Steinunn Stefánsdóttir
formaður Kvenréttindafélags Íslands


Íslenska fæðingarorlofslöggjöfin er líklega sú framsæknasta í heimi. Orlofið er ekki það lengsta og orlofsgreiðslur eru ekki þær hæstu. En uppbygging orlofsins og hugmyndafræðin á bak við hana ber því glöggt vitni að markmiðið með löggjöfinni er að jafna stöðu kynjanna. Hvort foreldri um sig hefur rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi, og þrír mánuðir til viðbótar eru til sameiginlegrar ráðstöfunar.

Alltaf er þó hægt að gera betur. Lágt þak á fæðingarorlofsgreiðslum og lengd orlofsins er hvort tveggja ófullnægjandi.

Jafnt fæðingarorlof ein undirstaða kynjajafnréttis

Fæðingarorlof feðra er veigamikill liður í því að Ísland, og raunar Norðurlöndin öll, teljast samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum þau lönd sem hvað lengst hafa náð í jafnréttismálum. Áhrifa fæðingarorlofs feðra gætir bæði útávið og innávið.

Áhrifin útávið felast í því að feður eru mun líklegri til að taka sér fæðingarorlof. Samanburðarrannsóknir á fæðingarorlofinu á Norðurlöndum gefa til kynna að þeim mun jafnari sem fæðingarorlofslengd karla og kvenna er, þeim mun jafnari sé staða ungra kvenna og karla á vinnumarkaði með tilliti til þess hversu líklegt er að þau hverfi úr störfum sínum um lengri eða skemmri tíma vegna barnsfæðinga. Þetta ætti að draga úr launamun kynja.

Áhrifin innávið felast í því að feður sem hafa farið í fæðingarorlof til að annast börn sín eru líklegri til að taka þátt í ábyrgð á börnum til jafns við mæður heldur en þeir feður sem lítið eða ekkert fæðingarorlof hafa tekið. Þetta ætti að skila sér áfram í meira jafnræði gagnvart störfum og skyldum á heimilinu. Þessi áhrifaþáttur eykur lífsgæði bæði foreldra og barna.

Þessi áhrif skila sér svo aftur útávið því jafnari ábyrgð á heimilishaldi og barnauppeldi eykur svigrúm kvenna úti á vinnumarkaðinum, og þar með ætti sú staða einnig að hafa áhrif á launabilið milli kynjanna.

Þak fæðingarorlofsgreiðslna verður að hækka

Með fæðingarorlofslögunum frá 2000 varð bylting varðandi fæðingarorlofstöku feðra en fram að því höfðu mæður átt sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða og foreldrarnir sameiginlegan rétt til annarra þriggja mánaða. Þrátt fyrir efasemdaraddir um áhuga karlmanna á að taka fæðingarorlof sóttu yfir 80% feðra um orlof strax á fyrsta ári. Frá árinu 2007 hafa um 90% íslenskra feðra nýtt sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs.

Hins vegar taka feður mun styttra orlof en mæður. Fimmtungur feðra sem tekur fæðingarorlof fullnýtir ekki sína þrjá mánuði og einungis fimmtungur feðra nýtir eitthvað af sameiginlegum orlofsrétti beggja foreldra. Til þess að breyting geti orðið á þessu og taka fæðingarorlofs verði jafnari milli foreldra verður að hækka þakið á fæðingarorlofsgreiðslum.

Fram til ársins 2004 var ekkert þak á greiðslum í fæðingarorlofi, þ.e. foreldrar fengu hlutfall tekna sinna óháð því hversu háar þær voru. Árið 2004 var fyrst sett þak á greiðslurnar en það var svo hátt að einungis örlítið brot feðra rakst á það. Árið 2010 rakst hins vegar tæpur helmingur þeirra feðra sem tók fæðingarorlof á þakið. Áhrif þessa er að feður taka nú styttra orlof en áður, þ.e. lengd orlofs feðra er innan við helmingur af orlofi mæðra en nálgaðist 60% þegar mest var árið 2008.

