Amnesty International hafa gefið út endanlega stefnu sína sem felur m.a. í sér að vinna að afglæpavæðingu vændisþjónustu. Ýmis kvennasamtök á Íslandi sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í fyrra þegar mótun slíkrar stefnu var samþykkt á heimsþingi samtakanna í ágúst. Sömu samtök ítreka nú yfirlýsingu sína:


Amnesty International hefur í meira en fimmtíu ár unnið þrekvirki. Stuðlað að lífi án ofbeldis, réttlæti og mannréttindum um allan heim. Samtökin njóta mikils trausts og virðingar og von okkar er að svo megi verða áfram.

Amnesty International hafa gefið út endanlega stefnu sína sem felur m.a. í sér að vinna að afglæpavæðingu vændisþjónustu. Kaup, sala, milliganga um vændi og rekstur vændishúsa verður látið óatalið. Allt í nafni mannréttinda fólks í vændi. Þetta eru alvarleg mistök sem ganga þvert á þá mannréttindabaráttu sem Amnesty er þekkt fyrir.

Að okkar mati er vændi ekki atvinnugrein. Vændi er ofbeldi og frjáls sala á fólki samræmist ekki okkar skilgreiningu á mannréttindum. Þar að auki er nær ógjörningur að skilja á milli vændis og mansals. Kaupendur hafa ekki hugmynd um hvort þær konur sem þeir kaupa, eru að selja sig af fúsum og frjálsum vilja eða þær eru gerðar út af manseljendum. Ef Amnesty vill uppræta mansal, er mikilvægt að samtökin geri sér grein fyrir að það verður ekki gert nema með því að minnka eftirspurn eftir vændi. Samhliða því þarf að bjóða upp á félagsleg úrræði fyrir þau sem stunda vændi og leiðir út.

Í heiminum er tekist harkalega á um það hvernig nálgast eigi vændi. Sumstaðar eru bæði kaup og sala bönnuð. Þannig voru íslenskar konur í vændi sekar að lögum fram til ársins 2007. Annars staðar hefur vændi verið gefið frjálst og þekktustu dæmin um þá leið eru Þýskaland og Holland. Í þeim löndum hefur vændisiðnaðurinn vaxið mjög og í skjóli hans þrífst mansal sérlega vel. Í þeim löndum hefur líf kvenna í vændi ekki orðið öruggara, en dólgar, vændishúsaeigendur og vændiskaupendur hafa hins vegar stöðu heiðvirðra kaupmanna og viðskiptavina.

Í Svíþjóð var vændi skilgreint sem ofbeldi gegn konunum sem það stunda og lög voru sett í samræmi við þann skilning árið 1999. Þannig var sala á vændi í lagi, en kaup á fólki ólögleg, svo og auðvitað milliganga um vændi og rekstur vændishúsa. Noregur og Ísland fóru að dæmi Svía árið 2009, eftir langa baráttu sameinaðrar kvennahreyfingar og fleiri aðila. Síðar hafa Kanada, Norður-Írland og Frakkland bæst í hópinn. Jafnréttisnefnd Evrópuþingsins lét gera úttekt á leiðum í baráttunni gegn vændi og mansali og samþykkti í framhaldi af því að mælast til þess við aðildarlöndin að þau færu að dæmi Svía og bönnuðu kaup á vændi.

Norræna leiðin er þekkt um allan heim sem sú árangursríkasta og réttlátasta í baráttunni gegn vændi og mansali. Í Noregi þar sem lögunum hefur verið framfylgt er talið að vændi hafi minnkað um 25%. Þar hefur ofbeldi gegn fólki í vændi ekki aukist, eftirspurnin hefur minnkað og viðhorfsbreyting hefur átt sér stað. Viðhorfskönnun sem gerð var á Íslandi af Gallup árið 2008 sýndi að meiri hluti bæði karla og kvenna og meirihluti fólks í öllum þáverandi flokkum vildi banna kaup á vændi.

Stígamót þjónusta fólk sem beitt hefur verið kynferðisofbeldi. Þar taka árlega 35-50 konur og nokkrir karlar þátt í sjálfshjálparstarfi vegna afleiðinga klámiðnaðarins. Afleiðingarnar eru sambærilegar við afleiðingar annars kynferðisofbeldis, þ.e.a.s. skömm, kvíði, þunglyndi, léleg sjálfsmynd og sjálfsvígshugsanir, en á ýmsa vegu ýktari. Þó ekki væri nema þess vegna, getum við í sameinaðri kvennahreyfingu ekki setið hjá og beðið þess sem verða vill í Dublin.

Þegar Amnesty International mælir með að því að vændi verði gefið frjálst, er dólgum og vændiskaupendum gefin friðhelgi og mannréttindi kvenna í vændi fótum troðin. Slík stefna skaðar þann mikilvæga trúverðugleika og það traust sem Amnesty hefur notið hingað til.

Aflið – samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi, Femínistafélag Háskóla Íslands, Femínistafélag ÍslandsKnúzið, Kvenfélagasamband ÍslandsKvennaathvarfið, KvennaráðgjöfinKvenréttindafélag ÍslandsSólstafir Vestfjörðum, Stígamót Reykjavík, og W.O.M.E.N. in Iceland – Women Of Multicultural Ethnicity Network in Iceland.

 

One Comment

  1. Björgvin Mýrdal 03/06/2016 at 19:07

    Ég gagnrýni þessa afstöðu harðlega og lýsi yfir fullum stuðning við Amnesty! Ykkar afstaða, líkt og allur textinn hér fyrir ofan, er beinlínis til háborinnar skammar. Afstaða Amnesty er byggð á skaðaminnkunar-hugtakinu, með hag og heilsu vændisseljenda að leiðarljósi, á meðan afstaða Kvenréttindafélags Íslands & stuðningsaðilum byggir ekki á neinu öðru en hroka, hræsni og sturlaðri forréttindablindu. Hugsið ykkar gang. Svona lagað er ekki boðlegt!

Comments are closed.

Aðrar fréttir