Femínískar alþingiskosningar 2021

Fulltrúar flokka í framboði til Alþingis 2021 ræddu saman um aðgerðir til að jafna kjör, ábyrgð og álag á vinnumarkaði, 21. september 2021.

Öllum framboð sem mælst höfðu með yfir 5% fylgi í könnunum síðustu þrjá mánuði var boðið að senda fulltrúa sína á fundina og þátt tóku:  Kolbrún Baldursdóttir (Flokkur fólksins), Sigrún Elsa Smáradóttir (Framsóknarflokkurinn), Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir (Miðflokkkurinn), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Píratar), Oddný Harðardóttir (Samfylkingin), Óli Björn Kárason (Sjálfstæðisflokkurinn), Sólveig Anna Jónsdóttir (Sósíalistaflokkurinn), Jón Steindór Valdimarsson (Viðreisn) og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vinstri hreyfingin – grænt framboð). Fundarstjórar eru Finnborg Salome Steinþórsdóttir og Steinunn Bragadóttir.

Kvenréttindafélag Íslands, Samtök um kvennaathvarf og Femínísk fjármál stóðu að þessum fundi ásamt fleirum í aðdraganda kosninganna.

Sjá alla fjóra fundi hér.

Spurt er:

Hvaða aðgerðir ætlar flokkur ykkar að standa fyrir til að leiðrétta kynjað kjaramisrétti, bæta aðstæður kvennastétta og leiðrétta ójafna umönnunarábyrgð?

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins hefur barist gegn aðhaldskröfum ríkisstjórnarinnar. Slíkar kröfur gera það að verkum að stjórnendur neyðast til að fækka starfsfólki og samhliða eykst álag á þá sem eftir eru. Ríkið á ekki að mæta erfiðleikum með því að fækka starfsfólki á sama tíma og neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu. Flokkur fólksins vill taka á mannekluvandanum sem er meinsemd í opinberum rekstri víðsvegar mest vegna þess að hið opinbera hefur ekki getað greitt mannsæmandi laun.  Við megum ekki við því sem samfélag að missa allt okkar hæfasta fólk til annarra landa. Við eigum að borga starfsfólki í umönnunar og menntastörfum sanngjörn laun. Í þessum störfum eru konur í miklum meirihluta.  Þessar stéttir hafa oft lakari samningsstöðu en hópar sem geta pressað á ýmsa lykilstarfsemi og ítrekað er farið á svig við réttindi fólks í þessum stéttum með því að ráða ófaglært fólk í stað þess að takast á við hinn raunverulega vanda, sem er að launin spegla ekki sanngjarnt endurgjald fyrir starfsálag.

Framsóknarflokkurinn

Miðflokkurinn

Píratar

Hagkerfið sem við búum við í dag metur ekki störf hefðbundinna kvennastétta að verðleikum. Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið sem notast við fleiri mælitæki en hagvöxt til þess að meta velgengni samfélagsins. Við viljum innleiða velsældarvísa sem mæla, skv. forskrift OECD, ýmis lífsgæði eins og jafnvægi milli vinnu og einkalífs, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, menntunarstig og fleira sem gerir lífið þess virði að lifa því. Við teljum að með því að innleiða aðra hvata en hreinan hagvöxt inn í hagkerfið okkar munum við umbylta verðmætamati samfélagsins okkar. Vegna þess hversu dýrmæt störf þeirra eru í velsældarsamfélagi teljum við að umönnunarstéttir og aðrar stórar kvennastéttir verði frekar metnar að verðleikum. 

Fyrsta skrefið er þó auðvitað að horfast í augu við misréttið. Þannig er hægt að ráðast í kerfislægt mat á launamisrétti kynjanna milli starfsstétta hjá hinu opinberra þar sem óútskýrður launamunur er til staðar og finna leiðir til að jafna launakjör slíkra stétta. Píratar vilja auka heimildir eftirlitsaðila til að rannsaka launamál stofnana og fyrirtækja og til lengri tíma telja Píratar jafnframt eðlilegt að nota hvatningaraðgerðir til að jafna kynjahlutföll innan slíkra starfsstétta.

