Haldið verður upp á Alþjóðadag Rómafólks í fyrsta á Íslandi þann 8. apríl í Veröld – húsi Vigdísar. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá þar sem menningu Rómafólks verður haldið á lofti með þátttöku Rómafólks, m.a. tónlistarmanna, rithöfunda og fræðimanna, með það að markmiði að sýna, segja frá og efla menningu eins stærsta minnihlutahóps Evrópu sem hefur orðið fyrir mismunun í aldaraðir. Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, mun flytja erindi í upphafi viðburðarins.

Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Dagskrá:
16:00 Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks – umræður og upplestur
Rætt verður um bókina Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks, sem hefur að geyma smásögur eftir marga helstu rithöfunda úr hópi Rómafólks, og valdir kaflar lesnir. Umræðurnar fara fram á íslensku.
Fram koma: Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir, ritstjórar og þýðendur bókarinnar, Ilona Ferková og Eva Danišová, rithöfundar af rómískum uppruna, Þóra Hjörleifsdóttir, rithöfundur og svikaskáld og Stefano Rosatti, kennari í ítölskum bókmenntum. Kynnir er Guðrún Kristinsdóttir.
17:00 Léttar veitingar
17:30 Rómatónlist og opnun ljósmyndasýningarinnar Invisible Power

Eftir stutta opnun á verðlaunasýningunni Invisible Power stígur hljómsveitin Bachtalé á stokk og leikur tónlist að hætti Rómafólks.

Fram koma: Jelena Silajdžić, stjórnandi samtakanna Slovo 21, Tatjana Latinovic, forseti Kvenréttindafélags Íslands, Vojtěch Lavička, fiðluleikari, tónskáld og baráttumaður fyrir málefnum Rómafólks, og hljómsveitin Bachtalé. Kynnar verða Izabela Chalupníková og Sofiya Zahova.

Dagskráin er hluti af fjölþjóðlega verkefninu Gendal’ipen // Reflection sem tékknesku samtökin Slovo 21 standa fyrir í samstarfi við Vigdísarstofnun – Alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar með stuðningi frá Menningaráætlun EES.

Viðburðurinn er hluti af viðburðadagatali Vigdísarstofnunar í tengslum við alþjóðlegan áratug frumbyggjamála 2022-2032 (IDIL 2022-2032).