Ljósmæður hafa að undanförnu krafið ríkisvaldið um leiðréttingar á kjörum sínum en laun þeirra eru með þeim lægstu sem um getur innan raða BHM, þótt nám ljósmæðra sé eitt það lengsta sem krafist er hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum.
Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur þetta enn eitt lýsandi dæmi þess hvernig launamisrétti kynjanna er látið viðgangast hér á landi og skorar á ríkisstjórn Íslands að standa við ákvæði stjórnarsáttmálans um að „endurmeta ber[i] sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta“. Stjórnin lýsir ennfremur fullum stuðningi við kröfur ljósmæðra og telur að hér sé gott lag fyrir stjórnvöld til þess að snúa við þeirri öfugþróun launa sem kvennastéttir mega þola.
Hallveigarstöðum, 21. ágúst 2008