Stefanía Sigurðardóttir stjórnarkona Kvenréttindafélags Íslands hefur skrifað eftirfarandi grein:


Í desember er okkur tamt að hugsa um þá sem minna mega sín. Við sem eigum nóg ættum að deila með þeim sem eiga um sárt að binda. Söngtextinn sem hefur ómað nánast hver jól á mínu heimili segir að kærleikurinn sé hinn mikli sjóður og hvetur okkur til að sameinast, til að hjálpa.

Þessi mynd sem söngsmiðurinn rammaði svo vel inn á enn við í dag, en í stað þess að að horfa á þjáningar á sjónvarpsskjánum stöndum við nú augliti til auglitis við fólk sem flúið hefur til Íslands í leit að hæli. Okkur gefst  tækifæri til að sýna hugsjónir okkar í verki og veita þeim athvarf.

Válegar aðstæður

Ísland hefur verið kallað jafnréttisparadís og til okkar leita konur sem hefur verið misþyrmt, oft fyrir það eitt að vera konur. Þær eru limlestar, þeim er nauðgað og seldar manna á milli. Sumar ná að flýja og reyna að finna sér betra líf, líf sem byggir á kvenréttindum og kærleik.

Vegna staðsetningar okkar í miðju Atlantshafi koma konur sjaldnast beint til Íslands frá kúgunarríkinu. Þær stoppa í öðrum löndum á leiðinni, oft Grikklandi, áður en þær lenda á ströndum okkar. Aðstæður í Grikklandi eru skelfilegar, lífið er hart og ofbeldið í flóttamannabúðunum mikið.

Auðgum samfélagið

Þrátt fyrir þetta harðræði, senda íslensk stjórnvöld þessar konur sem hafa upplifað  ofbeldi  til baka í ofbeldið, án þess að veita þeim hæli. Í jafnréttisparadísinni Íslandi finna konur harðneskju í stað kvenréttinda og kærleiks.

Í dag fögnum við fullveldi íslensku þjóðarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa brugðist skyldum sínum í samfélagi þjóðanna um að taka ekki á móti konum í viðkvæmri stöðu og veita þeim viðeigandi stuðning. Sameinumst öll og hjálpum þeim, tökum á móti konum í viðkvæmri stöðu og veitum þeim skjól hér. Þær eiga eftir að auðga samfélag okkar.

Greinin birtist einnig í Fréttablaðinu 1. desember 2021, sem hluti af 16 daga átaki gegn ofbeldi gegn konum.