Kvenréttindafélag Íslands skorar á Alþingi Íslendinga og félags- og húsnæðismálaráðherra að bregðast nú þegar við þeim fréttum að fæðingum á Íslandi hafi fækkað milli ára.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur aðkallandi að styrkja strax fæðingarorlofskerfið, að auka framlög til foreldra og lengja fæðingarorlof. Núverandi fæðingarorlofskerfi skapar foreldrum ungra barna ekki það fjárhagslega öryggi sem þarf að vera til staðar þegar fólk tekur á sig jafn stóra skuldbindingu og að eignast barn. Framfærsla er bæði of lág og fæðingarorlof of stutt.

Nú, þegar efnahagsástand hefur batnað og sameiginlegir sjóðir landsmanna standa betur vegna minna atvinnuleysis, ætti strax að auka fjárveitingar til Fæðingarorlofssjóðs.

Nú er lag að bregðast við og endurreisa fæðingarorlofskerfið, þetta kerfi sem hefur reynst íslenskum foreldrum svo vel síðustu árin og hefur verið stolt Íslendinga á alþjóðavettvangi, áður en afleiðingar langvarandi fjársveltis valda óafturkræfum breytingum og hafa afleiðingar langt inn í framtíðina.

Aðrar fréttir