Kvenréttindafélag Íslands sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Tímamót áttu sér stað í íslensku samfélagi í gærkvöldi þegar ríkisstjórn landsins féll, ekki vegna peninga, ekki vegna pólitísks ágreinings atvinnustjórnmálamanna, heldur vegna þess að konur höfðu hátt. Fólk hafði hátt. Fólk hafði hátt um ofbeldi sem konur og börn voru beitt. Fólk hafði hátt þegar dæmdir ofbeldismenn bönkuðu á dyr hjá vinum sínum til að biðja um greiða, til að leita samtryggingarinnar. Fólk hafði hátt þegar skrifræðið stimplaði hugsunarlaust á pappíra sem veittu ofbeldismönnum uppreist æru, án umræðu, án gagnsæis.

Við sem samfélag höfum ekki lengur umburðarlyndi fyrir kynbundnu ofbeldi, fyrir ofbeldi gegn konum og börnum. Allt of lengi hefur ríkt þöggun í landinu okkar um þá staðreynd að stór hluti kvenna og barna verður fyrir ofbeldi af hálfu þeirra sem næst þeim standa, eru ekki örugg á þeim stað sem þau ættu að vera öruggust á, á heimilum sínum.

Við erum fullsödd á kerfi sem verndar ofbeldismenn og er sama um þolendur. Ofbeldi gegn konum er bein ógn við lýðræðislega þátttöku kvenna og þar með við lýðræði landsins. Hvernig getum við byggt jafnrétt og framsýnt samfélag, þegar við getum ekki enn tryggt öryggi allra borgara?

Tökum nú saman höndum, hægri og vinstri, konur og karlar og við öll þar á milli, og sköpum saman samfélag sem við erum stolt af, samfélag sem samtryggir okkur öll, ekki bara suma.

#höfumhátt

 

Aðrar fréttir