Kvenréttindafélag Íslands hefur sent eftirfarandi áskorun til stjórnmálafólks og stjórnmálaflokka í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2020:
4. janúar 2022
Hallveigarstaðir, Reykjavík
Heilir og sælir, kæru kjörnu fulltrúar á sveitarstjórnarstigi!
Kvenréttindafélag Íslands skorar á íslenska stjórnmálaflokka að huga að jafnri þátttöku kvenna og fjölbreytileika í framboðslistum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.
Konum sem eru kjörnar í sveitarstjórnir hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu árin og eru eftir síðustu kosningar 47% sveitarstjórnarfulltrúa. Jafnt hlutfall kvenna á við karla í sveitarstjórnum er stóráfangi í sögu íslenska lýðveldisins og honum ber að sjálfsögðu að fagna. En einnig er okkur nauðsynlegt að hlúa að þessum árangri, því ef ekki er að gætt er hætta á því að konum fækki á ný í sveitarstjórnum. Skemmst er að minnast Alþingiskosninganna 2017, þegar hlutfall kvenna á Alþingi hrapaði niður úr 47% í 38%.
Í þessu samhengi má minnast á Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum sem gefinn var út árið 2006 af Evrópusamtökum sveitarfélaga (CEMR) sem Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að, og sem undirritaður hefur verið af Akranesi, Akureyri, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Reykjavíkurborg ásamt 1682 öðrum sveitarfélögum í 34 löndum. Í sáttmálanum stendur að „jöfn þátttaka kvenna og karla og jöfn hlutföll þeirra í ákvarðanatöku og leiðtogastöðum sé nauðsynleg fyrir lýðræði“.
Að sama skapi er nauðsynlegt að tryggja fjölbreytileika í framboðslistum til sveitarstjórnarkosninga og huga að þátttöku innflytjenda, hinsegin fólks, fatlaðs fólks og allra að sveitarstjórnarmálum. Íslensk sveitarfélög eru nú fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og aðkallandi að tryggja að framboðslistar stjórnmálaflokka séu lýsandi fyrir íbúa sveitarfélagsins og geta þannig með sanni haft hagsmuni allra að leiðarljósi.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslenska stjórnmálaflokka til að setja sér reglur sem tryggja jafnan hlut kvenna á framboðslistum sínum og í oddvitastöðum. Ennfremur hvetur Kvenréttindafélag Íslands stjórnmálaflokka til að gæta að fjölbreytileika í framboðslistum sínum og í oddvitastöðum.
Kvenréttindafélag Íslands í samstarfi við Jafnréttisstofu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Fjölmenningarsetur, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og forsætisráðuneytið standa á næstu vikum fyrir átaki um vitundarvakningu þar sem mikilvægi fjölbreytileika í sveitarstjórnum er til umfjöllunar ásamt hvatningu til að kjósa fjölbreytt fólk til stjórnar. Verkefnið er hluti af byggðaáætlun stjórnvalda.
Bestu kveðjur,
Tatjana Latinovic
Formaður Kvenréttindafélags Íslands