Birta Ósk, starfsnemi Kvenréttindafélags Íslands, hefur verið að rannsaka félagslega stöðu kvára á Íslandi og segir mikla þörf á vitundarvakningu um hópinn, sem sé að miklu leyti ósýnilegur. Hán segir að bæði almenningur og stjórnvöld geti gert margt til að sporna við þeim hindrunum sem kvár mæta.
Birta Ósk verður með erindi á fimmtudaginn næstkomandi klukkan 16 í Borgarbókasafninu Grófinni sem ber heitið „Jafnrétti kynjanna – hvar passa kvár?“. Erindið er hluti af dagskrá Hinsegin daga og þar kynnir hán rannsókn sína.
Eflaust þekkja sumir ekki einu sinni merkingu orðsins kvár, en orðið varð til í janúar 2020.
„Kvár er nafnorð og regnhlífarheiti yfir alla fullvaxta kynsegin einstaklinga sem samsvarar nafnorðunum karl og kona. Það vantaði nafnorð, því að kynsegin er lýsingarorð,“ segir Birta. „Það er nokkuð góð samstaða í hinsegin samfélaginu um að þetta sé gott orð yfir hópinn, en það eru líka til kynsegin einstaklingar sem nota ekki orðið og finnst það ekki eiga við sig.“
Birta er að gera eigindlega rannsókn á stöðu kvára á Íslandi og jaðarsetningunni sem þau upplifa og tekur til þess viðtöl við kvár á öllum aldri.
„Það er mjög misjafnt hvað kynið kvár þýðir fyrir þennan hóp. Sum upplifa sig alveg fyrir utan kynjatvíhyggjuna kona og karl, sum upplifa sig sem bæði og sum upplifa að þau séu meira öðru hvoru megin,“ segir hán. „Þetta er allt gott og gilt og engin er meira eða minna kvár. Þetta er alveg eins og með karla og konur. Það er mjög misjafnt hversu karlmannlegt eða kvenlegt fólk upplifir sig.“
Skýrsla um rannsóknina væntanleg í september
Birta er sjálf kvár og meistaranemi í kynjafræði. Hán segir að sér finnist kyn og kynupplifanir ótrúlega áhugavert fyrirbæri.
„Mig langaði líka að hjálpa samfélaginu mínu og vera hluti af jákvæðum breytingum,“ segir hán. „Ég byrjaði á rannsókninni í júní og er enn að vinna úr gögnunum mínum, en skýrsla um rannsóknina verður aðgengileg á vef Kvenréttindafélags Íslands í september. Vonandi hefur hún góð áhrif og stuðlar að aukinni vitundarvakningu, samþykki á kvárum og því að hrint verði af stað aðgerðum sem stuðla að jafnrétti fyrir kvár á Íslandi.“
Birta hefur verið starfsnemi hjá Kvenréttindafélaginu í sumar á meðan rannsóknin fer fram, en hán vann hugmyndasamkeppni Kvenréttindafélagsins og rannsóknin fékk svo styrk hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna.
„Við höfum mjög mikið stutt hinsegin samfélagið til að ná jafnrétti milli allra, óháð kyni, og þannig styrkja samfélagið í heild,“ segir Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins. „Okkur leist afar vel á hugmyndina hennar Birtu. Það er ekki nógu mikið talað um þetta í samfélaginu og það vantar rosalega mikla vitundarvakningu um þetta.“
Vitum ekkert um stöðu kvára
„Þegar við fjöllum um kynjajafnrétti eru kvár oft ekki tekin inn í myndina, þannig að við vitum í raun mjög lítið um hvernig misrétti birtist hjá kvárum. Mig langaði að skoða þetta vísindalega og í leiðinni koma með hugmyndir um hvað er hægt að bæta til að stuðla að jafnrétti fyrir hópinn,“ segir Birta. „Mér finnst skipta máli að horfa á þetta út frá kynjajafnréttissjónarhorni, af því að þetta er oft tekið til hliðar og litið á þetta sem eitthvað sem hinsegin samfélagið er að eiga við, en þetta er í raun hluti af kerfislægu kynjamisrétti. Allt fólk á að standa jöfnum fæti og hafa sama rétt í samfélaginu til að gera það sem það vill og tjá sig eins og það vill, óháð kyni sínu.“
„Það skiptir miklu að fólk sé viðurkennt í sínu kyni og hafi jöfn tækifæri, til starfs, menntunar og þátttöku í samfélaginu, óháð kyni,“ bætir Rut við.
