Ný stjórn Kvenréttindafélags Íslands

Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fór fram miðvikudaginn 4. Maí kl 16:30 í Veröld – húsi Vigdísar, og með rafrænum hætti. Ný stjórn var kjörin og Slagtog boðið velkomið í félagið. Einnig ályktaði fundurinn með hvatningu til stjórnvalda.

Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2022 hvetur íslensk stjórnvöld að sýna femíníska og pólitíska forystu á alþjóðavettvangi með því að:

  • Hafa kvenréttindi ávallt í forgangi í stefnumótun og starfi ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðuneytisins og í þróunarsamvinnu.
  • Tala fyrir kvenréttindum, kynfrelsi og kyn- og frjósemisheilbrigði og frjósemisréttindum við hvert tækifæri á alþjóðavettvangi.
  • Hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn tafarlaust og skilyrðislaust.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til þess að mæta þessum kröfum til að tryggja að alþjóðasamfélagið bregðist við bakslagi í kvenréttindum á alþjóðavettvangi og til að treysta lýðræði og áframhaldandi framþróun í jafnréttismálum, á tímum þegar konur hafa verið sérstaklega útsettar vegna alheimsfaraldurs COVID-19 og ófriðar í ýmsum þjóðríkjum.

 

Nýtt aðildarfélag 

Slagtog sótti um aðild að Kvenréttindafélagi Íslands árið 2021 og var umsókn þeirra samþykkt af stjórn félagsins. Í dag staðfesti aðalfundur samhljóða aðild Slagtogs. 

Slagtog eru félagasamtök um femíníska sjálfsvörn (FSV) og bætist í hóp annarra aðildarfélaga Kvenréttindafélagsins: Druslubækur og doðrantar, Femínísk fjármál, Fjöruverðlaunin, Rótin, Samtök um kvennaathvarf, Trans Ísland og W.O.M.E.N. in Iceland. 

Stjórn og nefndir 

Á aðalfundi var kosið í stjórn og nefndir Kvenréttindafélags Íslands. Þrjár nýjar stjórnarkonur voru kjörnar í stjórn félagsins, Claudia Ashanie Wilson, Joanna Marcinkowska og Tanja Teresa Leifsdóttir. Þakkar félagið fráfarandi stjórnarkonum Láru Aðalsteinsdóttur og Evu Huld Ívarsdóttur fyrir störf sín í þágu félagsins. Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra félagsins og Tanja Teresa Leifsdóttir voru kjörnar fulltrúar Kvenréttindafélags Íslands til Mannréttindaskrifstofu Íslands og Ellen Calmon og Rut Einarsdóttir voru kjörnar sem fulltrúar félagsins til European Women’s Lobby. 

Í stjórn Kvenréttindafélags Íslands sitja nú Tatjana Latinovic formaður, Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Sólveig Jónasdóttir, María Elísabet Hjarðar og Stefanía Sigurðardóttir. Claudia Ashanie Wilson, Joanna Marcinkowska og Tanja Teresa Leifsdóttir eru varamenn í stjórn.

Ný stjórn Kvenréttindafélags Íslands

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra og núverandi sérlegur ráðgjafi Kvenréttindafélags Íslands var heiðruð á fundinum fyrir góð störf í þágu félagsins.

Margar áskoranir bíða stjórnar Kvenréttindafélags Íslands, ekki síst vegna samfélagslega áskorana í kjölfar heimsfaraldursins COVID-19 þegar þrengir verulega að réttindum og hag kvenna á mörgum sviðum. Félagið mun halda áfram að vera leiðandi í baráttunni fyrir kvenréttindum og jafnrétti og leggja sitt af mörkum í að byggja réttlátt samfélag og hagkerfi í kjölfar COVID-19. Við hlökkum til að fagna sumrinu og áframhaldandi feminískri baráttu á Kynjaþingi sem fer fram 28. Maí næstkomandi í Veröld – hús Vigdísar. 

Aðrar fréttir