Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands var haldinn 25. maí 2020. Þetta var fyrsti aðalfundur í 113 ára sögu félagsins sem einnig var haldinn rafrænt.
Fundurinn var haldinn í Veröld, húsi Vigdísar, og gátu þátttakendur einnig tekið þátt í gegnum fjarfundarkerfið Zoom. Á fundinum var kosið til stjórnar, auk þess sem aðalfundur samþykkti að skerpa orðalag stefnuskrár félagsins og að ganga úr Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Aðalfundur skoraði á stjórn Kvenréttindafélags Íslands að beita sér fyrir virkri umræðu um kynjajafnrétti á tímum Covid-19.
Kvenréttindafélag Íslands er einn stofnaðili Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur sem stofnuð var 20. apríl 1928 til að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar. Stjórn Kvenréttindafélag Íslands er stolt af aðkomu félagsins að starfi Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur í gegnum tíðina, en telur þó starfsemi nefndarinnar ekki falla að áherslum í starfi félagsins í dag.
Hjartað í starfi Kvenréttindafélags Íslands er réttindabarátta, ekki þjónusta. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur sem og fjölmörg önnur samtök hafa verið stofnuð síðustu áratugina til að sinna þjónustu í þágu kvenna og vinna þau frábært starf. Óskar Kvenréttindafélag Íslands Mæðrastyrksnefnd velfarnaðar í starfi og mun styðja við baráttu þeirra með öflugri baráttu fyrir réttindum kvenna, þá sérstaklega rétti til lífs án fátæktar.
Þrjár nýjar stjórnarkonur voru kosnar á fundinum. Dóra Magnúsdóttir, Rut Einarsdóttir og Sólveig Jónasardóttir tóku sæti í varastjórn Kvenréttindafélagsins. Helga Baldvins Bjargardóttir, Hjördís Guðný Guðmundsdóttir og Steinunn Stefánsdóttir viku úr stjórn, og hljóta þær kærar þakkir fyrir góð störf í þágu félagsins.
Steinunn Stefánsdóttir var kvödd á fundinum með gjöf frá stjórn félagsins, en hún hefur setið í stjórn Kvenréttindafélags Íslands síðan 2013 þegar hún tók við embætti formanns. Á sinni stjórnartíð hóf Steinunn það mikilvæga starf að skerpa á stefnu og starfi félagsins, til að efla þennan femíníska félagsskap til áframhaldandi baráttu á nýrri öld.
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2020 sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með bein ógn við lýðræði á Íslandi.
Alls hefur 35,7% alþingisfólks orðið fyrir einelti við starf sitt, 23,3% hefur reynslu af því að myndir og/eða ummæli um þau með kynferðislegum vísunum hafa birst í fjölmiðlum og 29,5% hefur orðið fyrir ítrekaðri og ógnandi áreitni sem hefur vakið hjá þeim óhug eða ótta. Alls hafa 16% þeirra sem starfa á Alþingi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starfið.
Þetta er meðal niðurstaða úr rannsókn sem gerð var á vinnumenningu á Alþingi árið 2020 sem náði bæði yfir starfsfólk og kjörna fulltrúa Alþingis
Bæði konur og karlar eru þolendur þvílíkrar hegðunar, en ljóst er þó að konur á Alþingi verða frekar fyrir áreitni og ofbeldi. Konur og karlar sem starfa á Alþingi greindu í jafn miklum mæli frá því að hafa orðið fyrir einelti en 24,4% kvenna greindu frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt á Alþingi en tæplega 6% karla.
Hlutfallslega fleiri þingkonur en þingkarlar hafa reynslu af því að myndir og/eða ummæli um þær með kynferðislegum vísunum hafa verið birtar í fjölmiðlum, 31,6% þingkvenna en 16,7% þingkarla. Þegar kemur að ítrekaðri, ógnandi áreitni hafa alls 36,8% þingkvenna orðið fyrir því en 24% þingkarla.
Í rannsókninni var einnig spurt hvort alþingisfólk teldi kynferði sitt hafa neikvæð áhrif á möguleika sína á framgangi í starfi. Alls telja 59% þingkvenna kyn sitt hamla framgangsmöguleikum sínum, samanborið við 17% þingkarla.
Rannsóknin var unnin í kjölfar frásagna af áreitni og ofbeldi sem konur hafa orðið fyrir í íslenskum stjórnmálum, sem birtar voru í lok árs 2017 undir myllumerkinu #MeToo ásamt áskorun 306 stjórnmálakvenna að uppræta slíkt ofbeldi. Í kjölfarið kom holskefla frásagna þar sem konur á Íslandi greindu frá eigin reynslu af áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði.
#MeToo bylgjan er engan veginn gengin yfir. Þúsundir kvenna hafa undirritað #MeToo áskoranir og hundruð hafa deilt frásögnum af ofbeldi og áreitni, en lítið hefur þó breyst síðan fyrstu frásagnirnar voru gerðar opinberar. Enn þurfa konur að þola áreitni og ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði og enn hefur ekki verið ráðist í stórtækar aðgerðir til að uppræta þetta ofbeldi.
Kvenréttindafélag Íslands var stofnað fyrir 113 árum til að tryggja það að konur gætu tekið þátt í samfélaginu á sömu forsendum og karlar, að þær hefðu sama rétt og karlar til stjórnmálaþátttöku, náms, embætta og atvinnu. Þótt mikið hafi áunnist á þessum langa tíma þá er grundvöllurinn að starfi félagsins enn sá sami. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna skýrt að þrátt fyrir að konur hafi sama formlega rétt til stjórnmálaþátttöku og karlar, þá sitja þær ekki við sama borð.
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands krefst þess að Alþingi sem og sveitastjórnir grípi til tafarlausra aðgerða til að uppræta kynferðislegt ofbeldi og áreitni í hvívetna. Enn fremur krefst aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands þess að stjórnmálaflokkar grípi til tafarlausra aðgerða til að uppræta kynferðislegt ofbeldi og áreitni innan stjórnmálahreyfinga.
Nú er nóg komið. Stöndum saman gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Byltum samfélaginu, saman.