Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, vilja í sameiningu vekja athygli á því að aðstæður kvenfanga eru mun lakari en karlfanga. Fyrir það fyrsta er einungis eitt fangelsi í boði fyrir kvenfanga, Kvennafangelsið í Kópavogi, þar sem þrengsli eru mikil. Kvenfangar eiga ekki kost á vistun í opnu fangelsi líkt og karlfangar og möguleikar kvenna til framhalds- og starfsnáms á meðan betrunarvist þeirra stendur, eru mun lakari en karlanna. Auk þess gefast kvenföngum ekki sömu tækifæri til að stunda vinnu samhliða afplánun og karlföngum.
Kvenréttindafélag Íslands og Vernd – fangahjálp, mótmæla þessari kynbundnu mismunun á aðstæðum og fangelsisvistun karl- og kvenfanga. Það er óviðunandi að föngum sé mismunað á grundvelli kyns síns enda varðar það við lög. Fangelsun er skv. stefnu stjórnvalda ætlað að fela í sér betrunarvist í þágu viðkomandi einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Kvenréttindafélag Ísland og Vernd – fangahjálp, hvetja yfirvöld til þess að lagfæra aðstæður kvenfanga hið fyrsta og tryggja það að nú þegar bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði stendur fyrir dyrum, verði aðstæður kvenfanga sem þar munu dvelja til jafns við það sem karlföngum býðst.
Reykjavík 29. september 2010.