
Á aðalfundi Kvenréttindafélags Íslands þann 10. apríl 2025 voru eftirfarandi ályktanir samþykktar
Aðgerðir til að uppræta kynbundið ofbeldi
Istanbúlsamningurinn, samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum 11. maí 2011 og fullgiltur á Íslandi 9. maí 2018. Í samningnum er fjallað sérstaklega um skyldur samningsaðila til að tryggja vernd og stuðning gegn ofbeldi, með lagasetningu eða öðrum hætti. Istanbúlsamningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum en hann kveður á um réttindi þolenda og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða gerendum ofbeldis úrræði og meðferð. GREVIO, eftirlitsnefnd með innleiðingu Istanbúlsamningsins, birti fyrstu matsskýrslu sína fyrir Ísland haustið 2022. Í skýrslunni eru íslensk stjórnvöld hvött til að safna upplýsingum um ofbeldi gegn konum og kynbundið ofbeldi á kerfisbundinn hátt og hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við þessum athugasemdum. Skortur á upplýsingum hamlar allt starf til að uppræta kynbundið ofbeldi, hvort sem er í forvörnum, fyrstu viðbrögðum eða dómaframkvæmd. Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands hvetur Alþingi til að endurskoða lög og ferla í samræmi við hvatningar GREVIO og innleiða kerfisbundna gagnaöflun um kynbundið ofbeldi og kvennamorð sem eiga sér stað á Íslandi á hverju ári.
Í sömu skýrslu hvetur GREVIO íslensk stjórnvöld til að halda utan um og birta upplýsingar um fjölda þeirra sem óska hælis á Íslandi á grundvelli kyndbundis ofbeldis og ofsókna. Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands tekur undir þessa áskorun og hvetur enn fremur til þess að stjórnvöld taki tillit til þessa við afgreiðslu hælisumsókna.
Á Íslandi eru hvorki til lög né reglugerðir sem tryggja með heildstæðum hætti vernd og stuðning við þolendur ofbeldis, eins og kemur fram í skýrslu starfshóps félags- og vinnumálaráðuneytisins um þjónustu vegna ofbeldis frá mars 2023. Aðalfundur Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að fylgja tillögum þessa starfshóps eftir í einu og öllu.
Baráttukveðjur til Grænlands
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands sendir grænlenskum konum femínískar baráttukveðjur!
Í fréttaflutningi síðustu ára hefur komið fram að þúsundir grænlenskra kvenna og stúlkna hafa verið beittar kerfisbundnu ofbeldi af dönskum stjórnvöldum með því að setja í þær lykkju án þeirra vitundar eða samþykkis. Fundurinn fordæmir ofbeldið og hvetur dönsk stjórnvöld til að taka ábyrgð og dómstóla í Danmörku og Grænlandi til að tryggja að þessar konur njóti réttlætis.
Grænland er næsta nágrannaþjóð Íslands og hvetur aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands íslensk stjórnvöld að standa með grænlensku þjóðinni á alþjóðavettvangi.
Kvenréttindafélag Íslands vekur athygli á því að á hliðarráðstefnu við fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1995 samþykktu frumbyggjakonur sína eigin yfirlýsingu: „Beijing Declaration of Indigenous Women“. Yfirlýsingin krefst þess að ríkisstjórnir og alþjóðlegar stofnanir viðurkenni rétt frumbyggja til sjálfsákvörðunar og innleiði lög og reglur sem tryggja vernd og viðurkenningu á sögulegum, pólitískum, félagslegum, menningarlegum, efnahagslegum og trúarlegum réttindum þeirra. Þetta felur meðal annars í sér aðgerðir til að uppræta ofbeldi gegn frumbyggjakonum, vernda menningararf þeirra og tryggja þátttöku þeirra í stjórnmálum. Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands hvetur íslensk stjórnvöld og okkur öll til að hafa í huga þessar kröfur og standa með grænlenskum konum.
Fordæmum þjóðarmorð í Palestínu
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands fordæmir linnulausar árásir og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda á Gaza-ströndinni og um gjörvalla Palestínu.
Kvenréttindafélag Íslands tekur undir sameiginlega yfirlýsingu svæðisstjóra UNFPA og UN Women í Arabaríkjum sem birt var 11. apríl 2025 þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af velferð kvenna og stúlkna á Gaza.
Konur og stúlkur á Gaza standa frammi fyrir ólýsanlegum hörmungum vegna áframhaldandi átaka, skorts á nauðsynlegum aðföngum og hruns heilbrigðiskerfisins sem fær ekki haldið uppi grunnþjónustu á borð við mæðravernd.
Sú ákvörðun ríkisstjórnar Ísraels að hindra að mannúðaraðstoð komist til þurfandi Palestínumanna er glæpaverk sem bitnar ekki síst á konum og börnum. Með því að standa í vegi aðstoðar hafa ráðamenn í Ísrael enn á ný sýnt fyrirlitningu sína gagnvart alþjóðasamfélaginu og viðleitni þess til að koma fórnarlömbum stríðsglæpa þeirra til hjálpar.
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands hvetur öll ríki heims og hlutaðeigandi aðila til að tryggja tafarlausan og óhindraðan aðgang að mannúðaraðstoð fyrir konur og stúlkur á Gaza. Vernda ber réttindi þeirra og tryggja öryggi í samræmi við alþjóðalög.
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands minnir á að ríkisstjórn Íslands ber að vera málsvari þess að alþjóðalög séu höfð í heiðri. Því hvetur Kvenréttindafélagið íslensk stjórnvöld til að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin og þrýsta á ráðamenn í Ísrael um að láta af hernaði gegn varnarlausum borgurum og hleypa hjálpargögnum tafarlaust inn á Gaza-svæðið. Jafnframt skorar Kvenréttindafélagið íslensk stjórnvöld að styðja málsókn Suður Afríku gegn Ísrael fyrir brot gegn samþykkt Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð. Um leið ber íslenskum stjórnvöldum að beita sér fyrir því að tilveruréttur palestínsku þjóðarinnar sé virtur og þar með sjálfsákvörðunarréttur kvenna í Palestínu.