Magdalena, ung stúlka í 7. bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, sendi Kvenréttindafélaginu þrjár spurningar til að hjálpa sér við að vinna plakat og fyrirlestur um kvenréttindi. Framkvæmdastýra reyndi að svara eftir bestu getu. Stórt er spurt, enda málefnið stórt!
1. Er femínismi sama og kvenréttindi/barátta?
Þetta er afskaplega góð spurning. Þessi hugtök eru mjög svipuð, en það er blæbrigðamundur á merkingu þeirra.
Kvenréttindi þýðir einfaldlega réttindi kvenna, og kvenréttindabarátta er baráttan fyrir réttindum kvenna. Þessi orð eru t.d. mikið notað í alþjóðlegu starfi og samningum, þar sem fólk berst fyrir að konur hafi almenn mannréttindi á við karlmenn.
Kvenréttindafélag Íslands var stofnað árið 1907, þegar konur höfðu ekki sömu réttindi og karlmenn. Konur máttu ekki kjósa, þær máttu ekki fá sömu störf og karlmenn, höfðu ekki rétt á námsstyrkjum, o.s.frv. Í fyrstu lögum félagsins segir t.d. að markmið Kvenréttindafélagsins er „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.
Nú hafa konur á Íslandi öll sömu formleg réttindi og karlar. Við getum farið í sama nám, unnið sömu störf, og boðið okkur fram til Alþingis. En baráttunni er ekki lokið, því að kemur í ljós að þrátt fyrir að konur hafi sömu formleg réttindi, þá standa konur enn verr að vígi í íslensku samfélagi. Konur mega vinna sömu störf og karlar, en þær fá enn borgað minna fyrir störfin. Konur mega bjóða sig fram til sömu embætta og karlmenn, en karlmenn eru samt enn fjölmennari á Alþingi, í sveitastjórnum, í stjórnum fyrirtækja, o.s.frv.
Femínismi er hugtak sem er mun yngra en hugtakið kvenréttindi. Hugtakið femínismi kemur erlendis frá. Það komst fyrst í almenna notkun á 7. áratug síðustu aldar, og kom til Íslands í lok 8. áratugsins. Á þeim tíma höfðu konur á Vesturlöndum fengið öll formleg réttindi á við karla, en jafnrétti var ekki komið á í samfélaginu. Konur á þeim tíma fóru því að tala um að kvenréttindi væru ekki nóg, að við þyrftum að fá kvenfrelsi, það er að konur þyrftu að vera frjálsar til að nýta réttinn sinn til náms, til starfa, o.s.frv.
Hugtakið femínismi hefur verið þýtt á íslensku sem „kvenfrelsisstefna“ til að vísa til þessarar nýju áherslu í kvennabaráttunni á 20. öldinni. Í Íslensku orðabókinni segir að „kvenfrelsisstefna“ eða „femínismi“ sé „stefna þar sem áhersla er lögð á kvenfrelsi og mótun samfélagsins eftir þörfum kvenna og þeim gildum sem þeim séu eiginlegust“. Semsagt, femínisminn er kvenfrelsisbarátta.
2. Af hverju voru/eru konur ekki með jafn mikinn rétt og menn?
Vá, þetta er erfið spurning! Karlar hafa haft meiri rétt en konur í vestrænum samfélögum síðasta árþúsundið, þ.e. sumir karlmenn, ekki allir. Vestrænt samfélag hefur síðustu aldirnar byggst upp í kringum þá hugmynd að sumar fjölskyldur eigi stærsta hlutann af eignum samfélagsins (kóngafjölskyldur, aðallinn, kirkjan), á meðan aðrar eiga ekki neitt og vinna fyrir þá fjölskyldur (vinnufólk, leiguliðar). Og í flestum tilvikum, ekki öllum, hefur þessum fjölskyldum verið stjórnað af karlmönnum, þó að stundum komi það fyrir að konur erfi eignirnar og stjórni þeim, oft þangað til að synir þeirra gætu tekið við. Þetta þýddi að sama skapi, að stærsti hluti samfélagsins var eignalaus og réttindalaus, bæði konur og karlar.
