Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fór fram þann 23. mars kl 16:30 í Iðnó. Á fundinum var eftirfarandi áskorun til íslenskra stjórnvalda samþykkt samhljóða:

Kynjafræði skuli vera skyldufag í kennaramenntun á Íslandi

Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2023 hvetur íslensk stjórnvöld og háskólastofnanir til að innleiða kynjafræði sem skyldufag í kennaramenntun og öðru uppeldisnámi á háskólastigi á Íslandi. 

Menntun í kynja- og jafnréttisfræðum, þar sem áhersla er lögð á kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum er mikilvægt fyrsta skref í þá átt að byggja samfélag án ofbeldis. Undirstaða þess að kenna kynjafræði á öllum skólastigum er að allt kennaramenntað fólk hafi hlotið grunnþjálfun í kynjafræði á háskólastigi.

Við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er í dag boðið upp á kynjafræði sem valfag. Nýverið stefndi í að valfagið kynjafræði yrði ekki í boði á komandi misserum vegna hagræðingaaðgerða innan Menntavísindasviðs en valfög lenda iðulega og reglulega undir niðurskurðarhníf innan Háskóla Íslands. Til að tryggja að kynjafræði sem námsgrein nái til allra sem stunda kennaranám er nauðsynlegt að gera kynjafræði að skyldufagi í kennaranámi og öðru uppeldisnámi á háskólastigi á Íslandi.