Mánudaginn 19. júní 2017 fagnaði Kvennaheimilið Hallveigarstaðir 50 ára afmæli sínu. Að því tilefni var blásið til afmælisveislu að Hallveigarstöðum og mættu rúmlega 200 gestir.
Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður Kvenréttindafélagsins og formaður húsnefndar Hallveigarstaða ávarpaði fundinn, sem og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Á fundinum afhenti húsnefnd Hallveigarstaða frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands og Auði Hauksdóttur, forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur styrk til að styðja fagna opnun Veraldar – húss Vigdísar.
Ræðu Guðna er hægt að lesa á vefsíðu forsetaembættisins, hér.
Fríða Rós hélt ræðu sem hér er birt, fyrir neðan myndir af viðburðinum.
[envira-gallery id="12067"]
—
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Forsetafrú Elíza Reid. Fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir. Kæru fundargestir. Kæru konur.
Verið velkomin á Hallveigarstaði, í dag þegar við fögnum því að 102 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt, og við fögnum því að 50 ár eru liðin frá því að Kvennaheimilið Hallveigarstaðir opnaði dyr sínar.
Draumurinn um kvennahús hefur lifað lengi í brjóstum kvenna. Það var fyrst árið 1919 að Laufey Vilhjálmsdóttir hélt ræðu á fundi Bandalags kvenna í Reykjavík um að konur skyldu reisa hús, Kvennaheimili sem myndi hýsa félög kvenna og hlúa að félagsskap og félagsstarfi kvenna.
Konur hugsuðu stórt. Kvennaheimilið átti að vera miðstöð sem allar konur á Íslandi gætu haft aðgang að. Þar áttu að vera 50 til 60 herbergi fyrir utanbæjarstúlkur sem gætu dvalið þar til lengri eða skemmri tíma vegna náms og starfa. Nokkrar einstaklingsíbúðir áttu að vera þar líka, kennsluaðstaða, skrifstofur kvennasamtaka, bókasafn Lestrarfélags kvenna, lestrarsalur og leiðbeiningastöð heimilanna. Þá átti í húsinu einnig að vera hússtjórnarkennsla og mat- og kaffisala. Einhversstaðar sá ég líka að húsið gæti orðið hvíldarstaður fyrir örþreyttar húsmæður.
Ýmsar mótbárur þurftu konur að svara fyrir um nauðsyn þess að Hallveigarstaðir skyldu rísa. Til að mynda voru einhverjir uggandi yfir því að heimilin í landinu myndu leysast upp ef konur fengju hús til að halda sína fundi í. Öðrum fannst nú að konur ættu fyrst að fjármagna: hjúkrunarheimili, barnaheimili, háskóla, dómkirkju og jafnvel fangelsi. Áður en þær gætu farið að snúa sér að söfnun fyrir kvennaheimili. Þær voru á þessum tíma búnar að safna fyrir og láta reisa Landsspítalann.
„Vel skal það vanda sem lengi á að standa.“ Sagði Björg C. Þorláksson á hluthafafundi Hallveigarstaða árið 1927. Það gekk svo sannarlega eftir. Það tók langan tíma að láta þennan stóra draum rætast, næstum því hálfa öld, því Kvennaheimilið opnaði ekki dyr sínar fyrr en 19. júní árið 1967.
Húsið var reist hér á Túngötu 14, í hjarta Reykjavíkurborgar, og var það Sigvaldi Thordarson sem teiknaði húsið. Sigvaldi lést reyndar áður en húsið var reist, og var það Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt sem lauk við starfið.
Kvennaheimilið fékk nafnið Hallveigarstaðir og er það nefnt í höfuðið á fyrstu landnámskonunni í Reykjavík, Hallveigu Fróðadóttur.
Vegna fjárhagsörðugleika, og hugsanlega vegna samfélagsbreytinga sem urðu frá því að hugmynd um Hallveigarstaði kom upp, þar til það var vígt, var starfsemi hússins ekki sú sama og upphaflega stóð til. Rekstur hússins var mjög erfiður fyrstu árin, og þurfti því frá upphafi að leita til leigjenda til að leigja aðsetur í húsinu. Kvenskátar, Húsmæðrafélag Reykjavíkur, Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið voru fyrstu leigjendur í húsinu, og í kjölfarið flutti Borgardómaraembættið einnig inn.
En þessir leigjendur, sem og allir leigjendur sem hafa haft aðsetur í húsinu til lengri eða skemmri tíma, hafa reynst vera hjarta Hallveigarstaða. Því að þrátt fyrir að Kvennaheimilið Hallveigarstaðir sé ef til vill ekki heimili fyrir einstakar konur, þá eru Hallveigarstaðir heimili fyrir samtök og samkomur kvenna.
Í dag er fjölbreytt flóra kvennasamtaka með aðsetur í húsinu. Við erum hér í Kvenréttindafélaginu, Bandalagi kvenna í Reykjavík og Kvenfélagasambandi Íslands. Hér er einnig Leiðbeiningastöð heimilanna, Kvennaráðgjöfin sem rekur ókeypis lögfræðiaðstoð fyrir konur, Samtök kvenna af erlendum uppruna, og skáldkvennasamtökin Druslubækur og doðrantar.
Og aðrir leigjendur eru okkur einnig til sóma. Tvö sendiráð og eitt konsúlat er í húsinu, Kanada, Færeyjar og Ástralía, sem og Jafnréttisstofa, Mannréttindaskrifstofa Íslands, stjórnmálahreyfingin VG, Siðmennt, Félag einstæðra foreldra, lögfræðistofan Lagaþing sem rekin er af konum, kvikmyndagerðakonan Ísold Uggadóttir og hópur listakvenna sem leigja hér vinnuaðstöðu.
Við erum þrjú félögin sem höldum utan um rekstur Hallveigarstaða, Bandalag kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands. Í fimmtíu ár höfum við hlúð að Hallveigarstöðum, og Hallveigarstaðir hafa að sama skapi hlúð að okkur.
Fræg er bókin eftir Virgíníu Woolf, Sérherbergi, sem á síðustu öld skrifaði að það væri hverri konu nauðsyn að eiga eigið sérherbergi. Í þessu herbergi geta konur hæft næði til að hugsa og til að skrifa og til að skapa. Hallveigarstaðir eru okkar sérherbergi. Í fimmtíu ár hafa fjölmörg kvenfélög og kvennasamtök haft aðsetur, afdrep, notið skjóls á Hallveigarstöðum til að skrifa og til að skrafa og til að skipuleggja. Kvenfrelsisbaráttan og baráttan fyrir jafnrétti kynjanna hefði óneitanlega verið mikið erfiðari ef ekki væri fyrir hús eins og Hallveigarstaði. Hús sem varð til með afli samstöðu kvenna á Íslandi – styrkari og stöðugri grunn get ég ekki ímyndað mér að finnist í heiminum – já eg ætla að leyfa mér að nota svo stór orð.
Við vígslu Hallveigarstaða var sett upp listsýning á verkum íslenskra kvenna þar sem sýnd voru verk eftir 27 konur, málverk, höggmyndir, listvefnaður og leirmunir. Við fögnum þessum fimmtíu árum á svipaðan hátt, með því að hampa listaverkum kvenna.
8. mars síðastliðinn var það ritlistin sem var í forgrunni, og fimm skáldkonur sem heita Kristín mættu og lásu upp úr verkum sínum. 24. október, á kvennafrídeginum, er það danslistin og dansgleðin sem ræður ríkjum.
Og í dag, 19. júní, er það tónlistin sem ræður ríkjum, en Ragnheiður Gröndal mun syngja fyrir okkur á eftir og Helga Laufey Finnbogadóttir spilar á flygilinn. Og já, í dag er það einnig samræðulistin sem mun ráða ríkjum, því eins og þið eflaust hafi tekið eftir er dagskráin í dag ekki sérstaklega viðamikil. Engar langar ræður verða haldnar hér í dag. Því við viljum að þið, konurnar sem byggðu húsið, séu í aðalhlutverki í dag, að samræður ykkar í kringum borðin og á göngum hússins verði það helsta á dagskrá í dag.
Að þessum orðum sögðum, þá langar mig að bjóða ykkur öll velkomin á afmælishátíð Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.