Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, ávarpaði baráttufund Eflingar í Iðnó 26. febrúar 2020.

Sæl öll!

Frá upphafi hefur barátta fyrir kvenfrelsi verið samofin baráttu fyrir bættum kjörum kvenna. Kvenréttindafélag Íslands  var stofnað árið 1907 með það að markmiði að íslenskar konur fái á öllum sviðum sama rétt og karlar, þar á meðal rétt til atvinnu. 

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formóðir okkar sem stofnaði Kvenréttindafélagið, var einnig stofnandi fyrsta verkalýðsfélags kvenna. Verkakvennafélagið Framsókn var stofnað árið 1914 og barðist fyrir bættum kjörum kvenna sem störfuðu við ræstingar og fiskvinnslu. Af hverju þurftu konur að stofna sitt eigið verkalýðsfélag? Nú, vegna þess að verkamannafélagið Dagsbrún neitaði að hleypa konum inn í félagið af ótta við samkeppni um vinnu og í launum.

Í dag, rúmri öld síðan að Bríet og systur hennar stóðu í baráttunni, höfum við ekki enn náð jáfnrétti í jafnréttisparadísinni Ísland.

Enn í dag fá konur lægri laun en karlar fyrir sambærileg störf. Og konur af erlendum uppruna eru oft með lægri laun en íslenskar konur og svokallaða glerþakið er það lágt fyrir okkur að margar okkar geta ekki staðið uppréttar.

Enn í dag vinna konur lengur en karlar þegar lögð er saman vinna innan heimilis og utan.

Enn í dag eru konur lengur frá vinnumarkaði en karlar vegna ábyrgðar á fjölskyldu- og heimilisstörfum.

Enn í dag eru hefðbundin kvennastörf vanmetin, sem endurspeglast í lægri launum og lakari vinnuaðstæðum.

Enn í dag eru konur líklegri en karlar til að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Minnumst öll skelfilegu frásagnanna sem við höfum heyrt síðustu misseri, þeirra hugrökku kvenna sem deildu sögum af ofbeldi á vinnustað undir merki #MeToo.

Enn í dag, en ekki lengur!

Barátta fyrir kvenfrelsi er barátta fyrir bættum kjörum kvenna. Konur verða aldrei frjálsar, svo lengi sem við erum fastar í hlekkjum fátæktar.

Þetta skildu formæður okkar við upphaf 20. aldarinnar, þetta skildu Rauðsokkurnar og baráttukonurnar á áttunda áratugnum. Þetta skiljum við sem stöndum hér í dag og krefjumst þess að allar konur óháð uppruna, nafni og litarhátt séu metnar að verðleikum, að launakjör í kvennastéttum séu að engu lakari en launakjör í karlastéttum.

Jafnrétti þýðir það að við séum öll jöfn, að engin okkar sé undanskilin. Barátta fyrir kvenfrelsi og kvenréttindum er barátta fyrir þær okkar sem búa við lökustu kjörin. Þetta er barátta sem unnin er í systralagi, að við stöndum upp og krefjumst betri kjara fyrir okkur allar, ekki bara okkur sumar. 

Við getum ekki sagt að við á Íslandi höfum náð jafnrétti, ef jafnréttið er ekki fyrir okkur allar, bæði okkur sem vinnum í leikskólum og okkur sem vinnum á skrifstofum.

Vinnumarkaðurinn á Íslandi er flóknari í dag en hann var fyrir 113 árum, flóknari vegna þess að samfélagið okkar er flóknara og fjölbreyttara. 

Það hallar sérstaklega á kjör kvenna af erlendum uppruna hér á Íslandi. Konur af erlendum uppruna eru stór hluti þeirra kvenna sem vinna í mötuneytunum okkar, við þrif, á leikskólum og á hjúkrunarheimilum, vinnur við störfin sem samfélagið hefur kosið að skilgreina sem kvennastörf. 

Þessi kvennastörf eru undirstaðan að samfélaginu okkar, undirstaðan að vinnumarkaðnum öllum. Konur bera ennþá í dag hitann og þungan á umönnun barna og aldraða og án dagvistunar og hjúkrunarheimila væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi. Án okkar væri íslenskur vinnumarkaður óstarfhæfur.

Í dag eru konur af erlendum uppruna 22% þeirra sem hafa lagt niður störf og sagt að nú sé nóg komið. Þetta eru 405 konur sem standa nú saman hlið við hlið innfæddra systra sinna og systkina og krefjast mannsæmandi launa. Þær hafa ekki flutt til Íslands til að vinna vinnu sem Íslendingar vilja ekki vinna á lúsalaunum, enda borga þær sama verð fyrir brauð, mjólk og húsnæði eins og allir aðrir. Þær hafa flutt hingað til að standa jafnfætis öðrum, njóta sín og leggja sitt af mörkum að gera landið okkar Ísland að betri stað.

Við getum ekki sagt að við á Íslandi höfum náð jafnrétti, ef jafnréttið er ekki fyrir okkur allar, bæði okkar sem eru innfæddar og okkar sem eru af erlendum uppruna.

Konur á Íslandi hafa komið saman á kvennafríi sex sinnum síðan árið 1975 til að krefjast launajafnréttis. Það er samstilltri baráttu þessara formæðra okkar og systra að þakka að við höfum tekið stór skref í átt til kynjajafnréttis á Íslandi. En við erum ekki komin nógu langt, allt of margar okkar hafa verið skildar eftir í kjarabaráttunni, allt of margar okkar fá ekki borguð verðskulduð og sómasamleg laun fyrir störf sín.

Formæður okkar hófu baráttuna fyrir jöfnum kjörum kvenna og karla á vinnumarkaði. Við skuldum það Bríeti og Rauðsokkunum og öllum þeim konum sem ruddu brautina, en líka börnum okkar og þeim sem munu á eftir koma. 

Stöndum saman! 

Jöfn kjör strax!

Dalej dziewczyny!

Aðrar fréttir