Kvenréttindafélag Íslands fordæmir umræðu og orðræðu í garð tveggja kvenna sem hittu menn úr enska knattspyrnulandsliðinu á hóteli í Reykjavík nýlega. Með samskiptum sínum við konurnar gerðust mennirnir brotlegir við sóttvarnalög þar sem þeir voru í sóttkví. Mál þetta komst í hámæli á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum bæði í Bretlandi og hér heima.
Sú umfjöllun sem hefur fylgt í kjölfarið og sú orðræða sem notuð er um konurnar tvær er ein birtingarmynd þess stafræna ofbeldis sem viðgengst á netmiðlum um heim allan. Umræðan afhjúpar þann tvískinnung sem einkennir nauðgunarmenningu þar sem karlar eru afsakaðir og konur gerðar ábyrgar. Þrátt fyrir að karlarnir hafi verið þeir sem gerðust brotlegir við sóttvarnarlög eru það konurnar sem verða fyrir hvað harðastri gagnrýni og mega þola óheyrilegar svívirðingar, persónulegan óhróður og drusluskömmun frá netverjum og fjölmiðlamönnum.
Þessi umræða og skömmun er dæmi um stafrænt ofbeldi, sem hefur aukist á undanförnum árum með nýrri tækni og aukinni notkun á samfélagsmiðlum. Stafrænt ofbeldi og áreiti er kynjað fyrirbæri. Í nýlegri rannsókn World Wide Web Foundation segjast 52% stúlkna og ungra kvenna hafa orðið fyrir stafrænu ofbeldi, 64% ungs fólks þekkja einhvern sem orðið hefur fyrir stafrænu ofbeldi og 87% telja að vandamálið sé að versna.
Stafrænt ofbeldi gegn konum og stúlkum kemur í veg fyrir fulla þátttöku kvenna í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu og er því bein ógn við lýðræðið sjálft. Rannsóknir benda til þess að þau sem verða fyrir stafrænu ofbeldi líði fyrir það bæði á netinu og í raunheimum. Ofbeldi og hótanir veldur því að fólk, sérstaklega konur, ritskoðar sig á netinu og jafnvel veigrar sér við að nota internetið. Stafrænt ofbeldi getur einnig valdið því að þolendur breyti sínum daglegum venjum utan internetsins og dragi sig í hlé í félagslegum samskiptum.
Kvenréttindafélag Íslands hefur gert rannsókn á mismunandi birtingarmyndum stafræns ofbeldis á Norðurlöndunum og hvernig þolendur upplifa leitina að réttlæti vegna þessa ofbeldis. Leiddi sú rannsókn í ljós ákveðna vantrú á réttarkerfinu á Íslandi. Meirihluti kvenna sem höfðu upplifað ofbeldi á netinu og haft var samband við höfðu ekki leitað réttlætis. Þær töldu það ekki hafa neitt upp á sig að leita hjálpar eða kæra og sögðu kerfið ekki virka. Rannsóknina má finna hér.
Kvenréttindafélag Íslands áréttar að mikilvægt sé að öll átti sig á því að sú orðræða sem beinist gegn tveimur konum um þessar mundir er ekki eingöngu skaðleg þeim persónulega heldur samfélaginu öllu. Kvenréttindafélag Íslands fordæmir alla slíka orðræðu og umfjöllun.