Miðvikudaginn 20. febrúar verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík opinn fundur um framlag kvenna til friðarferlisins í Mið-Austurlöndum með fulltrúum friðarráðs palestínskra og ísraelskra kvenna. Fundurinn er haldinn í tilefni heimsóknar tveggja áhrifakvenna úr friðarráðinu, Anat Saragusti, sjónvarpsfréttakonu frá Ísrael, og Maha Abu-Dayyeh Shamas, baráttukonu fyrir auknum réttindum kvenna í Palestínu. Þær munu halda erindi um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, friðarferlið og aðkomu ráðsins að því.
Friðarráðið var stofnað árið 2005 af áhrifakonum í palestínsku og ísraelsku þjóðlífi; þingmönnum, ráðherrum og forystukonum frjálsra félagasamtaka. Margar þeirra höfðu áður starfað saman að friðarmálum um áratuga skeið. Auk þess eru erlendar áhrifakonur heiðursfélagar, þeirra á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra en hún kynnist konunum og starfi þeirra á ferð sinni til Mið-Austurlanda sl. sumar. Ráðið, sem nefnist á ensku International Women’s Commission for a Just and Sustainable Palestinian-Israeli Peace, nýtur stuðnings Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna fyrir konur, UNIFEM.
Fundarstjóri verður Ólafur Stephensen ritstjóri, en fundurinn, sem fram fer á ensku, er öllum opinn. Hefst hann kl. 12:15.