Laugardaginn 14.janúar fóru fram andstöðutónleikar við útlendingafrumvarpið á Kex hosteli, skipulagðir af aðgerðarhópnum „Fellum frumvarpið“ þar sem fyrirlesarar voru með fræðslu um skaðsemi frumvarpsins og aðstæður flóttafólks á Íslandi.

Tónlistarfólk sem kom fram voru Kusk og Óviti, Eilíf sjálfsfróun, Ateria og Ókindarhjarta. Sara Mansour flutti erindi á einfölduðu máli um lagalegu hlið útlendingafrumvarpsins og þær alvarlegu afleiðingarnar sem það mun hafa. Sayed Khanoghli flutti erindi um raunverulegar aðstæður flóttafólks á Íslandi og sagði okkur frá sinni eigin reynslu af kerfinu.
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands flutti erindi um kynjuðu áhrifin af frumvarpinu og hvernig það mun hafa sérstök áhrif á konur í viðkvæmri stöðu. Hægt er að lesa erindið hennar í heild sinni hér að neðan:

„Kvenréttindafélag Íslands vinnur að kvenréttindum allra kvenna á Íslandi. Við vinnum að mannréttindum allra og gegn hvers konar mismunun. Við mismunum ekki konum eftir félagsstöðu, uppruna eða ástæðum fyrir veru þeirra hér á landi. 

Það hryggir okkur og vekur ugg að fylgjast með brotum á mannréttindum kvenna sem minnst mega sín og sem koma til Íslands í von að bjarga lífi sínu.  Íslensk stjórnvöld hafa verið dugleg að hreykja sér af jafnréttisparadísinni okkar við hvert tækifæri bæði heima og erlendis. Konur koma hingað í von að njóta þessa jafnréttis sem við hreykjum okkur af, og að geta fengið sanngjarna meðferð, en þeim er oftar en ekki hent út úr landi áður en þær geta talað fyrir sínu máli, sem er grunnkrafa allra lýðræðislega réttarkerfa. Þetta er gert í nafni skilvirkni, þegar breytingarnar munu í raun minnka skilvirkni kerfisins með því að búa til flóknar sérreglur og undantekningar á ágætu regluverki sem samið var af þverpólitískri nefnd og sátt hefur ríkt um. Kostnaður við málsmeðferð mun því aukast fyrir vikið. Eins bendir ekkert til þess að breytingarnar muni fækka umsóknum hér á landi eða með öðrum hætti leysa þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Og já þetta er víst líka gert í nafni mannúðar, þó á ég eftir að heyra útskýringu frá einhverjum í hverju sú mannúð felst. 

Nú hefur þetta frumvarp um breytingu á útlendingalögum verið lagt fyrir fimm sinnum, og alltaf hefur Kvenréttindafélagið skilað inn umsögnum þar sem við bendum á þau mannréttindabrot sem frumvarpið felur í sér. Við höfum þá meðal annars gagnrýnt að ekki hafi enn verið framkvæmt nægilegt jafnréttismat á frumvarpinu og hunsar frumvarpið því þau ólíku áhrif sem slíkar lagabreytingar hafa á stöðu kynjanna. Með því brýtur frumvarpið 1. grein jafnréttislaga Íslands þar sem segir að jafna eigi stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins með því að „gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“. Þetta þýðir m.a. að við gerð lagafrumvarpa þurfi að taka til greina ólíka stöðu kynjanna og móta verkefni þannig að þau auki réttlæti og kynjajafnrétti. Þetta hefur ekki verið gert. 

Þá er ekki ekki tekið tillit til sérstakrar stöðu kvenna eða annarra jaðarhópa í frumvarpinu. Vandinn við kerfið er ekki löggjöfin, heldur framkvæmdin sem skapar miklar tafir og tregðu í kerfinu. Tilgangur þessa frumvarps er að lögfesta ólögmæta og ómannúðlega framkvæmd stjórnvalda síðustu ár. Afleiðingar vanrækslu Útlendingastofnunar í einstaka málum eru alvarlegar, þar sem að stofnunin metur umsækjendur almennt ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi laganna eins og þau eru, og það þrátt fyrir að engin rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi hafi farið fram. Þetta á einnig við í málum þar sem um er að ræða einstaklinga sem eru fórnarlömb mansals, fólk með geðraskanir og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og að vísbendingar liggi fyrir um afleiðingar þess á viðkomandi.

Þá eru það sérstaklega konur sem eiga á hættu á t.d. mansali, kynfæralimlestingum og nauðgunum þegar þær eru sendar aftur í heimaland eða annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þá sérstaklega á þeim svæðum sem Rauði krossinn hefur bent á að séu ekki örugg móttökuríki eins og t.d. Grikkland og Ungverjaland sem íslensk stjórnvöld halda áfram að senda fólk til. 

Rannsóknir sýna að ein af hverjum fimm konum á flótta hefur þurft að þola kynferðislegt ofbeldi;  60% kvenna í heiminum sem deyja á meðgöngu eða af barnsburði deyja á átakasvæðum; konur og börn eru fjórtán sinnum líklegri til að deyja við slíka neyð; stelpur eru rúmlega helmingi líklegri til að detta úr námi; og konum er yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð og á átakasvæðum, þarfir almennings eru þar af leiðandi greindar fyrst og fremst út frá þörfum karla. Því er mikilvægt að tillit sé tekið til sérstakrar stöðu kvenna þegar farið er yfir umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd. Þó virðast íslensk stjórnvöld ekki vera sammála því.

Sú ákvörðun að neita meðvitað konum í sérstaklega viðkvæmri stöðu um vernd hér á landi er brot á íslenskum lögum sem og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda eins og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og Istanbúlsamningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum. Ísland er að brjóta gegn sáttmálum alþjóðasamfélags sem það er hluti af. 

Því er kominn tími til að dómsmálaráðuneytið og stjórnvöld dragi þetta frumvarp til baka og vinni það upp á nýtt í samstarfi við fagaðila með jafnréttissjónarmið og mannúðarstefnu í huga. 

Kvenréttindafélag Íslands stendur með konum á flótta og trúir þeim. Brot á mannréttindum einnar konu er brot á mannréttindum okkar allra!“