„Það hefur vissulega orðið vitundarvakning en hún þarf að vera miklu meiri. Við þekkjum til dæmis alls konar tölfræði um kynjamisrétti, en vitum eiginlega ekkert um stöðu kvára,“ segir Birta. „Við vitum ekki neitt um fjölskyldumynstur kvára, við hvað þau vinna, hvað þau eru að læra og gera. Þau hafa einhvern veginn bara verið útilokuð í umræðu og rannsóknum um kynjajafnrétti. Það er stóra vandamálið. Kvár eru bara svo ósýnileg í íslensku samfélagi.“
Það er mikilvægt að ögra kynjahlutverkum
„Það eru líka mörg sem trúa enn á þessi kynbundnu hlutverk, að karlar séu betri í hinu og þessu og konur í öðru og vita ekki alveg hvar þau eiga að setja kvár í þetta,“ segir Rut. „Þess vegna er svo mikilvægt að ögra þessum kynjahlutverkum. Það tengist ekkert kyni fólks hvað það getur gert.“
„Sum eru á móti kvárum og trúa ekki að þau séu til því það eitt að vera kvár ögrar þessum kynbundnu hlutverkum og staðalímyndum um kynin,“ segir Birta. „Þetta ögrar grundvallarheimssýn fólks og þess vegna getur það verið svo flókið fyrir fólk að endurskoða sínar hugmyndir.“
Hindranir í öllum kerfum
„Kvár mæta mörgum hindrunum í samfélaginu. Meginhindrunin er þessi ósýnileiki og að fólk gerir alltaf ráð fyrir því að þú sért karl eða kona svo þú þarft sífellt að vera að koma út fyrir nýju fólki og sanna fyrir því kynið þitt,“ segir Birta. „Það er ekki gert ráð fyrir kvárum í samfélaginu og ég sé hindranir í öllum kerfum. Í heilbrigðiskerfinu þarf til að mynda að efla trans teymið töluvert. Það er mjög langur biðlisti, það eru óþarfa skref í ferlinu og það þarf líka að fræða lækna um hvernig á að tala við og þjónusta kvár og annað trans fólk.
Í mörgum skólum er núna auðveldara að breyta nafninu sínu og fornöfnum í skráningu, en það getur verið vesen að fá kennara og samnemendur til að nota rétt nafn og fornöfn. Fólk hefur lýst alls konar fordómum og mótlæti í skólunum,“ segir Birta. „Á vinnustöðum er þetta svipað og mörg segjast ekki koma út þegar þau sækja um störf af ótta við að fá þau ekki. Svo þegar þau koma inn á vinnustaðinn þurfa þau að meta aðstæður áður en þau þora að koma út.
Það getur líka verið hindrun fyrir kvár að nota alla kynjaða aðstöðu, eins og salerni og búningsklefa sundlauga. Það er mjög alvarlegt því það útilokar kvár til dæmis frá stórum hluta af menningu Íslendinga að komast ekki í sund,“ segir Birta.
Birta segir að það sé líka fólk sem segist viðurkenna kvár en breytir ekki endilega hegðun til að sýna það í verki. „Þetta fólk notar til dæmis ekki réttu fornöfnin eða nýju nöfnin sem kynsegin fólk biður það um,“ segir hán.