Píratar vilja fullfjármagna heilbrigðiskerfið og hverfa frá niðurskurðarstefnu undanfarinna áratuga enda vitum við að það borgar sig til lengri tíma. Sömuleiðis viljum við ráðast í átak í fjölgun hjúkrunarrýma og annarra búsetuúrræða fyrir eldra fólk til þess að minnka umönnunarbyrði kvenna, sem er sú hæsta í Evrópu um þessar mundir. Píratar vilja líka fjölga tekjustofnum sveitarfélaga, sem hafa stórar kvennastéttir á launaskrá sinni, og auka þar með getu þeirra til þess að hækka laun starfsmanna sinna.

Samfylkingin

Samfylkingin hafnar niðurskurðarleið ríkisstjórnarinnar og óþörfum aðhaldskröfum í heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Lausnin er að afla tekna og taka lán á lágum vöxtum á meðan við vöxum út úr efnahagslægðinni, efla opinbera heilbrigðiskerfið, mæta mönnunarvanda, fjölga hjúrkunarrýmum og koma á fjölbreyttari þjónustu og búsetuvalkostum eldra fólks.

Ómissandi starfsfólkið er oftar en ekki konur á lágum launum. Samfylkingin vill álagsgreiðslur fyrir framlínufólkið sem hefur haldið samfélaginu gangandi við erfiðar aðstæður.

Stóra verkefnið á vinnumarkaði er að bæta kjör kvennastéttanna, vinda ofan af áratugagömlu  vanmati á störfum kvenna og verri kjörum ævina út. Um það þarf að nást pólitískt samstaða og samstaða á milli aðila vinnumarkaðarins.

Sagan sýnir að jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér. Það þarf að koma því á og stjórnvöld leika þar lykilhlutverk. Lögbundið er að meta fjárlög eftir áhrifum þeirra á kynin. Samfylkingin vill taka þær greiningar alvarlega þannig að fjárlög auki jafnrétti og taki á ójafnri umönnunarábyrgð.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn hafnar útvistun á hefðbundnum kvennastörfum hjá hinu opinbera. Það er til skammar að hið opinbera telji sig geta sparað með því að segja upp láglaunakonum sem sinna ómissandi störfum við þrif og matreiðslu, og útbúið með því tækifæri fyrir kapítalista til að sölsa til sín enn eitt samfélagslegt „gróðatækifærið“, á kostnað þeirra sem vinna vinnuna. Í fáu birtist sú kvenfyrirlitning sem fær að lifa á íslenskum vinnumarkaði með eins skýrum hætti og í opinbera útvistunar-ruglinu.

Sósíalistaflokkurinn styður að gengið verðir í að leiðrétta sögulega vanmetin kvennastörf. Láglaunakonur í Eflingu hafa þegar unnið mikilvægan sigur þegar þeim tókst þrátt fyrir hatramma andstöðu pólitískrar og efnahagslegrar valdastéttar að knýja fram sérstaka hækkun sem var viðurkenning á þessari réttlætiskröfu. Sósíalistaflokkurinn veit að Ísland er ríkt samfélag og að enginn vandi er að halda úti allri þeirri þjónustu sem nútímasamfélag krefst, án þess að ofur-arðræna konur. Aðeins forhert auðvald og huglaus valdastétt lætur eins og það sé eina mögulega leiðin.

