Femínískar alþingiskosningar 2021

Fulltrúar flokka í framboði til Alþingis 2021 ræddu saman um aðgerðir til að uppræta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, 14. september 2021.

Öllum framboð sem mælst höfðu með yfir 5% fylgi í könnunum síðustu þrjá mánuði var boðið að senda fulltrúa sína á fundina og þátt tóku: Kolbrún Baldursdóttir (Flokkur fólksins), Halldóra Hauksdóttir (Framsóknarflokkurinn), Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir (Miðflokkkurinn), Arndís Anna Gunnarsdóttir (Píratar), Helga Vala Helgadóttir (Samfylkingin), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (Sjálfstæðisflokkurinn), Margrét Pétursdóttir (Sósíalistaflokkurinn), María Rut Kristinsdóttir (Viðreisn) og Brynhildur Björnsdóttir (Vinstri hreyfingin – grænt framboð). Fundarstjóri er Sigþrúður Guðmundsdóttir.

Kvenréttindafélag Íslands, Samtök um kvennaathvarf og Femínísk fjármál stóðu að þessum fundi ásamt fleirum í aðdraganda kosninganna.

Sjá alla fjóra fundi hér.

Spurt er:

Hvaða aðgerðir ætlar flokkur ykkar að standa fyrir til að uppræta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni og til að uppræta ofbeldi í nánum samböndum?

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins hefur skýra afstöðu á sinni stefnuskrá að uppræta skuli með öllum ráðum allt ofbeldi og áreitni. Flokkurinn hvorki umber né líður ofbeldi af neinu tagi. Flokkur fólksins er stofnaður m.a. til að berjast fyrir bættum hag barna, eldri borgara og öryrkja og til að útrýma fátækt. Börn sem alast upp við heimilisofbeldi sem fær að viðgangast óáreitt bíða þess aldrei bætur. Flokkur fólksins vill að umfjöllun um ofbeldi gegn öldruðum fari inn á svið stjórnmála enda er hagur eldri borgara í svo mörgum efnum mótaður af ákvörðunum stjórnvalda.

Flokkur fólksins mun styðja heilshugar aukna fræðslu til ólíkra hópa, barna og fullorðinna og annað sem er til þess fallið að sporna við ofbeldishegðun af hverju tagi, kynbundnu, kynferðislegu, einelti eða öðru. Einn frambjóðenda Flokks fólksins er sálfræðingur og sérfræðingur í eineltismálum og hefur unnið í fjölda slíkra mála um áratuga skeið, skrifað ótal greinar og bók um aðgerðir gegn einelti.

Svör Flokks fólksins við fleiri spurningum sem komu upp á fundinum, m.a. um öryggi og mannréttindi brotaþola heimilisofbeldi, klám, dómskerfið, umgengnismál.

Framsóknarflokkurinn

Framsókn fordæmir allt ofbeldi. 
 
Þegar hafa verið samþykktar þingsályktanir um aðgerðir gegn ofbeldi og forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi meðal barna og ungmenna. Staða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs hefur verið lögfest og viðamiklar lagabreytingar í þágu barna á vegum félags- og barnamálaráðherra. Fræðsla er byrjunin. Efla þarf samvinnu milli lögreglu, sýslumanna og skóla- og velferðarsviða sveitarfélaganna.
 
Áfram þarf að vinna að því að fjölga tilkynningum og byggja upp traust hjá þolendum gagnvart réttarvörslukerfinu. Bæta verður rannsókn og saksókn mála sem varða kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum.  Við höfum sett á nýtt kvennaathvarf og opnað ofbeldisgátt fyrir tilkynningar  um ofbeldi ásamt herferð til þess að auka tilkynningar i heimsfaraldrinum. Einnig var úrræði fyrir gerendur “taktu skrefið” sett á laggirnar. Og munum við útvíkka það og halda àfram að reyna að uppræta ofbeldi. Því án geranda eru engir þolendur.
 
Einnig skipaði menntamálaráðherra starfshóp utanum eflingu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum skal greina með hvaða hætti unnt er að koma á markvissari kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun í grunn- og framhaldsskólum í samræmi við aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla  og grunnþáttinn Heilbrigði og velferð sem þar er að finna. Starfshópurinn skilaði tillögum sem ráðherra er þegar byrjuð  að vinna með og mun halda afram að vinna með þetta til að tryggja viðunandni fræðslu a öllum skólastigum

Miðflokkurinn

Píratar

Píratar vilja innleiða fræðslu um ofbeldi, gagnkvæma virðingu, samþykki og heilbrigð samskipti á öllum skólastigum, hjá opinberum stofnunum, á vinnustöðum, heilbrigðisstofnunum og víðar. 

Tryggja þarf að sönnunargögn um andlegar afleiðingar ofbeldis séu faglega metin fyrir dómi.

Styrkja þarf rétt brotaþola og aðstandenda þeirra til að tjá sig um ofbeldið opinberlega. Meiðyrðalöggjöfin er úrelt og þarfnast heildarendurskoðunar. 

Breyta þarf lögum og framkvæmd þannig að nálgunarbann veiti raunverulega vernd gegn ofbeldi og áreiti í nánum samböndum. 

Tryggja þarf þjálfun og mannskap, og virkara eftirlit með störfum lögreglu, til að auka gæði rannsóknar ofbeldismála, tryggja skjóta málsmeðferð og minnka líkur á að mál séu felld niður vegna annmarka á rannsókn.

Tryggja skal reglubundna sértæka þjálfun aðila sem vinna með þolendum kynbundins ofbeldis og hafa aðkomu að slíkum málum, (heilbrigðisstarfsfólks, lögreglu, dómara og annarra) um kynbundið ofbeldi, afleiðingar þess, einkenni o.s.frv. 

Samfylkingin

Við höfum sett fram aðgerðir til að bæta stöðu þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis, ákveðnar aðgerðir sem við teljum hægt að framkvæma strax.

1.     Breyta réttarstöðu þolenda þannig að þau fái stöðu aðila í sakamáli en ekki vitnis.
2.     Stytta málsmeðferðartíma kynferðis- og heimilisofbeldismála. Það gerum við með fjölgun rannsakenda.
3.     Rýmka gjafsóknarreglur svo þolendur eigi auðveldara með að sækja bætur í einkamáli, hafi mál verið fellt niður á rannsóknarstigi.
4.     Tryggja þolendum rétt til launaðs leyfis í kjölfar kynferðis- og heimilisofbeldis.

Varðandi forvarnir þá leggjum við til að farið verði í markvisst fræðsluuátak á öllum skólastigum en einnig meðal starfsfólks sýslumannsembætta, barnaverndar, félagsþjónustu, heilbrigðisstofnana og síðast en ekki síst innan dómskerfis.

Sósíalistaflokkurinn

Að stofnað verði Ofbeldiseftirlit sem væri stofnun sem tæki til sín málaflokkinn kynbundið ofbeldi, fræðsla og ný nálgun eftirlits og dómskerfis. Vegna umfangs málaflokksins og alvarleika þarf að hefja málin upp fyrir önnur og beina kastljósinu að þeim í mun meira mæli en nú er.  Að úr verði stofnun með þjónustu og fræðslu frá fólki sem hefur sérhæft sig í ofbeldismálum og að þar verði þverfagleg nálgun í málaflokknum.

Margrét Pétursdóttir, 2. sæti NA fyrir Sósíalistaflokkinn

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn er málsvari laga og réttar á þessu sviði eins og öðrum. Hvers kyns ofbeldi á einfaldlega ekki að líðast. Flokkurinn hefur tekið virkan þátt og haft forystu um margvíslegar aðgerðir til að stemma stigu við kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Mikilvægasta verkefnið í því sambandi er aukin fræðsla meðal almennings og einnig aukin fagþekking meðal þeirra opinberu aðila sem koma að þessum málum.  Í þeim verkum sem flokkurinn hefur staðið að sem forystuafl í ríkisstjórn birtist stefna hans hvað skýrast í framkvæmd. Má þar t.d. nefna að á síðasta ári var samþykkt aðgerðaráætlun stjórnvalda um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni fyrir árin 2021 til 2025. Markmið hennar er meðal annars að efla forvarnir meðal barna og ungmenna. Forvarnirnar skulu samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og skulu eiga sér stað á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi. Þess ber að geta að aðgerðir áætlunarinnar eru að fullu fjármagnaðar. Auk framangreinds má nefna að sameiginleg rafræn gátt vegna ofbeldis var sett á laggir fyrir um ári síðan. Vef neyðarlínunnar 112 var breytt í miðstöð  upplýsinga um allt sem viðkemur ofbeldi og opnað var fyrir beint samtal við fagaðila í netspjalli. Vefurinn er aðgengilegur á fleiri tungumálum en íslensku. Sérstakt 112 smáforrit var sérhannað fyrir heyrnarlaust fólk en hentar líka öllum þeim sem eiga erfitt með að hringja eða lýsa aðstæðum. Þá hafa margvíslegar ráðstafanir verið gerðar til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi í tengslum við fullgildingu Istanbúl-samningsins árið 2018. 

Viðreisn

Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi þarf að uppræta með forvörnum og fræðslu og skýrri lagasetningu. Styrkja á réttarstöðu brotaþola, veita þeim aðild í sakamálum og skerpa hlutverk réttargæslumanna og efla þannig traust  á kerfinu. Viðreisn leggur mikla áherslu á að aðgengi þeirra sem beita ofbeldi að úrræðum til að koma í veg fyrir áframhaldandi ofbeldi.  Löggjöf verður að þróast í takt við nýja tíma og geta tekið á nýjum tegundum afbrota. Fjármagna þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, fræðasamfélagsins og grasrótarsamtaka til að ná árangri til lengri tíma litið. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum málum og verða að hafa tækifæri til að vinna þessi mál á eðlilegum málshraða. Því fylgir viðbótarálag fyrir þolendur að bíða eftir niðurstöðu mála sinna mánuðum og árum saman eins og reyndin er. Hafa þarf fjaðarsetta hópa og  fólk af erlendum uppruna sérstaklega í huga.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

Stefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs kveður á um að uppræta þurfi þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi með samhentu átaki stjórnvalda, fræðasamfélagsins, stofnana, grasrótarsamtaka og samfélags.

Gera þarf samstarfsáætlun ríkis og sveitarfélaga um að útrýma kynbundnu ofbeldi og ákvarða tímasettar og árangursmælanlegar aðgerðir og fjármagn til verkefnanna. Koma skal á laggirnar ofbeldisvarnarráði skipuðu viðbragðs- og fagaðilum í málaflokknum til að meta virkni úrræða í takt við þróun og tækniframfarir í samfélaginu. 

Nauðsynlegt er að bæta réttarstöðu brotaþola. Bæta þarf framkvæmd laga um heimildir lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum. Tryggja þarf góða þjónustu við þolendur innan heilbrigðiskerfis, félagsþjónustu og réttarkerfis. Styrkja þarf löggjöf gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að standa með banni við kaupum á vændi. Styðja skal myndarlega við bakið á grasrótarsamtökum sem hafa borið hitann og þungann af ráðgjöf og þjónustu við þolendur. Innleiða skal fjölbreytta kynfræðslu og kynjafræðslu á öll skólastig.

Femínískar alþingiskosningar 2021