Kveðja frá Kvenréttindafélagi Íslands til minningar um Björgu Einarsdóttur (1925-2022)

Fallin er frá Björg Einarsdóttir, heiðursfélagi Kvenréttindafélags Íslands. Björg stóð í áratugi fremst í flokki þeirra kvenna sem börðust fyrir jafnrétti kynjanna og var meðal annars ein þeirra sem skipulagði kvennafrídaginn 1975. 

Björg var virk í starfi Kvenréttindafélags Íslands frá 1975 og alveg til dauðadags. Hún sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, var varaformaður þess 1976-80, sat í ritnefnd ársritsins 19. júní og sá um skipulagningu fjölda ráðstefna og hélt erindi á mörgum þeirra. Má þar minnast á fyrstu ráðstefnu Kvenréttindafélagsins sem haldin var 1978, um verkmenntun og jafnrétti, sem Björg skipulagði og stóð fyrir. Einnig má minnast ráðstefnu Kvenréttindafélagsins með konum í sveitarstjórnum árið 1980 sem Björg tók þátt í að skipuleggja, en hún vakti mikla athygli og upp úr henni spratt sú hugmynd að kvennahreyfingar í hverjum stjórnmálaflokki gætu sett upp kvennalista og haft um það samráð þvert á flokksbönd. Sama ár hélt Kvenréttindafélagið ráðstefnu um jafna foreldraábyrgð þar sem Björg talaði um heimili og fjölskyldu, um verkaskiptingu foreldra sem mótandi afl í að skapa ímynd foreldra í augum barna, sem enn er umræðuefni þann dag í dag. 

Björg tók virkan þátt í að skipuleggja fyrsta kvennafrídag á Íslandi sem haldinn var 24. október 1975 og hefur verið endurtekinn fimm sinnum síðar, árið 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Björg var ein þeirra átta kvenna sem lögðu fram formlega tillögu á Kvennaráðstefnu á Loftleiðum í Reykjavík 1975 að haldinn yrði sérstakt kvennafrí á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október það ár. Björg skrifaði seinna frásögn sína af undirbúningi Kvennafrísins og hafði þetta að segja um það augnablik þegar hugmyndin um kvennafrí varð til:

„Undir lok ráðstefnunnar á Loftleiðum vorum við nokkrar konur staddar á ganginum framan við ráðstefnusalinn og ræddum að nú væri að hrökkva eða stökkva með þetta mál. Gripið var pappírsblað og upp við vegginn hripuð niður svohljóðandi tillaga: „Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 21. júní 1975, skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.“ Í flýti var hóað saman flutningsmönnum, átta talsins, sem höfðu það meðal annars sér til ágætis að mynda til samans þverpólitíska heild. Skulu nöfn þeirra talin hér og geta þeir sem hnútum eru kunnugir séð í hendi sér hina pólitísku breidd: Bessí Jóhannsdóttir, Björg Einarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Sigríður Friðriksdóttir, Valborg Bentsdóttir og Þorbjörg Jónsdóttir. 

Tillögunni var komið til fundarstjóra og var fundarmönnum farið að fækka þegar hún kom til afgreiðslu. Eitt hundrað manns greiddu atkvæði og voru 72 með og 28 á móti. Man ég enn konu sem stóð og greiddi atkvæði gegn tillögunni en varð síðar ein aðaldriffjöður kvennafrísins í Reykjavík. Enginn málatilbúnaður var þarna að öðru leyti um tillöguna og til dæmis voru engir settir til framkvæmda. Það var svo ekki fyrr en ágústmánuður var byrjaður að líða að upplaukst fyrir flutningsmönnunum átta að ef þeir tækju ekki málið í sínar hendur og huguðu að framkvæmd yrði kvennaverkfallið heldur smátt í sniðum.“

Eins og henni var líkt, þá tók Björg virkan þátt í að skipuleggja kvennafríið og gerði það með þvílíkum sóma að kvennafríið vakti heimsathygli og hefur reynst okkur á Íslandi undirstaða fyrir áframhaldandi baráttu fyrir kvenréttindum og kynjajafnrétti í krafti fjöldasamstöðu. 

Björg sat einnig í hugmyndanefnd Kvenréttindafélagsins sem var stofnuð árið 1992 í þeim tilgangi að gera umræður um stöðu félagsins og starfsaðferðir hnitmiðaðri. Einnig sótti Björg alþjóðlega viðburði á vegum félagsins, m.a. hjá Alþjóðasamtökum kvenréttindafélaga (e. International Alliance of Women) í New York þar sem hún var kjörin í stjórn samtakanna og árið 1979 var hún kjörin formaður formaður nefndar samtakanna hjá Sameinuðu þjóðunum til þriggja ára. 

Samhliða baráttu sinni fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna hér á landi og erlendis, vann Björg að ritun sögu kvenna, sem þótti  nýlunda í sagnaritun hér á landi og var meðal okkar fremstu og afkastamestu höfunda á sviði kvennasögu. Björg flutti útvarpsþætti um æviferil íslenskra kvenna í Ríkisútvarpinu veturinn 1983 til 1984, og voru þau erindi uppistaðan í þriggja binda ritsafninu Úr ævi og starfi íslenskra kvenna sem kom út á árunum 1984 til 1986. Þetta ritsafn er mikilvægt í íslenskri sagnaritun, uppspretta mikils fróðleiks um formæður okkar.

Áskell Einarsson, bróðir Bjargar, skrifaði grein í tilefni af sjötugsafmæli systur sinnar. Þar lýsir hann Björgu svo: „Blákalt raunsæi og ódrepandi seigla hefur einkennt öðru fremur baráttuaðferðir Bjargar. Hún sýndi það mikla afrek að hverfa í einu vetfangi úr húsmóðurhlutverki sínu í vesturbænum og komast í fremstu röð kvennabaráttu samtímans. Björg átti einnig drjúgan þátt í því að innan stærsta stjórnmálaflokks landsins myndaðist virk kvennahreyfing.“ Þykir okkur þessi orð Áskels lýsandi fyrir baráttukonuna Björgu Einarsdóttur, sem í svo langan tíma var í forystu kvenréttindabaráttunnar hér á landi. 

Björg Einarsdóttir var sæmd hinni íslensku fálkaorðu 1988 fyrir störf sín að jafnréttismálum og ritstörf um málefni kvenna. Árið 1997 var Björg gerð heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, og á félagið og konur á Íslandi henni svo sannarlega skuld að gjalda fyrir framlag hennar til kvenréttinda á skráningu á sögu kvenna. 

Kvenréttindafélag Íslands þakkar Björgu fyrir samstarfið, þekkinguna og vináttuna og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Björg Einarsdóttir á 113 ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins.

Björg Einarsdóttir á 113 ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins.

Heiðursfélagar Kvenréttindafélags Íslands. Á mynd: Sigríður Th. Erlendsdóttir (1930-2022), Vigdís Finnbogadóttir og Björg Einarsdóttir.

Björg Einarsdóttir situr þarna fremst, önnur frá hægri, í hópi kvenskörunga sem mættu á 113 ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins.