Athygli Kvenréttindafélags Íslands var vakin á því að nýkjörin stjórn Nemendafélags Verslunarskóla Íslands er eingöngu skipuð karlmönnum. Aðeins hafi verið þrír kvenmenn af 20 frambjóðendum til embætta í stjórn NFVÍ. Á grundvelli jafnréttisumræðu undanfarinna ára, áskorana til fyrirtækja og stofnana um að bæta kynjahlutfall í stjórnum sínum, í ljósi nýrra jafnréttislaga og hvatningar ríkisstjórnar til jafnréttis í stefnuyfirlýsingu þá er stjórn KRFÍ undrandi yfir þróun mála í Versló. Það skýtur skökku við að sjá ekki einn fulltrúa þeirra 60% kvenkyns nemenda sem í Versló eru í stjórn nemendafélagsins.
Stjórn KRFÍ hvetur stúlkur í Versló til að líta til framtíðarhagsmuna sinna. Mikilvægt er að grípa hvert tækifæri sem gefst til þess að fá góða þjálfun fyrir þau verkefni sem bíða á vinnumarkaði framtíðarinnar t.d. með því að taka virkan þátt í stjórnum, nefndum og ráðum sem í boði eru á framhaldsskólaárum, vera í forsvari, axla ábyrgð og gera sig gildandi. Stúlkur! Brettið upp ermar fyrir næstu kosningar svo stjórn nemendafélagsins endurspegli raunverulegt kynjahlutfall nemenda í Versló. Kvenréttindafélag Íslands var stofnað fyrir rúmum hundrað árum, árið 1907, til þess m.a. að berjast fyrir réttindum kvenna til þess að kjósa, bjóða sig fram í áhrifastöður í samfélaginu og fá sömu laun fyrir sömu störf og karlar. Þessi réttindi teljum við sjálfsögð og eðlileg í dag og viljum að synir okkar og dætur hafi jafnan rétt til náms og starfa, áhrifa og launa. Við þurfum að halda þeim réttindum í heiðri sem formæður okkar börðust fyrir okkur öllum til handa. Það vekur því athygli stjórnar KRFÍ að heilli öld síðar skuli ungar konur veigra sér við að taka slaginn í sínu nánasta umhverfi. Hver og ein okkar skiptir máli. ÁFRAM STELPUR!
Stjórn Kvenréttindafélagsins skorar á alla nemendur Verslunarskólans að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi í félagsstarfi sínu innan veggja skólans sem utan og stuðla þannig að möguleikum allra, óháð kyni, uppruna, trúarbrögðum, eða stöðu að öðru leyti til að njóta hæfileika sinna.