Afhending verðlauna Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2016. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org.
Afhending verðlauna Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2016. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org.

Afhending verðlauna Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 2016. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org.

Sláandi kynjabil er meðal tilefninga og handahafa menningarverðlauna Norðurlandaráðs samkvæmt nýrri rannsókn.

Norðurlandaráð veitir árlega fjögur verðlaun, Bókmenntaverðlaunum Norðurðurlandaráðs, Barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs, Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs og Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs. Norðurlandaráð hefur látið gera rannsókn á kynjahlutföllum meðal tilnefndra höfunda og listamanna og verðlaunahafa og eru niðurstöðurnar sláandi. Standa konur best að vígi þegar litið er á tilnefningar og verðlaunahafa í Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs, en kynjabilið er mun verra í öðrum menningarverðlaununum.

Hér kemur ágrip af niðurstöðum rannsóknarinnar, en hægt er að lesa hana í fullri lengd á síðu Norðurlandaráðs, Könsfördelning i Nordiska rådets kulturpriser (Kaupmannahöfn: Norðurlandaráð 2017).

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1962 og eru þau veitt árlega fyrir verk eftir núlifandi rithöfund. Verðlaununum er stýrt í Norræna húsinu í Reykjavík.

56 rithöfundar hlutu Bókmenntaverðlaun Norðurlands 1962–2016, þar af voru 43 karlar (77%) og 13 konur (23%). Á sjöunda og áttunda áratugnum voru það einungis karlar sem hlutu verðlaunin, fyrsta konan til að hljóta verðlaunin var sænski rithöfundurinn Sara Lidman sem fékk þau árið 1980 fyrir bókina Vredens barn.

Kynjahlutföll í tilnefningum og verðlaunum fóru fyrst batnandi á 10. áratugnum og síðasta áratuginn (2007–2016) er jafnræði meðal kynjanna, fimm konur hlutu verðlaunin og fimm karlar. Síðasta áratuginn hefur einnig verið jafnt kynjahlutfall í tilnefningum, 64 konur og 66 karlar hafa verið tilnefnd.

Hér er tafla úr skýrslu Norðurlandaráðs þar sem kynjahlutföll Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1962–2016 sjást skýrt.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru yngstu menningarverðlaun ráðsins, en þau voru fyrst veitt árið 2013. Verðlaununum er stýrt í Norræna húsinu í Reykjavík.

Konur eru í meirihluta þeirra sem tilnefnd eru til verðlaunanna, en 70% konur hljóta tilnefninga og karlar 30%. (Athugið, reiknilíkan Norðurlandaráðs í þessari rannsókn er eilítið flókið. 54 verk hafa verið tilnefnd til verðlaunanna, mörg með fleiri en einum höfundi mynda og texta. Hvert verk er talið sem ein tilnefning, og ef höfundar eru fleiri eru þeir deildir niður á bókina. Skv. þessari formúlu eru tilnefnd verk eftir konur 37,7 og tilnefnd verk eftir karla 16,3.)

Konur eru því í miklum meirihluta þeirra sem tilnefndir eru, en aðra sögu er að segja þegar litið er til verðlaunahöfunda. Síðan verðlaunin voru fyrst afhent 2013 hafa sex höfundar hlotið verðlaunin, ein kona og fimm karlar.

Hér er tafla úr skýrslu Norðurlandaráðs þar sem kynjahlutföll Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2013–2016 sjást skýrt.

Eru þetta yngstu verðlaun Norðurlandaráðs svo ekki er um stórt þýði að ræða þegar kynjahlutföll eru greind, en verður þó að segjast að þessi mikli munur á milli fjölda kvenna sem tilnefndar eru til verðlaunanna og fjölda kvenna sem hljóta verðlaunin lofar ekki góðu.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kynjabilið er mjög slæmt í Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt árlega fyrir eina kvikmynd í fullri lengd og eru verðlaunin afhent þremur aðilum: leikstjóra, handritahöfundi og framleiðanda. Verðlaununum er stýrt af Nordisk Film & TV Fond í Osló.

Á árunum 2007–2016 voru karlar 80% tilnefndra aðila og 87% verðlaunahafa. Í um helming tilnefndra kvikmynda, 48% (og 60% þeirra sem hlutu verðlaunin) voru karlmenn í öllum þremur hlutverkum. Aðeins ein tilnefnd kvikmynd síðustu tíu árin hefur haft konur í hlutverki leikstjóra, handritshöfunds og framleiðanda. Flestar konur sem hafa verið tilnefndar til verðlaunanna hafa gegnt hlutverki framleiðanda (2/3 tilnefninga kvenna). Síðan 2007 hefur aðeins ein kona tekið á móti verðlaununum í hlutverki leikstjóra (2011) og engin í hlutverki handritshöfunds.

Kynjahlutföllin hafa verið meira og minna þau sömu síðustu tíu árin og hefur ekki borið á þróun í átt til jafnréttis í þessum flokki.

Hér er tafla úr skýrslu Norðurlandaráðs sem sýnir til vinstri kynjahlutföll tilnefninga til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2007–2016 og til hægri kynjahlutföll verðlaunahafa.

Og hér er tafla úr skýrslu Norðurlandaráðs sem sýnir fjölda kvenna og karla sem tilnefnd hafa verið til Kvikmyndaverðlauna 2007–2016 og þeirra sem unnið hafa til verðlaunanna.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Kynjabilið er mjög slæmt í Tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst afhent árið 1962 og hafa þau verið veitt árlega síðan 1990. Annað hvert ár eru veitt verðlaun til núlifandi tónskálds og hitt árið eru þau veitt til hljómsveita eða til tónlistarmanns. Verðlaununum er stýrt í Norræna húsinu í Færeyjum.

73% þeirra sem tilnefndir voru til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007–2016 voru karlar og voru þeir einnig 83% handhafar verðlaunanna (þessar tölur taka ekki tillit til stærri hljómsveita með fleiri en tíu meðlimum). Síðustu tíu árin hafa 8 einstaklingar hlotið verðlaunin, þar af ein kona og sjö karlar. Árið 2008 vann tvíeyki, ein kona og einn karl, og árið 20078 vann kór verðlaunin og eru meðlimir hans ekki inni í þessari talningu.

Hér er tafla sem sýnir kynjahlutföll Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007–2016.

Hægt er að lesa rannsóknina Könsfördelning í Nordiska rådets kulturpriser á vefsíðu Norrænu ráðherranefndarinnar og er fast netfang skýrslunnar: urn:nbn:se:norden:org:diva-4970.

Aðrar fréttir