Auður Önnu Magnúsdóttir hefur hafið störf sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands. Félagið er með elstu félagasamtökum landsins, var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur árið 1907 og vinnur að kvenréttindum og jafnri stöðu allra kynja á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í atvinnulífi, stjórnmálum og fjölmiðlum. Félagið leggur áherslu á mannréttindi og vinnur gegn hvers konar mismunun með femínísk gildi að leiðarljósi.

Auður hefur doktorspróf í lífefnafræði frá Stokkhólmsháskóla og hefur unnið við rannsóknir og stjórnun. Hún gengdi stöðu framkvæmdastjóra Landverndar í fimm og hálft ár þar til hún hóf störf hjá Kvenréttindafélaginu og er því vel að sér í rekstri félagasamtaka. Hún er einnig stofnandi og fyrsti formaður Samtaka kvenna í vísindum og þekkir jafnréttismál vel.

Tatjana Latinovic formaður stjórnar Kvenréttindafélags Íslands segist vera spennt fyrir að fá Auði til starfa. “Auður hefur mikla reynslu í stefnumótun, áætlanagerð, miðlun og samskiptum við fjölmiðla. Reynsla hennar og þekking á starfsemi grasrótasamtaka mun koma að góðum notum fyrir frekari uppbyggingu á starfsemi Kvenréttindafélagsins og ég er mjög spennt fyrir samstarfinu”.