Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að loksins séu ákvarðanir um þungunarrof í höndum kvenna.
Frumvarp til laga þess efnis var samþykkt á Alþingi fyrr í dag, þar sem sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama var staðfestur. Lögin eru lokaáfangi í áratugalangri baráttu sem formæður okkar hófu og stórt skref átt til þess í að tryggja kynfrelsi kvenna.
Kvenréttindafélag Íslands þakkar þeim konum sem hafa háð baráttuna fyrir þungunarrofi síðustu áratugi og minnist þeirra kvenna sem í aldanna rás hafa liðið fyrir að hafa ekki yfirráð yfir eigin líkama.
Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að konur geti rofið þungun að eigin ósk. Þessi löngu tímabæru lög eru heillaspor í átt til kvenfrelsis og jafnréttis kynjanna.
Hallveigarstöðum, 13. maí 2019