Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028 259. mál frá 30. október 2024

 

Kvenréttindafélag Íslands fagnar þingsályktunartillögunni um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum og styður hana. Kvenréttindafélagið áréttar eindregin vilja sinn til þess að aðstoða eins og hægt er við framkvæmd einstakra aðgerða sem fram koma í áætluninni.

 

Almennar athugasemdir

 

Framkvæmdaáætlunin er að mati Kvenréttindafélagsins fjölþætt, yfirgripsmikil og líkleg til þess að draga úr kynjamisrétti. Kvenréttindafélagið fagnar sérstaklega eftirfarandi aðgerðum:

  • A2 Jafnrétti og vernd á hamfara-, áfalla- og átakatímum
  • A7 Kynjajafnrétti og menningarnæmi og menningarlæsi
  • B12 Kyngreind tölfræði
  • B13 Þróun mælikvarða í jafnréttismálum
  • D22 Framkvæmd Istanbúl-samningsins

Kvenréttindafélagið bendir á mikilvægi þess að grasrótarsamtök taki virkan og öflugan þátt í þeim fjölmörgu stefnumótandi aðgerðum og rannsóknum sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni. Það er mikil synd að sjá að ekki hefur verið tekið tillit til nema einnar athugasemdar úr samráðsferli í samráðsgátt eins og fram kemur í greinagerð. Hér sendir Kvenréttindafélag Íslands því nokkurnvegin sömu umsögn og send var inn í samráðsgátt þann 24. Mars 2024.

 

Mikilvægt er einnig að árétta eins og fram kom í umsög Kvenréttindafélagsins í samráðsgátt um málið að aðgerðirnar eigi við um jafnrétti allra kynja. Því mætti bæta við aðgerðum sem eiga að stuðla  sérstaklega að réttindum kvára og að í stað orðsins konur í öllum tölum og föllum komi orðin „allra kvenna“ eða „allra kvenna og kvára“ eftir því sem við á.

 

Þá telur Kvenréttindafélagið að ekki hafi verið tekið nægjanlegt mið af lokaathugasemdum kvennanefndar Sþ við 9. skýrslu Íslands um framkvæmd samnings um afnám allrar mismunar gagnvart konum[1] við vinnslu framkvæmdaáætlunarinnar. Sérstaklega hefði þurft að taka á ábendingum nefndarinnar varðandi:

 

  • að gera hatursorðræðu á grundvelli kynjamisréttis, kvenhaturs og aðrar tegundir hatursorðræðu á grundvelli kyns refsiverðar (tölul. 22)
  • meðferð kynferðisafbrotamála í réttarkerfinu (tölul. 26 d)
  • aðgerðir gegn ofbeldi (tölul. 26 a-c)
  • að kynna konum réttindi sín ( tölul. 12 )
  • hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja, réttargæslukerfinu og utanríkisþjónustu (tölul. 30)
  • að íslensk stjórnvöld hyggist ekki lögfesta samninginn sem getur að áliti nefndarinnar haft mjög neikvæð áhrif á stöðu kvenna (tölul. 13 og 14)

Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að Alþingi hefur samþykkt stofnun Mannréttindastofnunar Íslands sem Kvennanefnd Sþ gerði athugasemdir við í lokaathugasemdum sínum. Mjög brýnt er að af þessu verði skv. þeirri tímalínu sem sett var upp í sumar er frumvarp um Mannréttindastofnun var samþykkt og að tryggt sé að samfella verði í verkefnum Mannréttindaskrifstofu Íslands sem flytjast eiga til Mannréttindastofnunar.

Afar brýnt er að skoða ástæður þess að síaukinn munur er á væntum æviárum kvenna og karla við góða heilsu skv. Eurostat en þær tölur ættu að valda verulegum áhyggjum.  Nú eiga konur á Íslandi von á næstum sjö árum færri við góða heilsu en karlar og er þessi kynjamunur hvergi meiri í Evrópu[2] en að mati Kvenréttindafélagsins nær framkvæmdaáætlunin ekki utan um þetta verkefni.

