Fríða Rós á Austurvelli 19. júní 2015Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, hélt barátturæðu á Austurvelli 19. júní 2015, þegar Íslendingar héldu upp á að 100 ár væru liðin frá því að konur fengu kosningarétt.

Til hamingju með daginn! Gleðilegt hátíðarár!

Í janúar leit út fyrir að þetta ár yrði eins og hvert annað hátíðarár þar sem litið yrði friðsamlega yfir sigra og ósigra kvennabaráttunnar og fagnað með hátíðlegum hætti. Engan óraði fyrir því að um miðbik ársins yrðum við stödd í miðri byltingu. Ungar konur hafa risið upp og hrifsað til sín skilgreiningavaldið. Þær brjóta af sér hlekki klámvæðingar og kúgandi kynjakerfis. Þær fara úr að ofan og hafna klámvæðingu brjósta sinna, þær tísta hver í kapp við aðra um hversdagslega kynjamisréttið og hundruðum saman segja þær áður þaggaðar sögur af kynferðisbrotum sem þær hafa orðið fyrir.

Þessar aðgerðir ættu þó ekki að koma á óvart.

Við vitum að þau sem lent hafa í stríði glíma við þungbærar afleiðingar þess. Við vitum líka að afleiðingar kynferðisofbeldis eru sambærilegar og hjá fólki sem verið hefur í stríði. Á Íslandi hefur að minnsta kosti ein af hverjum fjórum konum verið beitt kynferðisofbeldi. Við þolendur getum sagt frá ofbeldinu, við getum skilað skömminni en, því miður, getum við ekki skilað afleiðingunum.

Það eru ekki ýkjur að segja að kynferðisofbeldi sé stríð gegn konum.

Ég spyr: Erum við samfélag sem vill gera það sem í okkar valdi stendur til að vinna að friði í þessum málaflokki? Hversu lengi ætlum við að efla einungis það starf sem tekur á afleiðingum ofbeldis í stað þess að leggja þyngri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir?

Ég spyr: Hversu mörg ár í viðbót þarf kvennahreyfingin að starfrækja Kvennaathvarfið, Stígamót, Aflið og Drekaslóð, svo eitthvað sé nefnt, áður en komið verður á raunverulegum forvörnum til að útrýma ofbeldinu?

Í kjarabaráttu vetrarins kjarnast ójafnt mat á störfum kynjanna – það mat blasir við okkur líkt og hvítir sloppar í útfjólubláu ljósi. Lagasetningu á hjúkrunarfræðinga og aðrar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að vegið sé að hefðbundnum kvennastörfum. Vegið að störfum kvenna á Íslandi. Kröfur kvenna eru þaggaðar niður líkt og ofbeldi sem konur eru beittar hefur verið þaggað niður í gegnum tíðina.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem stjórnvöld kynntu fyrir stuttu kom fram að launamun kynjanna er hægt að leiðrétta með því að vinna gegn kynjaskiptum vinnumarkaði. Sem sagt, búið er að greina hver næstu skref þurfa að vera til að leiðrétta launamuninn. Og ég spyr: Hvernig stuðlar lagasetning á verkfall hjúkrunarfræðinga að þeirri leiðréttingu?

Í samfélagi okkar er nú kallað eftir breytingum úr mörgum áttum. Samfélaginu er vel hægt að breyta.

Til eru ótal leiðir til að leiðrétta kerfisvillurnar sem viðhalda misrétti kynjanna. Við eigum rannsóknir sem sýna hvernig styrkja megi dómskerfið til að gera það hæfara til að takast á við kynferðisbrotamál. Við höfum þekkingu og verkfæri til að eyða launamun kynjanna. Í landinu er svo sannarlega til staðar sá mannauður sem þarf til að hrinda þessari leiðréttingu í framkvæmd.

Nú þarf vilja til breytinga, pólitískan og samfélagslegan vilja.

Kæru áheyrendur, við erum stödd í miðri byltingu – enn einni samfélagsbyltingunni sem knúin er af afli kvennasamstöðu. Setjum frelsið í augnsýn. Ég er spennt að vita hvað gerist næst.

Gleðilegt byltingarár.

 

Aðrar fréttir