Sósíalistaflokkurinn hafnar van-fjármögnuðu velferðarkerfi. Það leiðir af sér hrikalega umönnunarbyrði sem að mestu lendir á konum. Hvernig getum við sagst vera jafnréttisparadís þegar að við vitum að samfélaginu okkar er haldið uppi af dauðþreyttum verkakonum, sem með vinnu sinni skapa hagvöxtinn, og endurframleiða jafnframt samfélagið okkar, bæði í vinnunni og í sínu einkalífi, en lifa samt við viðvarandi fjárhagsáhyggjur sem leiða svo af sér heilsuleysi, andlegt og líkamlegt? Sósíalískir femínistar ætla að tryggja að verkakonur hafi tíma og fjárráð til að taka þátt í allri mótun samfélagsins, en séu ekki bara viðföng þeirra sem allt þykjast eiga og vita. Hér er slagorð okkar: Ekkert um okkur án okkar. Sósíalistar hlusta þegar að kven-vinnuaflið talar; þær eru sérfræðingar og eiga að hafa allt um það að segja hvernig líf þeirra er í efnahagslegum skilningi sem og öllum öðrum.

Sósíalistar hafna þeirri samfélagslegu skömm sem fengið hefur að viðgangast, að skattbyrði á láglaunakonur hafi verið aukin til að fría auðstéttina undan því að þátt í reka samfélagið. Við ætlum að koma á réttlátri skattheimtu þannig að láglaunakonur þurfi ekki lengur að þola það sjúka óréttlæti að sjá á eftir peningum sem skipta þær og börn þeirra gríðarmiklu máli svo að ríkir karlar geti tekið til sína endalausar milljónir og milljarða, í krafti samtryggingar kapítalismans og feðraveldisins. Sósíalískir femínistar krefjast þess og munu berjast fyrir því að útsvar sé innheimt af þeim sem skammta sér fjármagnstekjur. Laun láglaunakvenna skulu vera skattfrjáls. Það er fyrsta innborgun íslensks þjóðfélags til þeirra upp í þá skuld sem á endanum skal öll innheimt.

Sjálfstæðisflokkurinn

Spurningin byggir á rangri fullyrðingu um niðurskurð á næstu árum. Staðreyndirnar eru þveröfugar. Ef litið er til fjármálaáætlunar til ársins 2025 er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála, velferðar- og félagsmála verði a.m.k. rúmum 63 milljörðum hærri að raunvirði en fjárlög 2020. 

Um það er ekki deilt að enn er við líði kynbundinn launamunur á Íslandi, jafnt hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist gegn þessu óréttlæti sem gengur gegn grunnstefnu flokksins og grefur undan þeim grunni laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Þeirri baráttu er ekki lokið. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að styrkja rétt foreldra til fæðingarorlof og hækka greiðslur, sem áhrifaríkt verkfæri til að tryggja jafna stöðu á vinnumarkaði.   

Viðreisn

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumunur á ekki að vera lögmál. Kynbundinn launamun verður að uppræta með öllum ráðum. Við höfum lagt fram tillögur á þingi um sérstakt þjóðarátak, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, um bætt kjör kvennastétta svo þau verði sambærileg við aðrar stéttir með sambærilega menntun. Við erum stolt af lagasetningu Viðreisnar um jafnlaunavottun, sem vakti heimsathygli. Við lögðum fram tillögur um hærri greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi, til þess að bæta kjör barnafjölskyldna og til að tryggja að feður taki orlofið ekki síður en mæður. Ríki og stofnanir eiga að beita kynjaðri fjárlagagerð. Kynbundnu námsvali þarf að útrýma með átaki allra aðila. Raunverulegt jafnrétti  og innan veggja heimilis er forsenda þess að umönnun barna, veikra og aldraðra verði jöfn en ekki fyrst og fremst á herðum kvenna.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

Jafnramt er mikilvægt að við höldum áfram að vinna gegn kynjuðum staðalímyndum hvarvetna í samfélaginu. Ég tel mikilvægt að við lengjum fæðingarorlofið og að við höldum áfram að hvetja foreldra að skipta fæðingarorlofinu jafnt þannig að það verði regla frekar en undantekning að foreldrar sinni börnum sínum til jafns. Þannig getum við sýnt börnunum okkar að umönnun er alls ekki kynjað hlutverk.

Femínískar alþingiskosningar 2021