Kvenréttindafélag Íslands hefur sent inn umsögn við tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025–2028, 227. mál á yfirstandandi þingi. Félagið telur áætlunina vel unna og telur að hún geti orðið til gagns. Þó þarf að skerpa á aðgerðum sérstaklega þegar kemur að kynbundnu ofbeldi en það er faraldur og ógn við þjóðaröryggi og því verður að útrýma. Félagið telur að allt of lítið fjármagn eigi að fylgja áætluninni og að kostnaðarmeta þurfi hvern lið fyrir sig. Þá spyr félagið hvers vegna aðgerðaliðir áætlunarinnar sem voru hluti af henni á fyrri stigum hafa verið felldir brott. Þetta er sérlega bagalegt þegar kemur að aðgerðum sem varða konur af erlendum uppruna.