Kvenréttindafélag Íslands vill að gefnu tilefni benda á að núgildandi jafnréttislög voru sett til að tryggja jafnan rétt og jöfn tækifæri karla og kvenna í samfélaginu. Þar er einnig kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Kvenréttindafélag Íslands bendir jafnframt á að samkvæmt stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er sérstaklega lögð áhersla á það að jafna hlut kynjanna í stjórnum og æðstu stöðum opinberra stofnana. Það skýtur því skökku við að ráðherrar nýti ekki þau tækifæri sem gefast að rétta hlut kvenna í stjórnunarstöðum ríkisstofnana eins og raunin var þegar iðnaðarráðherra skipaði í stöðu orkumálastjóra í byrjun þessa árs. Var þar kvenkyns umsækjandi jafn hæfur karlkyns umsækjanda, sem síðar var skipaður í stöðuna. Á grundvelli þeirrar staðreyndar, sem og starfsmannastefnu stjórnarráðsins og jafnréttisáætlunar ráðuneytisins  frá 16. maí 2006, hefði ráðherra átt að skipa konu í stöðuna.

Hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum hjá ríkistofnunum hefur nánast staðið í stað á undanförnum árum. Kvenréttindafélag Íslands skorar því á alla ráðherra að fylgja stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að stefna skuli að því „…að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins“, svo þau fögru fyrirheit verð ekki aðeins orðin tóm.

Hallveigarstöðum 15. febrúar 2008

Aðrar fréttir