Kvenréttindafélag Íslands hvetur lögreglustjóra Vestmanneyja til að draga til baka tilmæli sín um að ekki verði greint frá nauðgunarmálum sem upp koma á Þjóðhátíð í Vestmanneyjum í ár.
Þjóðhátíð er á ábyrgð aðstandenda og mikilvægt er að yfirvöld og stofnanir í Vestmannaeyjum styðji við þá svo að hátíðin gangi svo best sá á kosið. Aðstandendur eru ekki ábyrgir fyrir þeim ofbeldisverkum sem kunna að eiga sér stað á hátíðinni en öðru máli gegnir um stuðning við þolendur, rannsókn á ofbeldismálum og upplýsingar til bæði þolenda og almennings. Kvenréttindafélagið hefur áhyggjur af því að ekki verði hugað gætilega að þolendum og að upplýsingar um það ferli sem tekur við eftir nauðgun séu illa aðgengilegar, sér í lagi upplýsingar fyrir gesti hátíðarinnar um hvert þeir skuli leita ef svo hræðilega vildi til að þeim yrði nauðgað eða þeir verði fyrir annars konar kynferðismisnotkun.
Kvenréttindafélagið lýsir furðu á að valin sé sú leið til úrbóta á meðferðum ofbeldismála á Þjóðhátíð að þagga niður möguleg ofbeldismál, og það mitt í þeirri afþöggunarbyltingu sem á sér stað á Íslandi núna.
Mikilvægt er að halda trúnaði við þolendur og styðja þá í kjölfar kynferðisbrots, m.a. með því að tryggja að umfjöllun um brotið sé fagleg. Félagið bendir á að farsælla hefði verið að fara gætilega yfir verkferla upplýsingagjafar lögreglunnar til fjölmiðla og skýra betur hvaða upplýsingar megi fara frá embættinu og hverjar ekki. Til að mynda er mikilvægt að segja að kynferðisbrot hafi átt sér stað, en gæta þess að aldri, kyni og uppruna þolenda og öðrum viðkvæmum upplýsingum sé haldið frá fjölmiðlum. Með þeim hætti er hægt að verjast því að þolandi upplifi umfjöllun um brotið sem umfjöllun um hann persónulega.
Fjölmiðlaumfjöllun síðustu ára hefur upplýst almenning um að nauðganir hafa átt sér stað á nær öllum Þjóðhátíðum síðustu ára. Að sjálfsögðu er það von allra að ekki verði frá neinum nauðgunum að segja á Þjóðhátíð í ár, en ef slík brot eiga sér stað ber að segja frá þeim. Þöggum ekki niður kynferðisofbeldi.
31. júlí 2015
Hallveigarstöðum, Reykjavík