Að lokum vantar í framkvæmdaáætlunina aðgerðir sem sýna fram á ávinning samfélagsins fyrir jafnrétti. Jafnrétti eykur stöðugleika, líkur á friði, dregur úr fátækt og eykur viðbragðsþol samfélaga ásamt fjölmörgum öðrum kostum. Þá mætti fara sérstakt átak til þess að sýna tengsl jafnréttis og góðrar frammistöðu velferðarvísa.

 

Sértækar athugasemdir

 

A1. Framkvæmdasjóður kynjajafnréttismála. Mjög jákvætt að stofna slíkan sjóð og leggur Kvenréttindafélagið til að áhersla hans verði á samtvinnun jafnréttisbaráttu. Kvenréttindafélagið leggur til að fram komi að sjóðurinn verði stækkaður hratt ef reynsla af honum reynist jákvæð. Þessi fjárhæð er afar lág, til dæmis í samhengi við Orkuskiptasjóð sem úthlutaði tæpum milljarði í fyrra.

 

A2. Jafnrétti og vernd á hamfara-, áfalla- og átakatímum. Afar brýnt! Kvenréttindafélagið bendir að að skoða og setja skilyrði um jöfn kynjahlutföll í starfsemi almannavarna, það er í nefndum, ráðum, embættum og stefnumótun á sviði almannavarna.

 

A3. Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Góð aðgerð en sjá athugasemd fyrr í þessari umsögn sem og bréf sem Kvenréttindafélagið sendi þingmönnum í október í fyrra og er í viðauka við þessa umsögn.

 

A4. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur sveitarfélaga. Að mati Kvenréttindafélagsins nægir fræðsla ekki til hér, einnig þarf að greina hvers vegna hlutfall kvenna og kvára á sveitastjórnarstigi er lágt og af hverju konur í sveitarstjórnarstjórnmálum endast skemur í starfi en karlmenn. Gera þarf greiningu á stöðu kvenna í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi og leggja til aðgerðir til úrbóta.

 

A5. Hugræn vinna kynjanna. Almennt er skortur á kynjaðri tölfræði sem tekið er á undir öðrum liðum, en þó er spurning hvort þetta fjármagn sér raunhæft fyrir svo yfirgripsmikið verkefni. Undir þessum lið mætti bæta við skoðun á því hvort hugræn vinna kvenna skýri bága heilsu þeirra miðað við karla. Sú rannsókn á reyndar heima undir fleiri liðum eins og getið er um í almennum athugasemdum.

 

A7. Kynjajafnrétti og menningarnæmi og menningarlæsi. Kvenréttindafélag Íslands fagnar þessum lið sérstaklega.

 

A10. Jafnrétti í fjölmiðlaumfjöllun. Afar brýnt þar sem ójöfn staða kynjanna í fjölmiðlum er mikil, sjá til dæmis greiningu í ritinu Stjórnmál og stjórnsýsla frá árinu 2022 [3].

 

B12. Kyngreind tölfræði og B13. Þróun mælikvarða í jafnréttismálum. Sérlega brýnt, en spurning hvort fjármagn er ekki of lítið.

 

C18. Jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfesting; C19 Rannsókn á launamun kynjanna; C20 Rannsókn á launamun innfæddra kvenna og innflytjendakvenna. Allar þessar aðgerðir eru afar brýnar og Kvenréttindafélagið fagnar þeim sérstaklega en hafa þarf í huga við alla vinnuna að sk. kvennastörf eru almennt lágt launuð sem er ekki „útskýrður“ launamunur heldur kynbundin launamunur. Þá þarf einnig að skoða áhrif þess á afkomu kvenna og kvára að þau sinna ólaunaðri umönnunarvinnu í meira mæli en karlar. Sem dæmi þá eru 68% mæðra en 97% feðra í fulltri vinnu. Einnig væri gott að aðgerð C20 sé framkvæmd í tengslum við framkvæmdina á aðgerð 4.1 í þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025[4], enda báðar á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.

 

D22. Framkvæmd Istanbúl-samningsins; D23. Vitundarvakning um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samninginn); D24. Áfallamiðuð nálgun í réttarvörslukerfinu; D25. Þarfir kvenna í fangelsum. Allt mjög góðar aðgerðir sem félagið styður. Aukið jafnrétti er í sjálfu sér ofbeldisforvörn og mætti það koma fram í þessum liðum. Kvenréttindafélagið telur einnig að skoða verði möguleikar þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis til þess að vinna úr ofbeldinu og sækja sér réttarbót. Mögulega þyrfti að skoða hvort aðrar leiðir en lögreglukæra og dómsmál eru fýsilegar í þessum tilvikum.