Ljóst er að meðan þakið á fæðingarorlofsgreiðslum er þetta lágt er það ekki raunverulegur valkostur fyrir feður með lágar tekjur og í millitekjuhópum að taka fæðingarorlof í þrjá mánuði eða meira. Í raun þurfa tekjur þeirra að vera svo háar að verulega launaskerðing í þrjá til sex mánuði valdi ekki heimilinu miklum búsifjum. Hækkun á þaki fæðingarorlofsgreiðslna er því lykilatriði til þess að fæðingarorlofslögin nái að þjóna tilgangi sínum, sem er að þátttaka foreldra í barnauppeldi sé sem jöfnust.

Feður taka lengra orlof þegar þeir hafa rétt á lengra orlofi!

Peningar skipta máli, en þeir skipta ekki öllu máli. Norrænar rannsóknir hafa sýnt að það eru margir þættir sem hafa áhrif á hve langt fæðingarorlof feður taka, og samspil þessara þátta er flókið.

2011 gaf Norræna ráðherranefndin út greinasafnið Parental leave, childcare and gender equality in the Nordic Countries þar sem rannsóknir á fæðingarorlofi á Norðurlöndunum voru kynntar (hægt er að lesa alla bókina á vefnum, eða hlaða henni niður til lesturs í spjaldtölvum. Smellið hér!). Í greinasafninu kom skýrt fram að upphæð fæðingarorlofsgreiðslna skipti ekki öllu máli fyrir lengd orlofsins sem er tekið — og jafnvel ekki höfuðmáli.

Margvíslegar aðrar ástæður hafa áhrif á lengd fæðingarorlofs sem feður taka. Aldur feðra hefur einnig áhrif, menntun, hvort hann starfi í opinbera geiranum eða einkageiranum, hvort aðrir feður á vinnustað hans hafi tekið fæðingarorlof og þá hve lengi, stærð vinnustaðarins, starfsöryggi, yfirvinna á vinnustað, sveigjanleiki fæðingarorlofsins, laun móður eða hins foreldrisins, o.s.frv.

Eftir að hafa tekið saman mismunandi breytur sem hafa áhrif á lengd orlofs sem feður taka í mismunandi löndum, þá er kannski bara ein breyta sem við getum sagt að skipti höfuðmáli, og hún er sú að því meiri rétt sem feður hafa á fæðingarorlofi, því lengra fæðingarorlof taka þeir!

Íslenskir feður taka sér langt fæðingarorlof í samanburði við aðra norræna feður, því réttur þeirra til fæðingarorlofs er lengstur. Sænskir feður taka einnig langt fæðingarorlof í samanburði við nágranna sína, því að þrátt fyrir að fæðingarorlofið sem bundið er feðrum sé aðeins tveir mánuðir, þá er sameiginlegt orlof foreldranna svo langt í Svíþjóð (60 vikur) að feður eru líklegri til að taka hluta þess heldur en ef sameiginlega fæðingarorlofið væri styttra.

Fæðingarorlofið verður að lengja

Stærsti gallinn í útfærslu fæðingarorlofslaganna á Íslandi er lengd orlofsins. Á Íslandi er fæðingarorlof níu mánuðir ef það er fullnýtt. Þetta er stysta fæðingarorlofið á Norðurlöndum.

Vorið 2013 voru samþykkt á Alþingi ný lög þar sem fæðingarorlof var lengt úr 9 mánuðum í 12, og átti skiptingin að vera sú að að fimm mánuðir væru bundnir við hvort foreldrið, og tveir mánuðir væru sameiginlegir til skiptana. Einnig var lagt til að hækka þak fæðingarorlofsgreiðslna úr 300.000 kr. í 350.000 kr., eftir mikinn niðurskurð áranna fyrst á eftir hrun.

Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnaskipti urðu það árið, og í desembermánuði 2013 nam sú ríkisstjórn sem nú situr úr gildi þessi lög um lengingu fæðingarorlofs, þó að hækkun á hámarksupphæð greiðslna væri staðfest.

Enn er því fæðingarorlof á Íslandi til mikilla muna styttra en annars staðar á Norðurlöndum. Það er ekki síst baráttumál frá sjónarhorni velferðar barna að þessi áður fyrirhugaða lenging gangi eftir. Öll börn ættu að eiga þess kost að vera í umsjá foreldra sinna þar til skólaganga á fyrsta skólastiginu, leikskólanum, hefst.

Þessi grein birtist upphaflega í VR blaðinu, í janúar 2015

Aðrar fréttir