Í dag, 19. júní á 109 ára afmæli kosningaréttar kvenna spurðum við Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur um jafnréttismál og tímann hjá Kvenréttindafélaginu en Brynhildur leiddi Kvenréttindafélagið í heil 11 ár eða frá 2011 til 2022.
- Hvað hvatti þig til að taka að þér starf framkvæmdastýru Kvenréttindafélags Íslands?
Ég hóf störf hjá Kvenréttindafélaginu í árslok 2011. Ég man þegar ég fékk símtalið að ég hefði verið ráðin. Ég var stödd á Siglufirði og ég rambaði niður á höfn, settist niður og horfði út yfir sjóndeildarhringinn, svo innilega glöð og spennt fyrir framtíðinni. Ég hef verið femínisti síðan ég var unglingur, tók mín fyrstu skref í ritstjórn Veru og í Bríeti – félagi ungra femínista. Þar tóku reyndari konur mig upp á arma sína
og ólu mig upp í hreyfingunni; að fá tækifæri til að starfa í fullu starfi sem femínisti og taka þátt í að móta næstu skref baráttunnar var mér ómetanlegt.
- Hvaða verkefni eða baráttumál fannst þér erfiðust í þinni tíð þar? Hverju ertu stoltust af frá þessum tíma?
Ég er stoltust af því að hafa tekið þátt í að byggja Kvenréttindafélag Íslands upp á nýtt og skapa sterkt félag til framtíðar. Kvenréttindafélagið er gamalt félag, stofnað 1907 og fagnaði því 117 ára afmæli sínu í ár. Eins og gengur og gerist með svona rótgróin félög fara þau í gegnum hæðir og lægðir í baráttunni. Þegar ég tók til starfa var félagið stolt en magnlítið. Ásamt frábærri stjórn tókst okkur að endurvekja félagsstarfið, treysta fjárhagslegan grundvöll félagsins og skerpa á stefnuskránni.
Það er ótal margt sem er mér minnisstætt frá þeim tíma sem ég starfaði fyrir félagið. Ein erfiðasta umræðan sem ég tók þátt í var um þungunarrofið sem við settum á aftur á dagskrá hjá félaginu 2014. Við yngri femínistarnir vildum ljúka málinu, að tryggja óskertan ákvörðunarrétt fólks yfir eigin líkama, en þær sem eldri voru, voru hikandi þar sem þær mundu eftir hve erfið baráttan hafði upphaflega verið á áttunda áratugnum. Ný lög um þungunarrof voru svo samþykkt á Alþingi 2019.
- Hvaða áhrif hefur starf Kvenréttindafélagsins haft á réttindi og stöðu kvenna á Íslandi frá því að það var stofnað og til dagsins í dag?
Kvenréttindafélag Íslands hefur í rúmlega hundrað ár gegnt lykilhlutverki í baráttunni fyrir kvenfrelsi og kynjajafnrétti. Félagið var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur til að berjast fyrir kosningarétti kvenna og enn fremur til að berjast fyrir jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.
Í fyrstu lögum félagsins segir að markmið þess sé „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“. Markmið Kvenréttindafélagins eru þau sömu í dag og þau voru árið 1907. Það er ekki nóg að tryggja konum formleg réttindi í lögum, það þarf að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði kvenna svo þau geti nýtt sér þessi réttindi, sömu laun fyrir sambærileg störf.
En auðvitað er baráttan í dag víðari en konur gátu ímyndað sér árið 1907. Skilningur okkar á kynjakerfinu er dýpri og baráttan fyrir kynjajafnrétti er ekki einungis barátta fyrir kvenfrelsi heldur einnig barátta fyrir frelsi kvára; mismunun á grundvelli kyns er ekki hægt að uppræta ef við upprætum ekki mismunun á grundvelli annarra þátta, svo sem uppruna, fötlunar, eða annarra þátta.
- Hvaða máli skiptir alþjóðlegt samtal og samvinna milli samtaka um réttindi kvenna?
Þátttaka í alþjóðastarfi femínísku hreyfingarinnar skiptir okkur á Íslandi öllu máli. Konur á Íslandi eru ekki frjálsar fyrr en konur um allan heim eru frjálsar.Við á Íslandi höfum ávallt lært af reynslu annarra þjóða og síðustu árin höfum við komið okkar reynslu á framfæri við aðrar þjóðir. Kvenréttindafélagið var upphaflega stofnað í fyrstu bylgju femínismans og tók þátt í alþjóðlegri baráttu fyrir kosningarétti kvenna. Á áttunda áratugnum reið önnur bylgja femínismans yfir heimskringluna og skall á ströndum Íslands með krafti, þegar Rauðsokkur og kvenfélög út um allt land skipulögðu fyrsta kvennafríið 1975.
Í dag líta þjóðir heims til okkar á Íslandi. Við erum það land sem hefur náð hvað lengst að tryggja kynjajafnrétti og þeim árangri höfum við einungis náð vegna sleitulausrar baráttu femínista og annarra aktívista í rúmlega hundrað ár.
- Hverjar eru helstu áskoranir sem konur og kvár standa frammi fyrir í dag?
Helstu áskoranirnar sem konur og kvár standa fyrir í dag eru þær sömu og þær voru fyrir hundrað árum: peningar og ofbeldi. Enn í dag fá konur og kvár ekki borguð sömu laun fyrir sambærileg störf og enn í dag er ofbeldi gegn konum og kvár landlægt vandamál.
Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og 40% kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir ofbeldi samkvæmt tölum frá rannsókninni Áfallasögu kvenna. Það er mikið verk framundan að tryggja jafnrétti á Íslandi.
- Hvernig sérðu fyrir þér framtíð Kvenréttindafélagsins og baráttuna fyrir jafnrétti á Íslandi?
Framtíð Kvenréttindafélagsins er björt. Félagsstarfið er lifandi og gróskumikið og ungt fólk tekur virkan þátt í baráttunni. Kvenréttindafélagið hefur ávallt leitt saman konur úr ólíkum áttum sem deila sama draumi: kvenfrelsi og jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Við komum úr ólíkum áttum og höfum ólíkar skoðanir á því hvernig við viljum ná þessu markmiði, en saman stefnum við þangað.
Við í Kvenréttindafélagi Íslands stöndum þétt með öðrum samtökum og hópum í femínísku hreyfingunni því að við vitum að saman erum við óstöðvandi. Síðustu árin hefur Kvenréttindafélagið haldið árlegt Kynjaþing, þar sem frjálsum félagasamtökum og hópum sem starfa að femíniskum málum gefst tækifæri til að halda viðburði. Hugmynd á bak við þingið er að þar sé sjálfbær vettvangur fyrir femínískt grasrótarstarf; tækifæri fyrir femínista að ráða saman ráðum sínum og plotta næstu byltinguna.
- Af hverju skiptir máli að Kvenréttindafélag Íslands sé til og að fólkið í landinu styðji við það?
Ég elska Kvenréttindafélagið og tel það vera besta félag í heimi. Þetta 117 ára gamla félag sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir stofnaði til að breyta heiminum hefur ennþá hátt í baráttunni fyrir jafnrétti og gegn óréttlæti. Ég hef verið stoltur félagi síðan 2009 og stuðningsaðili síðan 2023.
Án stuðnings félagsfólks væri starf Kvenréttindafélagsins ómögulegt. Svo ég hvet öll til að styðja Kvenréttindafélag Íslands, bæði með því að gerast stuðningsaðili en einnig að koma og taka þátt í félagsstarfinu með okkur. Saman breytum við heiminum.