Það er ekki fyrr en á 19. öldinni að fólk rís upp gagnvart þessu óréttlæti og sú hugmynd kviknar að fólk sem er eignalaust og fátækt eigi líka að hafa sama rétt á að bjóða sig fram til Alþingis og ríka fólkið. Verkalýðsbaráttan og kvenréttindabaráttan eiga því margt sameiginlegt, að berjast fyrir réttindum hinna réttlausu síðustu 200 árin.
Að þessu sögðu, þá getum við ekki rakið ástæður óréttlætis til einhverrar einnar ástæðu. Það sem við getum hins vegar gert er að er að skoða mismunandi birtingarmyndir þessa óréttlætis, með því að lesa þau skjöl sem hafa verið undirstöður samfélagsins okkar á hverjum tíma, gamlar lagabækur eins og Grágás og Jónsbók, trúarbækur eins og Biblíuna og húspostillabækur (samansafn af predikunum sem oft voru lesnar á sveitaheimilum á 18. og 19. öldinni), eða bókmenntatexta eins og Íslendingasögurnar, riddarasögurnar, rímur og ljóð. Sagnfræðingar og bókmenntafræðingar hafa síðustu áratugina unnið mikið starf í að akkúrat lesa þessa texta, til að greina samfélagsmynstur síðustu alda hér á Íslandi og hvernig samfélag okkar breytist á hverju ári með nýjum hugmyndum.
3. Af hverju segja margir ,,konur eru ekki jafnar karlmönnum“ eins og forseti Tyrklands sagði?
Ég veit það ekki! Þetta er mér öllu óskiljanlegt.
Mér finnst það að sjálfsögðu fáránlegt að við búum í samfélagi þar sem kyn, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, litarháttur, aldur, líkamsgerð eða heilsa skiptir máli. Við erum öll manneskjur, og við eigum að hafa sömu réttindi og sama frelsi. En við búum í óréttlátum heimi, og það þýðir við verðum öll að leggja hendur á plóg til að breyta samfélaginu og vinna að jafnrétti.
2 Comments
Comments are closed.
Ef þið eruð jafnréttinsbarátta og hafið sömu réttini og karlar hvaða réttindum eruð þið þá að berjast fyrir ef ekki fyrir fleiri réttindum en karlar?
„kvenfrelsisstefna“ eða „femínismi“ sé „stefna þar sem áhersla er lögð á kvenfrelsi og mótun samfélagsins eftir þörfum kvenna og þeim gildum sem þeim séu eiginlegust“. Ef það er markmiðið hvering getur þetta þá verið jafnréttindi gangvart körlum?
Við búum í frjálsu samfélagi þar sem Karlar og Konur hafa sömu réttindi og velja hvað við viljum að gera í okkar lífi og það vilt svo til að konur velja eitt og karlar velja annað gæti það verið útaf af því að karlar og konur vilja örðvísi hluti útur lífinu?
Ef við erum ójöfn á blaði hvering þýðir þá að það er ójöfn í samfélaginu?
Sæll Ævar, og afsakaðu sein svör! Athugasemdin þín hvarf í sólina, nú í sumar.
Þetta eru er þarfar og góðar spurningar sem þú berð fram, og ég er viss um að við erum alls ekki ósammála um hvernig samfélag við viljum, samfélag þar sem jafnrétti kynjanna ríkir.
Við búum hins vegar í samfélagi sem hefur í aldanna rás verið hagað eftir þörfum karlmanna. Þetta samfélag hefur breyst mikið síðustu hundrað árin, síðan konur fóru að berjast fyrir réttindum sínum, en ekki nóg. Jafnrétti kynjanna ríkir ekki enn, það hallar enn á konur í samfélaginu okkar.
Jafnrétti kynjanna, kvenna, karla, og allra þar á milli, er undirstaða réttlætis. Við búum ekki enn við þetta réttlæti. Það að berjast fyrir réttindum kvenna þýðir ekki að við erum að berjast gegn réttindum karla. Alls ekki! Betri hagur kvenna felur í sér betri hag karla, betri hag samfélagsins!
bestu kveðjur, Brynhildur, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins