Kvenréttindafélag Íslands styður að ríkið taki aukin þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgunar en leggst gegn því að fallið verði frá greiðsluþátttöku hins opinbera í ófrjósemisaðgerðum.

Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna og lögum um ófrjósemisaðgerðir (greiðsluþátttaka hins opinbera).

Kvenréttindafélag Íslands styður 1. gr. frumvarpsins heilshugar og fagnar því að íslenska ríkið taki meiri þátt í þeim mikla kostnaði sem af tæknifrjóvgun hljótast.

Félagið gerir alvarlegar athugasemdir að fjármagna eigi þennan þátt með því að hætta greiðsluþátttöku í ófrjósemisaðgerðum og telur að sú hugmynd vegi alvarlega að kynfrelsi kvenna og leghafa og möguleikum þeirra til þess að hafa vald yfir eigin líkama. Með því að hætta niðurgreiðslu á ófrjósemisaðgerðum er konum ýtt út í að nota til langframa hormónatengdar getnaðarvarnir sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu þeirra, auk aukins kostnaðar sem leggst iðulega á konur, hlýst af þeim.

Afleiðingarnar af 2. gr. frumvarpsins gætu orðið þær að efnaminni konur og leghafar hvort sem þau eru í samböndum eða ekki gætu orðið að þau verði þunguð gegn vilja sínum. Með því að ætla sér að greiða fyrir frjósemisaðgerðir með því að hætta að greiða fyrir ófrjósemisaðgerðir gæti frumvarpið, verði það samþykkt í óbreyttri mynd, orðið til þess að draga úr lífsgæðum efnaminni kvenna.

Rétturinn til þess að stjórna eigin líkama er grunndvallaratriði í mannréttindamálum leghafa og að mati Kvenréttindafélags Íslands vegur 2. gr. að þeim rétti með það alvarlegum hætti að samtökin telja að fella verði 2. gr. frumvarpsins út í heild sinni.