Í ár auglýsti Menningar- og minningarsjóður kvenna eftir umsóknum um ferðastyrki frá konum sem eru að sinna ritstörfum sem lúta að þjóðfélagslegum rannsóknum er varða stöðu og réttindi kvenna. Fyrir valinu urðu fjögur verkefni.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir vinnur að doktorsritgerð í mannfræði þar sem hún beinir sjónum sínum að kvenfrelsisbaráttu innfæddra kvenna í Katar við Arabíuflóa. Hún hlaut ferðastyrk til að fara til Katar og sinna rannsóknarvinnu.

Kristín Svava Tómasdóttir vinnur að meistaraverkefni í sagnfræði þar sem leitað er svara við spurningunni hvernig klám var búið til á Íslandi 1968-1978 og hvernig sú þróun kallaðist á við sósíalíska og feminíska strauma þess tíma. Kristín Svava hyggst m.a. vinna að verkefninu í Bandaríkjunum og hlaut ferðastyrk til fararinnar.

Ásta Jóhannsdóttir vinnur að doktorsverkefni sínu í félagsfræði við Háskóla Íslands. Ásta rannsakar sjálfsmynd ungs fólks á Íslandi m.t.t. stéttar og kyngervis og rannsakar m.a. hver er félagsleg merking hugmynda um karlmennsku og kvenleika. Ásta hyggst dvelja í „skrifbúðum“ innanlands í sumar til að fá næði til að sinna vinnunni og fékk styrk til farar sinnar.

Hertha Richardt Úlfarsdóttir er að klára meistarverkefni í kynjafræði. Umfjöllunarefni hennar er upplausn kynhlutverka, kyngervis, kynvitundar, og kynhneigðar. Rannsóknin er eigindleg rannókn þar sem Hertha mun taka viðtöl við einstaklinga vítt og breitt um landið og hlaut styrk til ferðalagsins.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Menningar- og minningarsjóður kvenna var stofnaður 27. september 1941 af börnum Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og var stofnfé sjóðsins 2000 kr. dánargjöf frá Bríeti. Sjóðurinn styrkir konu til náms og ritstarfa og verðlaunar ritgerðir, einkum um þjóðfélagsmál sem varða áhugamál kvenna.

Aðrar fréttir