Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

Áskorun til atvinnurekenda

Þær hafa vart farið fram hjá nokkrum, frásagnirnar og umræðan sem átt hafa sér stað síðustu misseri um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum landsins undir myllumerkinu #MeToo. Þessa daga berast fregnir af áreitni og ofbeldi sem hefur átt sér stað hjá Orku náttúrunnar, dótturfyrirtæki eins stærsta vinnustaðar landsins, Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrirtækin hafa þótt vera í fararbroddi í jafnréttismálum á Íslandi og forsvarsmenn þeirra oft verið talsmenn þess mikla árangurs sem náðst hefur í jafnréttismálum á Íslandi. Árið 2015 var OR veitt Hvatningarverðlaun jafnréttismála og við það tilefni sagði forstjórinn að það væri “ekki nóg að aðhyllast jafnrétti, heldur þarf að fremja það”. Nú ríður á að fyrirtækin bregðist ekki háleitum hugsjónum sínum heldur vinni markvisst að því að uppræta kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustað og gæti þess að starfsfólk allt taki fullan þátt í því starfi.

Í vor var haldinn þjóðfundur kvenna sem hafa tekið þátt í #MeToo umræðunni. Þar var lögð fram skýr krafa um að atvinnurekendur tryggi að starfsfólk sé óhult í vinnunni. Í máli Orku náttúrunnar kemur skýrt í ljós að ekki er nóg að vinnustaðir samþykki metnaðarfullar jafnréttisáætlanir og innleiði staðla og gæðavottanir heldur þarf að fylgja þessum áætlunum eftir með virkum hætti og skapa vinnustaðamenningu þar sem áreitni og ofbeldi er ekki liðið og jafnrétti kynjanna er haft að leiðarljósi.

Fyrirtækjum ber skylda til að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir alla. Kvenréttindafélag Íslands hvetur atvinnurekendur og stjórnendur til að axla ábyrgð, ekki bara samkvæmt lögum heldur einnig af einlægum vilja til að skapa starfsumhverfi þar sem starfsfólk er óhult í vinnu og njóti sín til fulls. Við verðum að gera grundvallarbyltingu á samfélagi okkar, þessu samfélagi þar sem ofbeldi og áreitni hefur þrifist í allskonar myndum. Það á ekki að veita neina afslætti í þessum málum.

Kynferðislegt ofbeldi og áreitni er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með bein ógn við lýðræðið. Það er óásættanlegt að konur séu ekki óhultar, hvorki inni á heimilum né á vinnustöðum. Það er óásættanlegt að konur hrökklist úr starfi vegna áreitni og ofbeldis sem þær eru beittar á opinberum vettvangi. Það er óásættanlegt að karlar geti áreitt konur og beitt þær ofbeldi, án hindrana, eftirmála og án refsingar.

#MeToo

***

Hægt er að lesa tillögur #MeToo þjóðfundarins í skýrslunni Samtal við #metoo konur: Hvað getum við gert.

Aðrar fréttir