Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fór fram fimmtudaginn 23. mars í Iðnó, og með rafrænum hætti. Ný stjórn var kjörin og var Tatjana Latinovic endurkjörin formaður félagsins. Einnig sendi fundurinn frá sér tvennar ályktanir með hvatningu til stjórnvalda:
Kynjafræði skuli vera skyldufag í kennaramenntun á Íslandi
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2023 hvetur íslensk stjórnvöld og háskólastofnanir til að innleiða kynjafræði sem skyldufag í kennaramenntun og öðru uppeldisnámi á háskólastigi á Íslandi.
Menntun í kynja- og jafnréttisfræðum, þar sem áhersla er lögð á kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum er mikilvægt fyrsta skref í þá átt að byggja samfélag án ofbeldis. Undirstaða þess að kenna kynjafræði á öllum skólastigum er að allt kennaramenntað fólk hafi hlotið grunnþjálfun í kynjafræði á háskólastigi.
Við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er í dag boðið upp á kynjafræði sem valfag. Nýverið stefndi í að valfagið kynjafræði yrði ekki í boði á komandi misserum vegna hagræðingaaðgerða innan Menntavísindasviðs en valfög lenda iðulega og reglulega undir niðurskurðarhníf innan Háskóla Íslands. Til að tryggja að kynjafræði sem námsgrein nái til allra sem stunda kennaranám er nauðsynlegt að gera kynjafræði að skyldufagi í kennaranámi og öðru uppeldisnámi á háskólastigi á Íslandi.
Áskorun til íslenskra stjórnvalda að sýna femíníska og pólitíska forystu og ábyrgð gagnvart mannréttindabrotum á konum
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2023 skorar á íslensk stjórnvöld að sýna femíníska pólitíska forystu og ábyrgð gagnvart mannréttindabrotum á konum með því að:
- Vera leiðandi rödd á alþjóðavettvangi þess efnis að öll ríki framfylgi Heimsmarkmiði 5 þannig að konur njóti fullra mannréttinda á heimsvísu.
- Fordæma glæpi gegn konum og minnihlutahópum sem framin eru af stjórnvöldum í Íran, Afganistan og öðrum þjóðríkjum
- Taka tillit til viðkvæmrar stöðu kvenna og minnihlutahópa sem leita hælis á Íslandi.
- Hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn skilyrðislaust og án tafar.
- Innleiða Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna (CEDAW).
Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til þess að mæta ofangreindum kröfum og geri hverjar aðrar þær ráðstafanir sem þarf til að tryggja að alþjóðasamfélagið bregðist við bakslagi í kvenréttindum á alþjóðavettvangi. Aðeins þannig er hægt að treysta lýðræði og áframhaldandi framþróun í jafnréttismálum á tímum þegar aðför að kvenréttindum fer vaxandi víða um heim.
Stjórn og nefndir
Á aðalfundi var kosið í stjórn og nefndir Kvenréttindafélags Íslands. Tvær nýjar stjórnarmanneskjur voru kjörnar í stjórn félagsins, Ásbjörg Una Björnsdóttir og Birta Ósk Hönnudóttir. Þakkar félagið fráfarandi stjórnarkonum Claudiu A. Wilson og Sólveigu Jónasdóttur fyrir störf sín í þágu félagsins. Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins og Tanja Teresa Leifsdóttir voru kjörnar fulltrúar Kvenréttindafélags Íslands til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Fríða Rós Valdimarsdóttir voru kjörnar sem fulltrúar félagsins til European Women’s Lobby.
Í stjórn Kvenréttindafélags Íslands sitja nú Tatjana Latinovic formaður, Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Ásbjörg Una Björnsdóttir, María Elísabet Hjarðar og Joanna Marcinkowska. Birta Ósk Hönnudóttir, Stefanía Sigurðardóttir og Tanja Teresa Leifsdóttir eru varamenn í stjórn.
Margar áskoranir bíða stjórnar Kvenréttindafélags Íslands, ekki síst vegna samfélagslega áskorana sem enn herja á í kjölfar heimsfaraldursins COVID-19, þegar þrengir verulega að réttindum og hag kvenna á mörgum sviðum. Félagið mun halda áfram að vera leiðandi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti og leggja sitt af mörkum í að byggja réttlátt samfélag og hagkerfi í kjölfar COVID-19. Við hlökkum til að fagna sumrinu og áframhaldandi feminískri baráttu á Kynjaþingi sem fer fram 13. Maí næstkomandi í Veröld – hús Vigdísar.