„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands varar við þeirri leið sem sveitarfélög hafa í auknum mæli valið með því að koma á heimgreiðslum til foreldra þeirra barna sem eru á biðlista eftir leikskóladvöl. Stjórn KRFÍ óttast að heimgreiðslurnar verði til þess að draga úr atvinnuþátttöku kvenna fremur en karla og telur æskilegra að lengja orlof beggja foreldra.
Bið eftir að börn á leikskólaaldri komist að í leikskólum stafar fyrst og fremst af manneklu í leikskólum sem rekja má til lágra launa. Hugmyndir um heimgreiðslur eru úreltar og hefur reynslan sýnt að það er oftast konan sem fær það hlutskipti að sitja heima af því laun kvenna eru oftar lægri en laun karla. Slíkt viðheldur launamun kynjanna og öðrum kynbundnum ójöfnuði á vinnumarkaði.
Þá hefur reynsla erlendis frá sýnt að greiðslurnar verða oft til þess að konur sem eru innflytjendur einangrist á heimilum sínum og börn þeirra fari á mis við þroska og þjálfun í máli sem þau fengju annars í leikskólum.“
Hallveigarstöðum 22. maí 2008.