Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til kosningalaga. Þingskjal 401,  339. mál, 151. löggjafarþing.


2. desember 2020
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands skorar á Alþingi að setja ákvæði í kosningalög um jöfn kynjahlutföll og uppröðun kynjanna í framboðslistum í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum.

Hlutfall kvenna á Alþingi hrapaði um tæp tíu prósent í alþingiskosningum árið 2017, mesta hrun þingkvenna í heimi það árið samkvæmt skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins (Women in Parliament in 2017: The Year in Review, Inter-Parliamentary Union). Í skýrslunni benda samtökin á að þessi fækkun kvenna á Alþingi undirstriki nauðsyn þess að vera á varðbergi til að koma í veg fyrir að tapa þeim árangri sem við þó þegar höfum náð í að tryggja þátttöku kvenna á þjóðþingum. Núna árið 2020 er Ísland aðeins í 33. sæti á lista Alþjóðaþingmannasambandsins yfir hlutfall kvenna á þingi, skelfileg niðurstaða fyrir land sem annars er oftast í efstu fimm sætunum á alþjóðalistum yfir kynjajafnrétti.

Í nýrri skýrslu Alþjóðaþingmannasambandsins Women in Parliament: 1995–2020 er farið yfir þann árangur sem hefur náðst á heimsvísu í að fjölga konum á þjóðþingum. Þar stendur skýrt að kynjakvótar eru lykillinn að því að ná góðum árangri í að fjölga konum á þingi: 

Quotas have been a key determinant of progress in women’s political participation. Of the top 20 countries with the largest share of women in parliament in 2020, 16 apply some type of gender quota. (Women in parliament, bls. 2) 

Nú hefur 81 þjóðríki lögleitt kynjakvóta í kosningum, sum þeirra í kosningarlögum og önnur í stjórnarskrá. Þegar fjöldi kvenna í þjóðþingum þeirra landa er borinn saman við fjölda kvenna í þjóðþingum án kynjakvóta, kemur í ljós að fjöldi þingkvenna í löndum sem ekki hafa kynjakvóta er mun lægri en í löndum sem er með kynjakvóta (Women in parliament, bls. 3).

Fjórir flokkar á Alþingi hafa sett sér reglur til að tryggja jöfn kynjahlutföll á Alþingi, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Hinir fjórir flokkarnir sem nú eru á þingi hafa ekki sett samsvarandi reglur. 

Æskilegast hefði verið að allir stjórnmálaflokkar hefðu sjálfir sett sér reglur í sínu starfi til að tryggja hlut kvenna við uppröðun á framboðslistum sínum, en fyrst svo hefur ekki reynst er kominn tími til að Alþingi taki af skarið og setji lög sem skyldi stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis og sveitarstjórna að setja sér reglur sem tryggja hlut kvenna á framboðslistum sínum og jöfn kynjahlutföll í oddvitastöðum. 

Kvenréttindafélag Íslands skorar á Alþingi að tryggja jöfn hlutföll kynjanna á framboðslistum stjórnmálaflokka til Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga í kosningarlögum, þar sem hlutur kvenna er aldrei lægri en 40% og kynjahlutföll jöfn í oddvitastöðum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur ennfremur Alþingi til að setja ákvæði í kosningalög um lækkun kosningaaldurs í 16 ár.

Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar fyrir 113 árum. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu konur saman að heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Tilgangurinn var að ræða stofnun félags sem gengist fyrir breytingum á löggjöf landsins sem snerti konur og börn og framkvæmd laganna, eða eins og segir í 2. gr. fyrstu laga félagsins: „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarrétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.

Síðan þá hefur Kvenréttindafélag Íslands ávallt unnið að því að auka og styðja þátttöku kvenna í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku. Kvenréttindafélaginu er annt um að efla lýðræði og auka þátttöku fólks, þ.á.m. kvenna, í kosningum.

Oftar en ekki er það yngra fólkið sem leiðir okkur sem eldri erum áfram til framtíðarinnar með hugmyndum sínum um jafnrétti og lýðræði, og því er nauðsynlegt að efla rödd unga fólksins í samfélaginu. Sjálfsprottnar herferðir ungra kvenna á samfélagsmiðlum, svo sem #freethenipple og „Beauty tips“ byltingin, hafa vakið mikla athygli og umræðu síðustu árin og komið málum á dagskrá í almennri umræðu og innan stjórnmálanna.

Dræm kosningaþátttaka ungs fólks síðustu ár er mikið áhyggjuefni og því er full ástæða að gera allt sem í okkar krafti felst til að auka hana að nýju. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að kosningarréttur til Alþingis og sveitarstjórna verði rýmkaður til að leyfa fólki á aldrinum 16 og 17 ára að kjósa.

Aðrar fréttir