24. október 2020
24. október 1975 lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í dag, 45 árum síðar, er framlag kvenna til samfélagsins ekki enn að fullu metið að verðleikum.
Konur eru enn með 25% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 15:01.
Við glímum við mesta heimsfaraldur í heila öld. COVID-19 hefur haft gríðarleg áhrif á efnahag okkar, heilsu og jafnrétti. Konur bera hitann og þungan af baráttunni gegn faraldrinum og verða að sama skapi fyrir mestum skaða af völdum hans, fjárhagslegum, heilsufarslegum og samfélagslegum.
Konur sinna að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta, eða framlínustörf. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun.
Það eru þessar konur sem eru í mestri smithættu og þær vinna oftast undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Þetta eru störf sem verður að vinna á staðnum, bjóða ekki upp á fjarvinnu og sveigjanleika, sem leiðir til þess að erfitt er fyrir konurnar að bregðast við aðstæðum heima fyrir t.d. lokun skóla og leikskóla, veikindum og umönnun fjölskyldumeðlima.
Faraldurinn hefur einnig haft þær afleiðingar að heimilisofbeldi hefur aukist út um allan heim og er Ísland þar engin undantekning. Í maí á þessu ári höfðu borist um 11% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi til lögreglu en á sama tímabili árin á undan.
COVID-19 hefur afhjúpað hið grimma vanmat á hefðbundnum kvennastörfum sem er í engu samræmi við mikilvægi þeirra. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það. Konur í framlínustörfum eiga miklar þakkir skilið fyrir hetjudáð sína og seiglu í krefjandi aðstæðum. En þær lifa ekki á þökkunum einum saman.
Við krefjumst þess að:
- Störf kvenna séu metin að verðleikum og kjör tryggð
- Kjör starfsfólks í framlínunni í baráttunni við COVID-19 verði tryggð og álagsgreiðslur sanngjarnar
- Allar aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna COVID-19 fari í jafnréttismat, svo að tryggt sé að þær gagnist öllum kynjum jafnt
- Grundvallarmannréttindi séu ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og viðbrögðum við faraldrinum, svo engin þurfi að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, félagslega stöðu eða efnahag
- Öryggi kvenna á vinnustöðum og á heimilum sé tryggt
Sköpum saman samfélag í kjölfar COVID-19 sem byggir á jafnrétti. Metum störf kvenna að verðleikum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Kjarajafnrétti STRAX!
—
Alþýðusamband Íslands
Aflið
Bandalag háskólamanna
Bandalag kvenna í Reykjavík
BSRB
Delta Kappa Gamma – Félag kvenna í fræðslustörfum
Dziewuchy Islandia
Femínísk fjármál
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
IceFemIn
Kennarasamband Ísland
Knúz.is
Kvenfélagasamband Íslands
Kvennahreyfing ÖBÍ
Kvennaráðgjöfin
Kvenréttindafélag Íslands
Samtök um kvennaathvarf
Samtökin ’78
Stígamót
UNWomen á Íslandi
WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi
W.O.M.E.N. in Iceland