Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020, og lögum um stjórnsýslu jafnréttismála, nr. 151/2020 (jafnlaunavottun) 30. október 2024

Kvenréttindafélag Íslands hefur kynnt sér ofangreint frumvarp til breytinga á lögum um jafnlaunavottun þar sem fella á niður kröfu á fyrirtæki um staðfestingu á jafnlaunavottun. Félagið telur að samþykkt frumvarpsins myndi fela í sér afturför í jafnréttismálum. Þá bendir félagið á að ástæðan fyrir því að kynjajafnrétti er með því besta í heimi á Íslandi er meðal annars þrotlaus barátta femínista og annarra málsvara jafnréttis fyrir lagaumgjörð sem stuðlar að jafnrétti. Lög um jafnlaunavottun og skyldan til að staðfesta hana er dæmi um það.

Árþúsunda misrétti verður ekki leiðrétt án aðgerða

Með því að gera jafnlaunavottun valkvæða eru tennurnar algjörlega dregnar úr tækinu sem jafnlaunastaðallinn er. Ljóst er að mjög ákveðnar lagalegar aðgerðir þarf að fara í til þess að útrýma árþúsunda misrétti.

Breytingar á lögum um jafnlaunavottun eru ótímabær

Innan ESB hefur verið sett löggjöf um launagagnsæi og að fyrirtæki sýni fram á sömu laun fyrir sömu vinnu sem Ísland þarf að taka upp með tímanum í gegnum EES samninginn. Til að fylgja eftir Kvennaverkfallinu 2023 hafa 36 samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman á ný og lagt fram kröfugerð gagnvart stjórnvöldum sem þeim er gert að uppfylla innan árs. Ein af  þeim kröfum sem snúa að leiðréttingu vanmats á kvennastörfum og launajafnrétti er að stjórnvöld setji reglur um launagagnsæi byggða á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins og tryggja virkt eftirlit. Með lögum um jafnlaunavottun og staðfestingu hefur Ísland nú þegar uppfyllt ákvæðin skilyrði og því væri mikið bráðlæti að breyta lögunum nú án þess að skoða hvernig þau falla að EES-reglum.

Gögn skortir til að styðja fullyrðingar um meint gagnsleysi jafnlaunavottun

Þau gögn sem fyrir liggja um meint gagnleysi jafnlaunavottunar eru afar takmörkuð og telur Kvenréttindafélagið að þó ávallt sé rétt að skoða vel hvort þau tæki sem notuð eru til að jafna kjör þjóni tilgangi sýnum þá eru rök um kostnað atvinnulífsins af jafnlaunavottun ekki nægjanleg ástæða til þess að leggja skyldu til jafnlaunavottunar alfarið af.

Hins vegar verður launamunur kynjanna aldrei leiðréttur þegar vinnumarkaðurinn er kynjaður og mat á virði starfa er skekkt. Að mati Kvenréttindafélags Íslands ætti Alþingi frekar að beina sjónum sínum að vanmati á launum í sk. kvennastéttum eins og kennslu, hjúkrun og umönnun þar sem mjög brýnt er að hækka laun.

Þingnefndir ættu alltaf að óska eftir umsögn frá Kvenréttindafélagi Íslands í málum sem varða jafnrétti

Kvenréttindafélag Íslands berst fyrir réttindum allra kvenna og kvára og er eitt af elstu starfandi samtökum sem láta sig jafnrétti varða auk þess sem það tók þátt í innleiðingu jafnlaunastaðals á Íslandi. Því telur félagið óeðlilegt að alsherjar- og menntamálanefnd hafi ekki sérstaklega óskað eftir umsögn frá félaginu.

Þó Kvenréttindafélagið styðji stöðuga endurskoðun á þeim tækjum sem beitt er til að jafna kjör kynjanna telur félagið breytingarnar sem felast í ofangreindu frumvarpi ótímabærar og órökstuddar.

Aðrar fréttir