Kvenréttindafélag Íslands hefur skilað in umsögn um drög að landsáætlun um kynbundið ofbeldi gegn konum í samráðsgátt stjórnvalda.

Félagið styður heilshugar vinnu við landsáætlun gegn kynbundnu ofbeldi. Kvenréttindafélagið áréttar eindreginn vilja sinn til þess að aðstoða við framkvæmd áætlunarinnar.

Kvenréttindafélagið tekur undir þessa fullyrðingu í inngangsorðum draga:

„Kynbundið ofbeldi er í senn eitt útbreiddasta mannréttindabrot heimsins og ein alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis. Íslensk stjórnvöld telja það lykilatriði í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og leggja áherslu á markvissar aðgerðir”.

Jafnframt bendir félagið á að aukið jafnrétti er í sjálfu sér ofbeldisforvörn eins og fram kemur í Istanbúlsamningnum og forvarnarstoð hans. Því eru allar aðgerðir sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna óbeint hluti af þessari áætlun.

Því miður er ofbeldi gegn konum viðvarandi vandamál á Íslandi sem ekki hefur tekist að vinna bug á og þessi landsáætlun er því afar mikilvæg. Í henni eru góðir punktar en Kvenréttindafélag Íslands telur að landsáætlunin taki ekki nægjanlega vel á athugasemdum Grevio-nefndarinnar, að ákvæði áætlunarinnar séu allt of veik og að verulega vanti upp á að áætlunin muni leiða til aukins öryggis þolenda eða fyrirbyggja kynbundið ofbeldi.

Aðrar fréttir