Ábendingar Kvenréttindafélags Íslands til starfshóps vegna samráðs um þjónustu við 0-6 ára börn og barnafjölskyldur

Kvenréttindafélag Íslands fagnar boðaðri stefnumörkun um þjónustu við ung börn og fjölskyldur þeirra og hlakkar til að taka þátt í frekara samráði um málefnið. Á þessu stigi telur Kvenréttindafélagið ástæðu til þess að benda á nokkur atriði sem hér fylgja.

Fagleg þjónusta og umönnun 0-6 ára barna og vanmat svokallaðra kvennastarfa

Nauðsynlegt er að bæta kjör þeirra sem veita yngsta aldurshópnum þjónustu til þess að laða að hæft starfsfólk. Sem dæmi þarf að hækka laun leikskólakennara með 5 ára háskólanám til þess að viðhalda og byggja upp faglegt starf í leikskólum með fagmenntuðu starfsfólki. Launamun kynjanna má að einhverju leyti rekja til þess að sk. “kvennastörf” eins og leikskólakennsla gefa lægri tekjur en sk. “karlastörf” eins og verkamaður sem byggir leikskóla. Í því samhengi er rétt að benda á yfirlýsingu – ályktun fundarins á Arnarhóli á Kvennaverkfallsdegi 24. október 2023 þar sem krafist var m.a. leiðréttingar á vanmati svokallaðra kvennastarfa. Kvenréttindafélag krefst þess að hið opinbera fari í raunverulegar aðgerðir til að leiðrétta kjör þeirra kvenna sem starfa við umönnun og að þeim verði ekki refsað fyrir þá ólaunuðu umönnunarábyrgð sem þær axla yfir ævina og gjalda fyrir þegar á lífeyrisaldur er komið.

Heimgreiðslur og umönnunarbil

Kvenréttindafélag Íslands leggst eindregið gegn öllum hugmyndum um s.k. heimgreiðslur eins og önnur sveitafélög hafa komið á. Þær vinna gegn jafnrétti því þær draga úr atvinnuþáttöku kvenna þar sem konur eru almennt séð tekjulægri og eru því líklegri til þess að þiggja slíkar greiðslur en karlkyns makar þeirra. Það hamlar svo enn frekar starfsþróun þeirra og eykur því launamun.

Þá hafa rannsóknir sýnt að fjölskyldur með innflytjendabakgrunn eru líklegri til þess að þiggja slíkar greiðslur sem eykur á einangrun þeirra. Tölur frá Þýskalandi, Noregi og fleiri löndum sýna að heimgreiðslur draga verulega úr atvinnuþátttöku innflytjendakvenna sem aftur dregur úr möguleikum þeirra til þess að eiga sjálfstætt og fjölbreytt líf á Íslandi.

Nánari umfjöllun um þennan þátt heimgreiðslna er að finna í ályktun miðstjórnar ASÍ við ofangreint mál sem Kvenréttindafélag Íslands tekur undir.

Börn á leikskólaaldri og heimgreiðslur

Alvarlegust eru þó áhrif heimgreiðslna á börn á leikskólaaldri. Börn sem ekki fara á leikskóla fara á mis við þjálfun í félagslegri hegðun og tengslum við jafnaldra, mikilvæga málþjálfun sem og annað nám. Þetta er sérlega mikilvægt fyrir börn sem eiga foreldra af erlendu bergi brotna sem oft og á tíðum hafa ekki fjölbreytt tengslanet eða getu til þess að kenna börnum sínum íslensku.

Þá er rétt að benda á að ekki er um að ræða að „auka valmöguleika foreldra“ þar sem mæður neyðast til þess að þiggja heimgreiðslur því engin önnur úrræði eru í boði í dagvistunarmálum barna. Því eru mæður (því það eru nánast einvörðungu mæður sem munu þiggja heimgreiðslur) ekki að taka upplýsta ákvörðun um að vera heima með barni sínu heldur neyðast þær til þess vegna skorts á dagvistunarúrræðum.

Að mati Kvenréttindafélagi Íslands er mikilvægt að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þannig að áhrif þess á jafnrétti kynjanna verði sem minnst. Þannig er líklegast að mæður dragi úr atvinnuþátttöku sinni til þess að sinna börnum sem ekki hafa fengið viðeigandi dagvistunarúrræði, sem aftur dregur úr starfsþróunarmöguleikum þeirra og viðheldur kynjuðum vinnumarkaði.

Það segir sig sjálft að svona úrræði mun aldrei virka sem jöfnunartæki, þvert á móti er hægt að gera ráð fyrir að það mun auka mismuninn milli barna eftir uppruna og efnahagsstöðu foreldra þeirra.

Skerðing á dvalartíma

Kvenréttindafélag Íslands telur einnig að skerðing á dvalartíma barna bitni verst á efnalitlum fjölskyldum með lítið bakland og leggst gegn útfærslum á styttri dvalartíma eins og hafa verið gerðar í Kópavogi og á Akureyri.

Sjálfbærnimenntun

Börn á aldrinum 4-6 ára fá í langflestum tilvikum góða menntun á leikskólum landsins þar sem hæfir kennarar leiðbeina þeim á fjölbreyttan hátt í gegnum leik um stórar samfélagsspurningar sem og grunn í lestri og reikningi. Margir leikskólar hafa tileinkað sér menntun til sjálfbærni  þar sem heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi. Sjálfbærnimenntun felur í sér jafnréttiskennslu en jafnframt að nemendur eru þátttakendur í ákvarðanatöku. Því vill Kvenréttindafélagið benda á að frekari áhersla verði lögð á sjálfbærnimenntun í leikskólum og að börnin sjálf, sérstaklega þau eldri (4-6 ára) verði höfð með í ráðum þegar verið er að móta stefnu um þjónustu við þau.


Aðrar fréttir