19. júní er ársrit Kvenréttindafélags Íslands og með elstu tímaritum hér landi, en fyrsti árgangur blaðsins kom út árið 1951. Í rúmlega sextíu ár hafa í tímaritinu birst greinar sem tengjast konum, kvenfrelsi og kvennamenningu. Þessar greinar eru ómetanleg heimild um samfélagssögu síðustu áratuga.
Að þessu sinni er tímaritið gefið út með nýju sniði ætlað nýrri öld. 19. júní kemur út á rafrænu formi sem allir hafa aðgang að í snjallsímum, spjaldtölvum og á tölvum. Vitaskuld er svo hægt að prentað tímaritið í heild, eða hluta, út og lesa þannig.
Þessu nýja sniði fylgja bæði kostir og gallar. Það er óneitanlega sárt að geta ekki haldið á blaðinu, handleikið það, flett blaðsíðum í friði og ró, og sett það síðan upp í hillu ásamt fyrri árgöngum. Prentútgáfa hefur einnig sína galla. Fólk hendir tímaritum, týnir þeim, lánar vinum sínum sem skila þeim aldrei til baka. Með því að bjóða frjálsan aðgang að tímaritinu á netinu geta allir nálgast það hvenær sem er. Tímaritið er hannað til að vera lesið á sem flestum tækjum, hvort sem er á pínulitlum snjallsímum eða flennistórum tölvuskjám.
Til þess að halda upp á nýtt form á gömlu tímariti mun Kvenréttindafélag Íslands flytja eldri árganga af 19. júní yfir á rafrænt form og opna aðgang að þeim á heimasíðu félagsins.
Með því að gefa tímaritið út rafrænt viljum við ná til nýrrar kynslóðar, þá sér í lagi til nemenda í grunnskólum og menntaskólum. Sífellt fleiri nemendur kjósa að taka áfanga í samfélagsfræði, stjórnmálafræði og kynjafræði og efni tímaritsins hentar mjög vel þeim sem eru að kynnast hugmyndafræði kvenréttinda og réttindabaráttunnar og við vinnslu greinanna var leitast við að greinarnar væru í senn fræðandi og að þær tækju á málefnum sem brenna á samfélagi okkar þessa dagana.
Til dæmis birtist grein eftir Guðrúnu Elsu Bragadóttur um vistfemínisma og hvernig jafnrétti getur skipt höfuðmáli í umhverfisbaráttunni og grein eftir Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur um jafnlaunastaðalinn.
Einnig er hér að finna greinar í léttari kantinum, til dæmis er löng grein um Ásútgáfuna og ástarsögur og því velt upp hvort Rauða serían geti talist femínískt bókmenntaform. Sagt er frá nýjum félögum ungs fólks sem berjast fyrir jafnrétti og Helga Þórey Jónsdóttir skrifar femínískan annál þar sem hún rifjar upp skemmtisögur og hneykslismál í femínískum netheimum á árinu.
Við vonum að blaðið sé bæði skemmtilegt og fróðlegt. Við þökkum öllum þeim sem veittu hjálparhönd við gerð blaðsins og öllum þeim sem trúðu á blaðið og styrktu okkur, en fjöldi fyrirtækja og stofnana sendu okkur kveðjur og styrktarlínur sem birtar eru aftast í blaðinu.
Þið getið nálgast tímaritið með því að smella hér, eða á myndina fyrir ofan.