Kvenréttindafélag Íslands hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis athugasemd við drög nefndarinnar að nefndaráliti og breytingartillögum vegna frumvarps til nýrra kosningalaga. Þingskjal 401, 339. mál, 151. löggjafarþing 2020–2021.
27. maí 2021
Hallveigarstöðum, Reykjavík
Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér umsögn um frumvarp til kosningalaga 2. desember 2020 síðastliðinn þar sem fram komu tvær tillögur til breytinga á frumvarpinu:
- Kvenréttindafélag Íslands skorar á Alþingi að tryggja jöfn hlutföll kynjanna á framboðslistum stjórnmálaflokka til Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga í kosningarlögum, þar sem hlutur kvenna er aldrei lægri en 40% og kynjahlutföll jöfn í oddvitastöðum.
- Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kosningarréttur til Alþingis og sveitarstjórna verði rýmkaður í kosningalögum til að leyfa fólki á aldrinum 16 og 17 ára að kjósa.
Í drögum að nefndaráliti og breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ekki tekið tillit til þessara tillagna og vill Kvenréttindafélag Íslands hér með ítreka þær í þessari athugasemd.