Þurfum að hlusta, trúa og styðja
„Svo er það líka bein hatursorðræða. Flest kvár upplifa það ekki með beinum hætti, en heyra það útundan sér eða sjá það í Facebook-pósti eða skoðanagreinum. Það hefur djúpstæð og erfið áhrif á sálarlíf fólks, það fer lengra inn í skápinn og þorir síður að koma út,“ útskýrir Birta. „Svo er náttúrulega líka valdamikið fólk sem er beinlínis á móti kvárum, sem er mjög alvarlegt, því það setur fólk sem er kynsegin í mjög slæma stöðu og það þarf stöðugt að vera á varðbergi. Þannig að það er ekkert auðvelt að koma út og ég get nánast fullyrt að það eru mjög mörg kvár sem þora ekki að koma út.“
„Þegar háttsettir embættismenn tala gegn ákveðnum hópum er það líka ekki bara árás á þennan tiltekna hóp innan hinsegin samfélagsins heldur hefur það áhrif á allt samfélagið,“ bendir Rut á.
„Þetta gerir það líka að verkum að sís fólk sem styður kvár er hræddara við að tala fyrir hópinn og leiðrétta annað fólk,“ segir Birta. „En það er svo mikilvægt að það geri það, því það er mikið léttara fyrir fólk í forréttindastöðu að taka þennan slag og mjög erfitt fyrir kvár að vera sífellt sett í þá stöðu að þurfa að leiðrétta og sannfæra aðra um hver þau eru.“
„Það er líka mikið af fólki sem segist ekki skilja, en mér finnst ekki endilega mikilvægast að skilja. Aðalatriðið er að virða fólk sem er ólíkt og hlusta, trúa og styðja,“ segir Rut. „Það þarf bara að leyfa fólki að vera eins og það er.“
„Það er bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks núna, sem er sorglegt að sjá. En þess vegna finnst mér til dæmis ótrúlega mikilvægt að hlusta á það sem Trans Ísland segir. Þau eru að leiðrétta rangfærslur, en því miður er klárt fólk oft að segja ranga og skaðlega hluti,“ segir Birta.
„Það er mikið bakslag í Evrópu í heild. Það er mikilvægt að við tökum á því strax á Íslandi svo þessi umræða komist ekki á loft hérna. Við þurfum að taka slaginn og hlusta á fólk sem talar frá eigin reynslu,“ bætir Rut við.
Kemur með tillögur til stjórnvalda um hluti sem má bæta
„Í erindinu mínu á fimmtudaginn kynni ég rannsóknina mína og bendi á hvernig hægt er að sporna við þessu. Við getum öll gert eitthvað. Bætt okkur, frætt okkur um málefni kvára, vandað okkur að tala í kynhlutlausu máli þegar á við og tala rétt við og um kvár. Sís fólk getur verið mun duglegra að standa með kvárum og trans fólki og leiðrétt rangfærslur eða þegar annað fólk er að rangkynja og fara með rangt mál eða beinlínis hatursorðræðu,“ segir Birta. „Stjórnvöld geta líka bætt ýmislegt og ég mun koma með tillögur til þeirra í skýrslunni minni. Þau þurfa að skoða þessar kerfislægu hindranir sem eru til staðar. Það virðist vera að í öllum kerfum megi breyta einhverju og bæta.“
„Það var stórt skref þegar kvár voru viðurkennd í jafnréttislögum, en þessi viðurkenning þarf að ná til miklu fleiri laga en bara jafnréttislaga,“ segir Rut.
„Það var líka mjög stórt og mikilvægt skref þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt árið 2019, en þar er samt líka margt sem má bæta. Kannski ekki síst í að framfylgja þeim lögum,“ segir Birta.
„Ég er mjög spennt fyrir viðburðinum á fimmtudaginn og held að þetta verði rosalega gaman. Vonandi taka líka sem flest þátt í umræðunum sem fara þar fram, því þetta er verkefni sem við þurfum öll að taka þátt í,“ segir Birta að lokum.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu
Höfundur: Oddur Freyr Þorsteinsson