Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:


12. maí 2022
Hallveigarstaðir, Reykjavík

Að brúa umönnunarbilið er eitt mikilvægasta jafnréttismál okkar tíma. Á laugardaginn er gengið til sveitarstjórnarkosninga. Kvenréttindafélag Íslands minnir frambjóðendur til sveitarstjórna á að dagvistunarmál eru eitt af mikilvægustu verkefnum hvers sveitarfélags.  

Börn á Íslandi eru að meðaltali 17,5 mánaða gömul þegar þau komast í leikskóla, samkvæmt nýrri skýrslu BSRB. Mikill munur er á milli sveitarfélaga hvenær börn komast í leikskóla, í sumum sveitarfélögum fá börn pláss 9 mánaða en í öðrum þegar þau eru tveggja ára gömul.

Fæst sveitarfélög tryggja börnum leikskólapláss þegar þau verða 12 mánaða, þ.e. eftir að hefðbundnu fæðingarorlofi lýkur. Það þýðir að foreldrar þurfa enn að púsla saman dagvistunarúrræðum, sum í heilt ár eftir að orlofi lýkur. Reynslan hefur sýnt að þetta bil er oftar brúað af konum en körlum. Mæður taka sér launalaust leyfi frá vinnu eða fara í hlutastörf, með samsvarandi afleiðingum á launakjör og lífeyrisréttindi.

Kvenréttindafélag Íslands minnir kjósendur á að hafa þetta í huga þegar gengið er í kjörklefann. Mikilvægt er að brúa umönnunarbilið með fjölgun leikskólaplássa en ekki með heimgreiðslum. Heimgreiðslur eru ávísun á að konur verði heima lengur sem bitnar á ævitekjum þeirra og eykur ójafnræði á vinnumarkaði.

Enn fremur þarf að tryggja viðunandi kjör og réttindi þeirra sem starfa við umönnun og menntun barna. Launakjör í leikskólum eru slæm og með öllu óviðunandi. Yfir 90% af þeim sem starfa í leikskólum landsins eru konur. Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að nýkjörnar sveitarstjórnir meti störf í leikskólum að verðleikum og tryggi fólki sem starfar í leikskólum landsins mannsæmandi kjör.