Stjórn Kvenréttindafélags Íslands harmar endurtekin brot ráðherra á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan  rétt kvenna og karla og furðar sig á því áhuga- og aðgerðarleysi sem virðist einkenna afstöðu ríkistjórnarinnar til svo alvarlegra mála. Að sumir ráðherrar megi stundum brjóta lög, grefur undan lýðræði í landinu og réttaröryggi og elur á almennu vantrausti í garð stjórnvalda. Þá er hætt við að jafnrétti kynjanna færist sem málaflokkur, áratugi aftur í tímann, sé framkvæmd jafnréttislaga aðeins orðin tóm.

Stjórn Kvenréttindafélagsins telur jafnframt að brot sem þessi séu mun umfangsmeiri innan stjórnsýslunnar en þau tilvik gefa til kynna sem komist hafa í hámæli undanfarið með úrskurðum Kærunefndar jafnréttismála. Þó að þar halli enn verulega á hlut kvenna, virðist sem stofnanir geti óátalið ráðið karlmenn í meirihlutann af lausum áhrifa- og stjórnunarstöðum, eins og finna má dæmi um hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Slíkt ráðningarmynstur ætti að gefa Embætti umboðsmanns Alþingis fullt tilefni til frumkvæðisathugunar, ekki hvað síst með hliðsjón af því að staða vinnumarkaðarins kann að hafa letjandi áhrif á konur sem myndu ella leita réttar síns.

Þá er að mati stjórnarinnar full ástæða til að gjalda varhug við því sem virðist vera þverrandi virðing stjórnmálaafla fyrir lögum landsins. Með brotthvarfi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur er stjórn þingflokks Sjálfstæðisflokksins einvörðungu skipuð körlum. Með hliðsjón af því að óðum styttist í alþingiskosningar, hvetur stjórn Kvenréttindafélags Íslands kjósendur til að íhuga hve mikla virðingu þeir stjórnmálaflokkar beri almennt fyrir lögum landsins, sem virða meginmarkmið jafnréttslöggjafarinnar jafn lítils og raun ber ítrekað vitni.

Hallveigarstöðum, 7. september 2012

Aðrar fréttir