Ísland skal tryggja grundvallamannréttindi fyrir öll

Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:


23. febrúar 2022
Hallveigarstaðir, Reykjavík

 

Það vekur ugg að fylgjast með brotum á mannréttindum kvenna sem minnst mega sín og sem koma til Íslands í von að bjarga lífi sínu. Nú hefur dómsmálaráðherra gefið út drög að frumvarpi til laga breytingum á útlendingalögum nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 (atvinnuleyfi) þar sem ekki er tekið tillit til sérstakrar stöðu kvenna eða annarra jaðarhópa, ekkert jafnréttismat hefur verið framkvæmt og hunsuð eru þau ólíku áhrif sem breytingum á lögunum hafa á stöðu kynjanna. Það segir eitthvað um stöðu jafnréttismála á Íslandi þegar æðstu stjórnvöld fara ekki eftir sínum eigin reglum um samþættingu jafnréttissjónarmiða.

Jafnréttisparadísin Ísland?

Íslensk stjórnvöld hafa verið dugleg að hreykja sér af jafnréttisparadísinni okkar við hvert tækifæri bæði heima og erlendis. Konur koma hingað í von að geta fengið sanngjarna meðferð en þeim er oftar en ekki hent út úr landi áður en þær geta talað fyrir sínu máli, sem er grunnkrafa allra lýðræðislega réttarkerfa. 

Íslendingar eru frægir á alþjóðlegum vettvangi fyrir að hafa þróað alls konar lausnir, lög og reglugerðir til að jafna hlut kynjanna. Þetta á að ná til allra á Íslandi, ekki bara okkar sem innfædd eru heldur einnig til okkar sem flytja hingað og okkar sem leita hér verndar. Aðgerðir til að ná kynjajafnrétti eiga að ná til allra kvenna, líka kvenna á flótta. Kynjasjónarmið þurfa því að vera höfð í huga við úrvinnslu allra mála, líkt og breytingum á útlendingalögum.

Kvenréttindafélagið hvetur stjórnvöld til að standa með mannréttindum

Samhliða þessum frumvarpsdrögum hafa stjórnvöld rift samningi sínum við einn mikilvægasta málsvari hælisleitenda, Rauða Kross Íslands, svo þau geta ekki lengur haldið uppi lögfræðiaðstoð til hælisleitenda. Þar með er grafið undan þekkingu og reynslu innan stjórnsýslunnar til að sinna málaflokknum. 

Íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar til að vernda konur, þar með talið þær sem eru á flótta, sáttmála líkt og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og Istanbúlsamninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum. 

Kvenréttindafélagi Íslands þykir enn fremur leitt að sjá að ákvarðanir dómsmálaráðherra í útlendingamálum ganga þvert á gildandi stjórnarsáttmála, en þar kemur fram að jafnrétti kynjanna sé mikilvægur þáttur í heilbrigðu samfélagi og verði áfram forgangsmál. Mikilvægt er að stjórnvöld framfylgi stjórnarsáttmálanum og tryggi það að kynjajafnrétti gildi fyrir alla, óháð uppruna og samfélagsstöðu. 

Stöndum vörð um jafnrétti 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar að standa vörð um konur og enn fremur til að standa vörð grundvallargildi íslensks samfélags, jafnrétti, lýðræði og frelsi einstaklingsins.