8. desember 2015
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, vilji endurskoða löggjöf um fóstureyðingar frá árinu 1975.
Réttur kvenna til að taka ákvarðanir um eigin líkama og eigið líf er hornsteinn samfélags þar sem jafnrétti ríkir. Fóstureyðingar á Íslandi eru ekki frjálsar heldur þurfa konur sem vilja fara í fóstureyðingu að ganga í gegnum umsóknarferli þar sem tveir utanaðkomandi aðilar leggja mat á hvort þær megi það eður ei. Konum er því ekki treyst til að taka ákvarðanir um eigin líkama og líf.
Ný rannsókn á reynslu kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu á Íslandi og álit reyndra heilbrigðisstarfsmanna sýna að núgildandi löggjöf um fóstureyðingar er niðurlægjandi fyrir konur og ekki í takt við nútímasamfélag.
Kvenréttindafélag Íslands skorar á heilbrigðisráðherra að flýta endurskoðun laganna eins og auðið er til að viðurkenna megi sem fyrst kynfrelsi kvenna.