næsta baráttumál kvenna yrði stofnun landspítala – og það gekk eftir.

Í ár eru fjölmörg merk tímamót í kvennabaráttunni sem konum er bæði ljúft og skylt að minnast: Það eru 95 ár liðin frá því að konur fengu kosningarétt, 80 ár liðin frá stofnun Kvenfélagasambands Íslands, 40 ár frá stofnun Rauðsokkuhreyfingarinnar, 35 ár frá fyrsta Kvennafrídeginum, 30 ár frá forsetakjöri frú Vigdísar Finnbogadóttur, 20 ár frá stofnun Stígamóta og 15 ár frá samþykkt Pekingáætlunarinnar, svo það helsta sé nefnt.

Kvenréttindafélag Íslands gefur jafnan út tímaritið 19. júní á þessum degi og hefur undanfarin ár einnig staðið fyrir hátíðardagskrá á Hallveigarstöðum ásamt Kvenfélagasambandi Íslands, Bandalagi kvenna í Reykjavík og Kvennasögusafni en í dag var ákveðið að efna til þessarar hátíðarsamkomu með það að meginmarkmiði að efla samstöðuna um kvennafrídaginn í ár.

Það er einnig árleg hefð að kvennasamtök hafi stutt messu Kvennakirkjunnar við Þvottalaugarnar í Laugardal og hefst hún kl. 20.00 í kvöld og ég hvet ykkur allar til að taka þátt í þeirri einstöku kvennasamkomu.

Almennt um stöðu kvennabaráttunnar:

Áfangasigrar hafa margir náðst í gegnum tíðina, m.a. fyrir tilstuðlan kvennasamtaka, auk róttækari hópa á borð við Rauðsokkurnar, Úurnar og Femínistana. Kvennafrídagurinn í október 1975 markaði sannarlega skil því í framhaldinu urðu Íslendingar fyrstir til að að kjósa konu sem forseta (og það einstæða móður – sem sýndi að á Íslandi væru þær ekki settar skör lægra en aðrar konur) og senda þau skilaboð út um víða veröld að það væri eðlilegt. Í framhaldi af því kom Kvennaframboðið og síðan Kvennalistinn, sem einnig voru skýr skilaboð um að konur kröfðust þess að taka fullan þátt í
samfélaginu.

En hverjir eru nýjustu áfangasigrarnir – hverju getum við fagnað sérstaklega í dag?

  • Forsætisráðherra er kona (og hún er samkynhneigð sem sýnir umheiminum að samkynhneigðar konur njóta fullra réttinda á Íslandi)
  • Hlutfall kvenna á Alþingi og í ríkisstjórn hefur aldrei verið hærra
  • Bann við vændiskaupum var lögleitt á sl ári og það ríkti sérlega mikil samstaða og eindrægni meðal kvennasamtaka í aðdraganda þess.
  • Þá var aðgerðaáætlun gegn mansali einnig samþykkt af yfirvöldum – sem er afar mikilvægt tæki í baráttunni gegn klámvæðingu.
  • Við getum fagnað því sérstaklega í dag að bann við nektardansi tekur gildi þann 1. júlí nk. og nektardansstaðir heyra því sögunni til.
  • Einnig kveða jafnréttislög nú skýrt á um að hlutfall kynja í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera skuli miða við 40-60% af hvoru kyni og það má geta þess að þessi regla er reyndar þegar farin að gagnast körlum því konur sækja vissulega á varðandi skipan í nefndum og ráðum.

Og það sem er óunnið enn, er að við konur höfum þurft að bíða lengi eftir ýmum öðrum sjálfsögðum réttindum, s.s. því að launamunur kynjanna verði jafnaður og að konur fái meiri raunveruleg völd, því þær eru í minnihluta í áhrifastöðum og í atvinnu- og viðskiptalífi þar sem hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur aðeins verið um 13% síðustu árin.

Konur hafa líka borið skarðan hlut frá borði í fjölmiðlum, þar sem þeirra hlutur hefur aðeins verið um 35% á móti 65% karla – en það hlýtur að jafnast eitthvað með öllum þessum viðtölum við forsætisráðherra!

Ábyrgð heimilishalds hvílir ennþá miklu fremur á konum en körlum, þrátt fyrir óvenju mikla atvinnuþátttöku kvenna hér.

Þá vil ég nefna annað sem mér finnst heldur hafa versnað varðandi stöðu kvenna í stjórnmálum. Ég hef sjálf hrærst í pólitík um árabil og þar finnst mér alltaf halla mjög á konur, þó það sé gjarnan erfitt að festa hönd á því. Ég verð oft vör við að einhverra hluta vegna þurfi að ,,gera vel við karla” en síður konur og mér finnst iðulega vera gengið framhjá konum þegar ekki væri gengið framhjá körlum í sömu
kringumstæðum.

Í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum urðum við líka vitni að því hvernig konu var úthúðað fyrir að vera femínisti. En hvað er að vera femínisti? Er það ekki að berjast fyrir jafnræði kynjanna, til dæmis gegn launamuni kynjanna sem alltaf er konum í óhag? Í dag fá konur aðeins um 65% af launum karla á meðan margfalt fleiri konur en karlar útskrifast með æðri menntun. Við líðum ekki að orðið femínisti sé notað sem skammaryrði.

Og þó ég segi að erfitt sé að festa hönd á þessari bælingu kvenna í stjórnmálum, þá get ég nefnt sem dæmi að mér finnst vera rík krafa uppi um að konur í pólitík séu einhvern veginn ,,symphatískari” en karlar. Þannig hefur Hanna Birna þótt ,,of hörð” og unnið var í að mýkja upp ímynd hennar á ýmsa lund í kosningabaráttunni en þá kom strax upp kvittur um að þar með gæti hún glatað ímynd sinni sem leiðtogaefni! Já, það er vandlifað í þessari pattstöðu kvenna í pólitíkinni.

Ég vil líka varpa því hér fram til umhugsunar, að í Fréttablaðinu í dag er viðtal við lesbíur sem búa í staðfestri sambúð og eiga tvær dætur. Þær segjast aldrei hafa mætt
fordómum í ,,kerfinu” og að þær telji að samkynhneigðir hafi öðlast full samfélagsleg réttindi með nýjustu réttarbótum. Hins vegar finnst þeim konur alls ekki njóta jafnréttis og benda þar meðal annars á óviðunandi launamun kynjanna.

Við verðum að herða kvennabaráttuna og þar er samstaðan okkar beittasta vopn og við skulum allar leggjast á eitt, undir merki Skottanna, til að kvennafrídagurinn í ár verði viðburður sem vekur heimsathygli.

Að lokum færi ég framkvæmdastjóra KRFÍ Halldóru Traustadóttur og verkefnisstýru Kvennafrídagsins 2010, Bryndísi Bjarnarson, sérstakar þakkir fyrir undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðardagskrár og Auði Styrkársdóttur, Kvennasögusafni fyrir gerð glærusýningar í tilefni dagsins.

Gleðilega hátíð!

Aðrar fréttir