 

D26. Forvarna- og viðbragðsáætlanir vegna ofbeldis gegn fötluðum konum.Kvenréttindafélagið telur þessa aðgerð vera mjög brýna og vegna alvarleika og útbreiðslu ofbeldis gegn fötluðum konum þarf að mati félagsins að leggja mun ríkari áherslu á þessa aðgerð.

 

D27. Karlar og kynbundið ofbeldi. Mjög gott og brýnt að einnig sé lögð áhersla á ávinning samfélagsins og karla af jafnrétti.

 

D29. Þjónustuúrræði fyrir gerendur heimilis- og kynferðisofbeldis. Kvenréttindafélagið styður áherslu á gerendameðferð og bendir á erindi á ráðstefnu Stígamóta þann 21. Október sl. þar sem fjallað var um nýjustu strauma í þessum fræðum.

D30. Innleiðing verklags í heilbrigðisþjónustu til handa þolendum ofbeldis. Þegar kemur að verklagi heilbrigðisþjónustu er afar brýnt að fjalla um fíknimeðferð þar sem kynjuð nálgun er oft nauðsynleg og hún þarf að vera áfallamiðuð. Kvenréttindafélag Íslands bendir á vinnu Rótarinnar í málefnum kvenna með fíkn.

E32. Jafnréttisfræðsla á öllum skólastigum. Aðalfundur Kvenréttindafélagsins hefur ályktað um það að kynjafræði skuli vera skyldufag á menntavísindasviði HÍ[5] og telur að sú aðgerð myndi hjálpa til við að ná markmiðum E32.

E38 Jafnrétti í íþróttastarfi og E40. Jafnrétti og endurskoðun íþróttalaga. Jafnrétti í íþróttum og stefnumótun næst aðeins með fullri aðkomu kvenna og kvára að ákvarðantöku og stefnumótun. Því er afar brýnt að „hagaðilar íþróttastarfs“ séu færir um að auka jafnrétti í íþróttum en tali ekki bara fyrir gamla tíma og að þessir hagaðilar séu ekki að meirihluta karlar.

F42. Málsvarastarf og aðgerðir Íslands á alþjóðavettvangi í þágu kynjajafnréttis. Ísland þarf að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að alþjóðastarfi og kynjajafnrétti og tryggja jafnan hlut kynjanna í sendiherrastöðum eins og fram kemur í lokaathugasemdum kvennanefndar Sþ sem farið var yfir í almennum athughasemdum hér að ofan.

F43. Fjórða landsáætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Hér þarf að koma fram að landsáætlunin verði unnin í víðtæku samráði við hagaðila, ekki síst grasrótafélög, en hætt er við því að stefnumótun í utanríkis- og öryggismálum sé unnin í lokuðum herbergjum þar sem konum og kvárum er ekki tryggð full aðkoma.

Lokaorð

Kvenréttindafélag Íslands þakkar fyrir vel unna framkvæmdaáætlun og telur að hún geti orðið til gagns. Þó þarf að skerpa á aðgerðum sérstaklega þegar kemur að kynbundnu ofbeldi en það er faraldur og ógn við þjóðaröryggi og því verður að útrýma.

[1] https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2023/08/30/Lokaathugasemdir-Kvennanefndar-Sameinudu-thjodanna-vid-niundu-skyrslu-Islands-um-framkvaemd-samnings-um-afnam-allrar-mismununar-gagnvart-konum/

[2] https://ec.europa.eu/eurostat/statistics-explained/index.php?title=Healthy_life_years_statistics

[3] Jóhannsdóttir og Steinþórsdóttir (2022) Stjórnmál og stjórnsýsla 18 (69-94)

 

[4] https://www.althingi.is/altext/152/s/1364.html

[5] https://kvenrettindafelag.is/adaldundur-kvenrettindafelags-islands-alyktar-ad-kynjafraedi-skuli-vera-skyldufag-i-kennaramenntun-a-islandi/

Aðrar fréttir